Í ágúst árið 1955 yfirgaf Emmett Till heimili sitt í Chicago í síðasta skipti. Hann ætlaði aðeins að fara tímabundið í heimsókn til ættingja í Mississippi en hroðalegir hlutir áttu eftir að gerast. Hinn fjórtán ára gamli drengur var numinn á brott úr húsi frændfólks síns og pyntaður og loks drepinn. Málið vakti strax mikinn óhug og afhjúpaði það mikla kynþáttahatur sem ríkti í suðurríkjum Bandaríkjanna á þessum tíma.
Sögu hans hefur alla tíð síðan, ekki síst hin síðari ár, verið haldið á lofti til marks um þá níð og þá fordóma sem svartir Bandaríkjamenn upplifðu og upplifa enn í dag.
Hús móður hans í suðurhluta Chicago, húsið sem hann yfirgaf árið 1955, á nú að gera upp af myndarbrag með styrk frá menningarsamtökum sem vilja vekja athygli á merkum stöðum í sögu svartra Bandaríkjamanna.
Verndarsjóðurinn African American Cultural Heritage Action Fund útdeildi á dögunum styrkjum til 33 verkefna vítt og breitt um landið í þessum tilgangi. Eitt þeirra er viðhald á byggingu sem hýsti skóla verkafólks í Oklahoma og annað er varðveisla bankabyggingar í Mississippi sem var stofnaður af einum áhrifamesta viðskiptamanni landsins.
Brent Leggs, sem fer fyrir verndarsjóðnum, segir að mikið vanti upp á að varðveita sögu svartra Bandaríkjamanna. Hann vonast til þess að styrkir sjóðsins, sem nú hefur verið úthlutað fimmta árið í röð, eigi eftir að „fylla upp í göt“ sögunnar, ekki síst um réttindabaráttu svartra.
Morðið á Till varð einn stærsti vendipunktur í þeirri baráttu. Og nú á að gera hús mæðginanna upp í þeirri mynd sem það var í er Emmett litli fór að heiman.
„Þetta hús er heilagt í okkar huga og markmið okkar er að gera það upp sem alþjóðlegan sögustað,“ hefur AP-fréttastofan eftir Naomi Davis, sem fer fyrir samtökunum sem keyptu húsið árið 2020 með það í huga að varðveita það.
Hún segir að áherslan verði ekki síður lögð á líf Mamie Till Mobley, móður Emmetts en sögu hans. Er hann fór að heiman og var drepinn með hrottafengnum hætti af hópi hvítra karla í Mississippi, krafðist móðir hans þess að lík hans yrði haft í opinni kistu og að allir gætu séð það. Líkið var illa leikið og hafði verið dregið upp úr á, nokkrum dögum eftir morðið. Með þessu vildi móðir hans að allir vissu hvernig rasismi liti út.
Og þúsundir hlýddu kalli hennar og vottuðu Emmett virðingu sína. Milljónir sáu líka mynd af líkinu í kistunni sem birtar voru í Jet Magazine.
Ein þeirra var Rosa Parks. Þremur mánuðum síðar neitaði hún að standa upp fyrir hvítum manni í strætisvagni í Montgomery í Alabama-ríki. Þau kröftugu mótmæli hennar gegn kynþáttaaðskilnaði markaði tímamót í réttindabaráttu svartra í Bandaríkjunum.
Vera Illugadóttir gerði þátt um Emmett Till í þáttaröð sinni Í ljósi sögunnar.