Jes Staley, forstjóri Barclays banka, hefur látið að störfum vegna rannsóknar á tengslum hans við fjárfestirinn og kynferðisbrotamanninn Jeffrey Epstein. Staley er 64 ára og hefur verið forstjóri bankans frá árinu 2015.
Í frétt Bloomberg um málið segir að niðurstaða opinberrar rannsóknarnefndar á tengslum Staleys og Epstein hafi verið kynnt stjórnendum bankans á föstudagskvöld. Nefndin hefur unnið að rannsókninni í tvö ár en í henni var m.a. skoðað hvernig Staley útskýrði langvarandi samband sitt við Epstein fyrir stjórnendum bankans. Epstein er sakaður um fjölda kynferðisglæpa og mansal en hann lést í fangelsi í New York áður en réttarhöldin yfir honum hófust.
Í yfirlýsingu frá stjórn bankans í gær, mánudag, sagði að í ljósi frumniðurstaðna rannsóknarinnar, sem Staley mótmæli, hafi stjórnin komist að samkomulagi við hann um starfslok. Niðurstöður rannsóknarinnar hafa enn ekki verið gerðar opinberar en í yfirlýsingu stjórnar bankans segir að í henni komi ekkert fram um að „Staley hafi séð eða orðið vitni með nokkrum hætti að meintum glæpum Epsteins“.
Epstein sópaði að sér vinum úr viðskiptalífinu bæði í Bretlandi og í Bandaríkjunum. Hann átti einnig vini úr skemmtanaiðnaðinum og innan bresku konungsfjölskyldunnar en hann og Andrew prins, yngsti sonur Elísabetar drottningar, voru nánir.
Staley sem er Bandaríkjamaður og hóf feril sinn hjá JPMorgan Chase & Co., verður á launum hjá Barclays út næsta ár, segir í frétt Bloomberg.