Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og innviðaráðherra, segir að hann hafi ekki íhugað stöðu sína vegna rasískra ummæla sem hann lét falla um Vigdísi Häsler, framkvæmdastjóra Bændasamtakanna, á Búnaðarþingi fyrir rúmum mánuði. Sigurður Ingi segir að hann hafi fundið mikinn stuðning á meðan á málinu stóð, að það sé að baki og að hann ætli ekki að ræða það meir. Þetta er meðal þess sem kemur fram í viðtali við Sigurð Inga í nýjasta þætti Dagmála á mbl.is sem birtur var í dag.
Í viðtalinu segir hann að ummælin hafi fallið í gleðskap og hvað þar gerðist hafi hann og Vigdís rætt saman um. „Ég hef beðist bæði opinberlega afsökunar sem og við Vigdísi. Við erum sammála um að þetta mál sé að baki og við ætlum ekki að ræða það frekar og ég mun ekki gera það.“ Þegar Sigurður Ingi var spurður út í fjölmiðlaumfjöllun um orðin sem hann lét falla svaraði hann: „Það er allt annað að taka umræðu um hluti sem að skipta máli í samfélaginu heldur en um einhvern slíkan einstakan viðburð og reyna að gera meira úr honum en var. Ég hef lagt áherslu á það og þetta mál er að baki hvað mig varðar.“
„Þeir smætta verk einstaklinga og gjörðir niður í lit eða kyn“
Umrætt atvik átti sér stað síðasta dag marsmánaðar. Aðdragandi þess var sá að Vigdís og starfsmenn Bændasamtakanna vildu fá orystufólk úr Framsóknarflokknum til að taka mynd með sér þar sem hún „plankaði“ á meðan að það hélt á henni. Samkvæmt umfjöllun fjölmiðla, sem byggja á samtölum við fólk sem var viðstatt, á Sigurður Ingi að vísað til Vigdísar sem „hinnar svörtu“. Sigurður Ingi hefur aldrei staðfesta sjálfur hvað hann sagði nákvæmlega.
Umfjöllun um uppákomuna birtist fyrst í Orðinu á götunni á Eyjunni, slúðurvettvangi sem heyrir undir DV þar sem skrifað er nafnlaust, á sunnudag klukkan 15:30. Klukkutíma og þremur mínútum síðar birtist frétt á vef DV þar sem Ingveldur Sæmundsdóttir, pólitískur aðstoðarmaður Sigurðar Inga til margra ára, þvertók fyrir að yfirmaður hennar hefði viðhaft rasísk ummæli. „Þetta er algjört bull,“ sagði Ingveldur. Hún hefði verið edrú og staðið við hlið Sigurðar Inga þegar til stóð að taka umrædda mynd með Vigdísi. Ingveldur sagði að Sigurði Inga hefði ekki litist vel á hugmyndina og sagt að hann vildi ekki halda á Sjálfstæðismanni.
Þessi viðbrögð reyndust ekki eldast vel þegar Vigdís gaf sjálf út yfirlýsingu á Facebook þar sem hún sagði að „afar særandi ummæli“ hefðu verið látin falla og að hún hefði heyrt þau, sem og fleira starfsfólk Bændasamtakanna. Hún sagði að hún hefði aldrei talið að hún þyrfti að setjast niður og skrifa yfirlýsingu af þessu tagi. „Aðstoðarmaður ráðherrans var ekki við hlið hans þegar ummælin voru látin falla, eins og hún hefur haldið fram en myndir úr þessari myndatöku sýna það án alls vafa. Það er særandi þegar reynt er að gera lítið úr upplifun minni og þegar beinlínis rangar skýringar eru notaðar við það. Ég stend með sjálfri mér þegar kemur að þessu, ég veit hvað ég heyrði, ég veit hvað var sagt. Ég neita að bera ábyrgð á þeim orðum sem ráðherrann viðhafði í minn garð. Duldir fordómar eru gríðarlegt samfélagsmein og grassera á öllum stigum samfélagsins. Þeir smætta verk einstaklinga og gjörðir niður í lit eða kyn.“
„Það hefur tekið þungt á mig, mína fjölskyldu og mína vini“
Sigurði Inga tókst að forðast það að svara fyrir málið að mestu næstu vikurnar með því að forðast að veita viðtöl við fjölmiðla. Í síðustu viku var þó komið að innviðaráðherra að mæta í óundirbúnar fyrirspurnir á Alþingi og þar spurði Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, Sigurð Inga út í ummælin.
Sigurður Ingi svaraði að það væri þungbært og þungbærara en hann bjóst við, eftir að hafa verið svona lengi í stjórnmálum, að upplifa það dag eftir dag í þinginu í tiltekinn tíma af tilteknum stjórnmálamönnum og af einstökum fjölmiðlum að vera borinn þungum sökum „um eitthvað allt annað“.
„Ég hef velt því fyrir mér hvort það sé eitthvað í mínu fari persónulega eða eitthvað sem stjórnmálamaðurinn Sigurður Ingi hefur staðið fyrir sem bendir til að þetta sé svona. Eða er það bara vegna þess að það eru sveitarstjórnarkosningar eftir hálfan mánuð og Framsóknarflokkurinn er farinn að taka fylgi af öðrum flokkum? Er það virkilega svo? Ég á ekki auðvelt með að grínast með þetta mál. Það hefur tekið þungt á mig, mína fjölskyldu og mína vini. Ég hef beðist afsökunar. Sú afsökunarbeiðni hefur verið meðtekin. Við vorum sammála um að ræða það ekki frekar og ég mun virða þá ósk.“
Þann 11. apríl var greint frá því að forsætisnefnd Alþingis hefði borist kæra gagnvart Sigurði Inga fyrir brot á siðareglum Alþingis vegna ummælanna um Vigdísi. Ekki liggur fyrir hvern lagði fram kæruna.
Kjarninn spurði Sigurð Inga út í þessa siðanefndarkæru þegar hann gaf færi á samtali fyrr í þessari viku en hann neitaði að ræða málið.