Aðgerðir sérsveitar lögreglu í Kópavogi síðustu helgi komu til tals öðru sinni á Alþingi í dag. Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, furðaði sig á viðbrögðum Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra við fyrirspurn Arndísar Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur, þingmanni Pírata.
Útkallið sem um ræðir átti sér stað síðdegis á laugardag þegar lögreglu barst tilkynning um vopnaðan mann í Kópavogi. Sérsveit lögreglunnar handtók mann vegna málsins en fljótt kom í ljós að um misskilning var að ræða, vopnaði maðurinn reyndist vera börn í kúrekaleik.
Manninum og fjölskyldu hans var brugðið og var veitt áfallahjálp í kjölfarið. „Þar lenti venjuleg fjölskylda í aðstæðum sem enginn ætti að lenda í nokkru sinni,“ sagði Þórunn í ræðu sinni undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag. Arndís Anna spurði dómsmálaráðherra um verklag lögreglu í málum sem þessum í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi á mánudag.
„Getum alltaf átt von á því að slíkt hendi“
Þórunn vakti athygli á orðum dómsmálaráðherra, eða öllu heldur hvernig hann svaraði fyrirspurn Arndísar Önnu. Ráðherrann sagði að aldrei verði hjá því komist að mistök, líkt og urðu á laugardag, geti átt sér stað í hita leiksins. „Auðvitað er það okkar markmið með þjálfun og verklagsreglum að takmarka slíkt eins og hægt er,“ sagði Jón.
„Við búum í samfélagi þar sem að vopnaburður er að verða víðtækari heldur en hann hefur verið áður,“ hélt ráðherrann áfram og vísaði í fjölda útkalla þar sem bregðast þarf við vopnaburði.
Ekki mannleg mistök heldur alvarlegur dómgreindarbrestur
Þórunn sagðist ekki vilja halda því fram að mistök séu ekki gerð en að hún telji það óhugsandi að hægt sér að afgreiða viðbrögðin við útkallinu sem sérsveit lögreglu fór í á laugardag sem mannleg mistök þegar sérsveitarmenn mæti „með alvæpni, ógni venjulegu fólki heima hjá sér og handtaki það. Mér er nær að halda að í þessu tiltekna máli hafi verið á ferðinni mjög alvarlegur dómgreindarbrestur í viðbrögðunum,“ sagði hún.
Þórunn gerir fastlega ráð fyrir að málið verði væntanlega tekið fyrir af nefnd um eftirlit með lögreglu.
„En það er hins vegar alveg ljóst að þetta er ekki einangrað tilvik, því miður, við höfum fleiri dæmi nýverið af framgöngu sérsveitarinnar og ég hef áhyggjur af því að réttaröryggi borgaranna sé ógnað.“