Hallarekstur á rekstri meðferðarsviðs SÁÁ verður 450 milljónir króna á næsta ári, 100 milljónum meiri en áætlað er í ár, miðað við áætluð framlög frá hinu opinbera samkvæmt fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi.
Fjárframlög til SÁÁ munu lækka um 98 milljónir milli ára, úr 1331 milljón í 1233 milljónir á næsta ári. Jafn há upphæð mun renna til samtakanna úr ríkissjóði 2024 og 2025.
Meðferðarsvið SÁÁ hefur áður óskað eftir leiðréttingu á rekstrargrunni samningu um heilbrigðisþjónustu sem meðferðarsvið SÁÁ sinnir. Í umsögn SÁÁ um fjárlagafrumvarpið segir að rekstrargrunnurinn sé nú þegar vanfjármagnaður um 300 milljónir króna og stefnir í að verða 350 milljónir króna fyrir árið í ár og 450 milljónir á næsta ári.
„Að óbreyttu getur slíkur halli ekki annað en leitt til umfangsmikillar skerðingar á þjónustu,“ segir í umsögn SÁÁ, sem undirrituð er af Önnu Hildi Guðmundsdóttur, formanni SÁÁ.
270 færri innlagnir og 160 sjúklingar munu ekki fá meðferð við ópíóðafíkn
Skerðingar á þjónustu munu meðal annars felast í 270 færri innlagna á Sjúkrahúsið Vogi og minnst 160 sjúklingar munu ekki fá lyfjameðferð á göngudeild við ópíóðafíkn. Núgildandi samningur um lyfjameðferð við ópíóíðafíkn er takmarkaður við 90 einstaklinga og segir SÁÁ nauðsynlegt að bregðast við meðferðarþörfinni sem telur um 250 einstaklinga.
Yfir 200 manns eru nú í gagnreyndri lyfjameðferð við ópíóðafíkn, meðferð sem dregur úr fíkn og fráhvörfum og er lífsbjargandi fyrir alvarlegri ópíóðafíkn, að því er fram kemur í viðtali við Valgerði Rúnarsdóttur, forstjóra Vogs og framkvæmdastjóra lækninga, í Læknablaðinu.
Heilsársopnanir byggðar á sérstökum fjáröflunum
Skerðingin mun einnig leiða til sumarlokana að nýju. Síðastliðið sumar voru 2.800 komur á göngudeild í 14 mismunandi meðferðarúrræði auk 752 viðtala. Auk þess fengu 193 inniliggjandi sálfélagslega meðferð á Vík en sérstaklega var safnað fyrir því að geta haldið meðferðarstöðinni í Vík opinni í sumar til að tryggja meðferðarsamfellu út árið.
Heilsárs opnun göngudeildar í ár byggir einnig á sérstakri fjáröflun þar sem núgildandi samningar duga ekki til þess. Göngudeildin er fyrsti viðkomustaður í meðferð við fíknisjúkdómum og þar er boðið upp á sambærilega meðferð og fram fer á Vogi fyrir þá sem hentar.
Efling göngudeildarþjónustu er hluti af aðgerðum sem SÁÁ hefur gripið til í þeim tilgangi að vernda núverandi þjónustu og mæta sívaxandi þjónustuþörf með fíknisjúkdóm. Í umsögn SÁÁ segir að þróa þurfi úrræði sem miða að því að mæta betur þörfum einstaklinga eftir fyrsta mánuð í meðferð. Einnig er mikilvægt að hægt sé að sinna fjölbreyttari þjónustu í göngudeild sem stuðlar að betri geðheilsu og heildrænum bakslagsvörnum með fjölbreyttu teymi heilbrigðisstarfsmanna.
SÁÁ bendir á í umsögn sinni að rekstrargrunnurinn hefur verið vanfjármagnaður um 300 milljónir króna en með fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi verði hann 450 milljónir króna.
„Að óbreyttu getur slíkur halli ekki annað en leitt til umfangsmikillar skerðingar á þjónustu,“ segir í umsögn SÁÁ.