Reykjavíkurborg heldur ekki utan um tölur um kvartanir er varða kynþáttafordóma í skólum borgarinnar, að því er fram kemur í svari við fyrirspurn Kjarnans.
Faðir barna sem orðið hafa fyrir fordómum í skóla gagnrýndi Reykjavíkurborg fyrir aðgerðaleysi í samtali við Kjarnann á dögunum. Hann telur að gera verði betur og móta betri stefnu hvað kynþáttafordóma varðar í skólum borgarinnar.
Í svari Reykjavíkurborgar kemur fram að engin samþætt verkáætlun sé til staðar hjá borginni til að takast á við kynþáttafordóma í skólum. „Almennar reglur eru varðandi einelti og ofbeldishegðun. Í vetur var samþykkt að setja á stofn starfshóp til að vinna að aðgerðaáætlun og verklagi til að bregðast við rasískum ummælum, skrifum og/eða hegðun hjá börnum og starfsfólki í skóla- og frístundastarfi. Aðgerðaáætlunin verði nýtt þegar rasísk atvik eiga sér stað í skólaumhverfinu og verði jafnframt vegvísir fyrir þá fræðslu og símenntun sem þarf að eiga sér stað innan skólasamfélagsins. Þessi starfshópur hefur vinnu sína síðla sumars 2022 og er að vænta niðurstaða í byrjun haustannar,“ segir í svarinu.
Þá kemur fram hjá Reykjavíkurborg að fjölmenningarteymi skóla- og frístundasviðs hafi staðið að fræðslu um fjölmenningu, fordóma og fjölbreytileika árlega. Bæði sé boðið upp á miðlæg námskeið, sem og námskeið fyrir hverja starfsstöð skóla- og frístundasviðs.
Námskeið fyrir börn og unglinga um fjölbreytileika og fordóma
Enn fremur segir í svarinu að námskeiðið „Hvaðan ertu“ sem haldið var í vetur hafi verið mjög vel sótt. Fulltrúar fjölmenningarteymis skóla- og frístundasviðs hafi staðið að námskeiðum fyrir börn og unglinga í fjölmörgum grunnskólum um fjölbreytileika, fordóma og viðhorf þar sem sérstök áhersla er lögð á kynþáttafordóma og birtingarform þess. Til að mynda hafi verið útbúið verkefni sem heitir „Fyrirmyndir“ sem fjallar meðal annars um kynþáttafordóma.
Reykjavíkurborg er í samstarfi vegna fjölmenningar við önnur sveitarfélög um málefni er varðar fjölbreytileika, fjöltyngdi og fjölmenningu en ekki fjallað sérstaklega um kynþáttafordóma. „Það er von okkar að þetta geti orðið að veruleika og unnt verði að fá önnur sveitarfélög í samstarf um þetta verkefni,“ segir að lokum í svarinu.
Engar afleiðingar fyrir þá sem sýna fordóma
Íslenskur faðir barna af erlendum uppruna sem nú stunda nám í yngri bekkjum grunnskóla segir í samtali við Kjarnann að um leið og börnin hófu grunnskólagöngu sína hafi farið að bera á fordómum í garð þeirra.
„Okkur náttúrulega dauðbrá og létum þá vita sem áttu þarna hlut að máli,“ segir hann. Alltaf hafi verið sama viðkvæðið – öllum hafi fundist miður að heyra af fordómunum en engar afleiðingar hafi verið fyrir hin börnin sem sýndu fordómana. „Það eru bara innantóm orð sem koma og það er það sem kristallast í kringum þetta. Allir eru rosa hissa og sorgmæddir og finnst leiðinlegt að heyra, og þar fram eftir götunum, en svo nær það ekki lengra. Því miður.“
Kölluð „drulli“, „kúkur“ og „nigger“
Hann gagnrýnir skólayfirvöld og Reykjavíkurborg þar sem hann er búsettur og segir að hann vilji að almennt verði tekið á þessum málum.
Börn mannsins hafa verið kölluð ýmsum nöfnum á skólagöngu sinni, á borð við „drulli“, „kúkur“ og „nigger“.
„Í mínum augum er þetta allt grafalvarlegt. Mér finnst vera galið að það sé í boði að meta alvarleika brotsins – bara það að láta svona út úr sér er mjög alvarlegt.“
Hann tilkynnti framkomuna til skólayfirvalda en hann segir að það hafi engar afleiðingar haft fyrir gerendur eða foreldra, einungis hafi verið talað við gerendur og foreldrarnir látnir vita. Honum finnst að bæði skólayfirvöld og sveitarfélög þurfi að taka á málunum af meiri festu.
Segir að stundum nægi að ræða við nemendur
Á fundi borgarráðs þann 7. janúar 2021 lagði áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands, Sanna Magdalena Mörtudóttir, fram fyrirspurn sem var vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs:
„Fyrirspurnir varðandi viðbrögð við kynþáttafordómum í skólum: Hvernig er brugðist við ef rasísk atvik koma fram innan skóla Reykjavíkurborgar? Hvaða verklag styðst Reykjavíkurborg við ef að rasísk atvik eiga sér stað innan skóla- og frístundastarfs? Hvernig er tekist á við kynþáttafordóma innan skóla Reykjavíkurborgar? Hvernig er unnið með foreldrum/forráðamönnum, börnum og ungmennum ef að slík atvik eiga sér stað? Hvernig er Reykjavíkurborg að vinna gegn kynþáttafordómum og útlendingaandúð innan skóla- og frístundastarfs? Er fræðslan ólík eftir skólastigum?“
Í svari frá Helga Grímssyni, sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, segir meðal annars að þegar kynþáttafordómar koma fram innan grunnskóla hjá borginni teljist slík atvik sem brot á skólareglum eða 2. stigs hegðunarfrávik og sé verklagsreglum fylgt í samræmi við alvarleika brotsins.
„Í öllum tilvikum er rætt við nemandann eða nemendurna sem eiga í hlut. Ef brotið er gróft eða endurtekið þá er foreldrum/forsjáraðilum tilkynnt um brotið og þeir boðaðir á fund í skólanum. Gripið er til þeirra aðgerða sem þörf er talin á hverju sinni. Stundum nægir að ræða við nemendur, með eða án foreldra/forsjáraðila en stundum þarf að bregðast við á annan hátt s.s. að fá inn sérstaka fræðslu um fjölbreytileika, mannréttindi og kynþáttafordóma fyrir nemendur,“ segir í svari Helga.