Samgöngustofa hefur frá árinu 2016 lokað tímabundið á aðgang níu lögmanna að ökutækjaskrá, eftir að þeir hafa verið staðnir að óleyfilegum uppflettingum í skránni. Enginn lögmaður hefur hins vegar verið staðinn að misnotkun frá því að ný lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga tóku gildi, en það var sumarið 2018.
Þetta kemur fram í svari frá stofnuninni við fyrirspurn Kjarnans, sem lögð var fram eftir að Kjarninn fjallaði um uppflettingar lögmannsins Þorbjörns Þórðarsonar á bifreiðaeign rithöfundarins Hallgríms Helgasonar, en lögmaðurinn (og almannatengslaráðgjafinn) fletti Hallgrími upp til þess að athuga hvort hann ætti Teslu.
Lögmenn geta í krafti starfa sinna fengið víðtækari aðgang að ökutækjaskrá en almenningi almennt stendur til boða. Allir sem vilja geta flett upp skráðum eiganda ökutækis með því að skrá sig inn með rafrænum skílríkjum á vef Samgöngustofu. Í þeim víðtækari aðgangi sem lögmenn hafa er hins vegar hægt að fletta upp með víðtækari hætti, og til dæmis sjá sögu bílaeignar hjá einstaklingum.
Þetta virðist lögmaðurinn Þorbjörn hafa gert í tilfelli Hallgríms. „Hallgrímur Helgason rithöfundur er ekki skráður eigandi Teslu,“ sagði Þorbjörn við Pál Steingrímsson skipstjóra Samherja, sem hafði verið með kenningu um að Hallgrímur ætti Teslu, en slík er í eigu nágranna hans.
Þorbjörn rakti fyrir skipstjóranum að Hallgrímur ætti tvo bíla af Hyundai-gerð, annars vegar Santa Fe og hins vegar Galloper-jeppa. Einnig fylgdi sögunni að rithöfundurinn hefði áður átt Skoda-bifreið af gerðinni Octavia en selt hana árið 2007.
Eftirlit um það bil árlega með slembiúrtaki
Samgöngustofa segist sinna eftirliti með uppflettingum lögmanna „nokkuð reglubundið eða um það bil árlega“ og fer eftirlitið fram með skoðun á slembiúrtaki.
„Þá er óskað eftir gögnum sem staðfesta heimild til að framkvæma tilteknar uppflettingar, s.s. úrskurð héraðsdóms vegna skipunar viðkomandi lögmanns sem skiptastjóra. Verði misnotkunar vart eða gögnum ekki framvísað er aðgangi lokað. Við fyrsta brot í þrjá mánuði, við annað brot sex mánuði og við þriðja brot varanlega,“ segir í svari frá Samgöngustofu.
Ef ábendingar berast um mögulega misnotkun eru þau mál skoðuð eftir hefðbundnu verklagi, segir stofnunin í svari til Kjarnans.
Ekki barst þó skýrt svar við spurningu um hvort eitthvað sérstakt yrði aðhafst vegna uppflettinga lögmannsins Þorbjörns, sem sagt hefur verið frá opinberlega.