Hagnaður Samherja hf. á árinu 2021 nam alls 17,8 milljörðum króna í samanburði við 7,8 milljónir á árinu 2020. Þetta kemur fram í ársuppgjöri Samherja sem kynnt var á aðalfundi á Dalvík 19. júlí síðastliðinn og greint er frá í tilkynningu.
Þar segir að hagnaður af starfsemi Samherja eftir skatta hafi numið 5,5 milljörðum króna á árinu 2021 til samanburðar við 4,5 milljarða árið áður. Þá hafi söluhagnaður af hlutabréfum félagsins í Síldarvinnslunni hf., auk hlutdeildar í afkomu síðasta árs, hafi numið 9,7 milljörðum króna, og söluhagnaður og hlutdeild Samherja í afkomu annarra hlutdeildarfélaga en Síldarvinnslunni numið 2,6 milljörðum króna.
Eignir Samherja í árslok 2021 námu 128 milljörðum króna og eigið fé 94,3 milljörðum, en í tilkynningunni segir að efnahagur félagsins sé traustur, sem sé mikilvægt fyrir uppbyggingu og fyrirhugaðar fjárfestingar félagsins í fiskeldi. Þá var ákveðið á aðalfundi félagsins að greiða ekki arð og beina fjárfestingarstyrk félagsins inn í ný verkefni.
Sannfærður um að orðspor Samherja verði hreinsað
„Rannsókn hér á landi hefur einnig staðið yfir í tvö og hálft ár án þess að nokkuð hafi komið fram sem gefur tilefni til að stimpla einstaka starfsmenn Samherja hf. sakborninga. Félagið hefur brugðist við þessum málum með ýmsum hætti og mun halda áfram að verja sakleysi sinna starfsmanna sem ég er sannfærður um að verða hreinsaðir að öllum ásökunum þegar upp er staðið. Í þessu sambandi er ánægjulegt að geta undirstrikað að samstarfsaðilar okkar um allan heim hafa haldið tryggð við okkur.“