Heiða Kristín Helgadóttir, annar stofnenda Bjartrar framtíðar og varaþingmaður flokksins, ætlar að taka sæti á þingi í haust. Hún tekur sæti Bjartar Ólafsdóttur sem fer í fæðingarorlof. Þetta kemur fram á vef RÚV.
Heiða Kristín hefur tekið þessa ákvörðun í kjölfar þess að Guðmundur Steingrímsson, formaður flokksins, hefur ákveðið að stíga til hliðar á aðalfundi flokksins í byrjun næsta mánaðar. Róbert Marshall mun einnig segja af sér sem þingflokksformaður flokksins. Er þetta sameiginleg ákvörðun þeirra og vilja þeir með þessu veita öðrum svigrúm til að stýra flokknum, að því er kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Heiða er ánægð með ákvörðunina og segir þá Guðmund og Róbert menn að meiri. „Ég er bara ánægð með að þeir hafi tekið það til sín sem hefur verið rætt í flokknum og mér finnst þeir bara menn að meiri að taka ábyrgð á stöðunni eins og hún er. Og það er í sjálfu sér það sem ég var að fara fram á og að það færu fram heiðarlegar umræður um hvert við stefndum,“ segir hún við RÚV.
Hún ætlar að verða borgarþingmaður og halda borgarsjónarmiðum á lofti, enda finnist henni þau skipta mestu máli fyrir framtíðina.
Á fundi sem Björt framtíð hélt síðastliðinn fimmtudag var nafni Brynhildar Pétursdóttur, þingmanns flokksins, velt upp sem mögulegum næsta formanni. Hún segir við Fréttablaðið að hún gæti hugsað sér að skoða þann möguleika.
Heiða hefur áður sagst vera að íhuga að bjóða sig fram til formanns og hún ætlar í kjölfar ákvörðunar Guðmundar að hugsa stíft um það næstu daga hvort hún tekur þann slag.
„Ég hef ekki tekið endanlega ákvörðun um það. Ég hef líka hvatt konur í flokknum til að stíga fram að taka forystu og myndi fagna því. Mér fyndist það líka heilbrigt ef það yrðu nokkur framboð.“
Gagnrýnin setti allt af stað
Nokkur óánægja hefur verið með gang mála innan Bjartrar framtíðar undanfarin misseri, og gagnrýndi Heiða Kristín, sem áður var í forystu flokksins, Guðmund formann vegna slæmrar stöðu flokksins í viðtali við Kjarnann, en flokkurinn mælist nú með aðeins 4,4 prósent fylgi.
Miðað við það fylgi myndi Björt framtíð ekki ná inn manni í komandi kosningum. Flokkurinn mældist með um 20 prósent fylgi í könnunum í fyrrahaust.
Í kjölfar gagnrýni sinnar á Guðmund sagðist Heiða Kristín opin fyrir því að sækjast eftir formannsembættinu ef vilji væri fyrir því hjá flokksmönnum. Guðmundur tilkynnti í byrjun síðustu viku að hann hefði engan áhuga á formannsslag og myndi leggja fram tillögu um að æðstu embætti flokksins myndu róterast. Þá tillögu ætlar hann ennþá að leggja fram á ársfundi Bjartrar framtíðar í byrjun september. Verði sú tillaga samþykkt mun starf formanns og þingflokksformanns róterast á milli sex þingmanna Bjartrar framtíðar en aðrir gegna starfi stjórnarformanns.