Það er það stærsta í heimi, risastóra vindorkuverið Hornsea Two sem nú er komið í fulla vinnslu um 90 kílómetrum undan ströndum Yorkshire í Norðursjó. Vindmyllurnar 165, sem hver um sig er með spaða sem fara um snúningsflöt sem er yfir 160 metrar í þvermál, eru samtals 1,3 GW (gígavött) að afli – sem myndi duga til framleiðslu á rafmagni fyrir um 1,3 milljón heimila árlega, álíkra margra og finna má í borginni Manchester. Til samanburðar þá er aflgeta Kárahnjúkavirkjunar, langstærstu virkjunar á Íslandi, 0,7 GW.
Vindmyllurnar dreifast um 462 ferkílómetra svæði, sem samsvarar um helmingi af svæðinu sem Liverpool stendur á, en Hornsea 2 er annar áfangi af þremur sem á að reisa á þessum slóðum í hafinu.
Í frétt BBC um málið segir að fyrir áratug hafi endurnýjanleg orka, sem vindorka telst til, um 11 prósent allrar raforku sem notuð var í Bretlandi. Í fyrra var hlutfallið komið upp í 40 prósent. Vindorkuver á hafi úti spila þar stærstan þátt.
Danska orkufyrirtækið Ørsted byggir Hornsea-virkjunina og er það orðið eitt það fyrirferðarmesta í þessum geira á heimsvísu. Þróun og bygging annars áfanga hefur tekið fimm ár.
Með Hornsea 2 eru Bretar orðnir leiðandi í nýtingu á vindorku á hafi, hefur BBC eftir verkefnisstjóranum Patrick Harnett. Hornsea 2 þurfti ekki að sækja titilinn að stærsta vindorkuveri á hafi úti langt því fyrsti áfangi virkjunarinnar, Hornsea 1, hafði þann titil áður.

Vindmyllurnar standa um 200 metra upp úr haffletinum. Þær eru því risavaxnar. Spaðarnir eru 80 metra langir og það tekur þá sex sekúndur að snúast í heilan hring. Á þeim tíma framleiðir hver vindmylla rafmagn sem myndi svala orkuþörf venjulegs heimilis í sólarhring, segir Harnett við BBC.
Bresk stjórnvöld stefna að kolefnishlutleysi í raforkuframleiðslu fyrir árið 2035 og á virkjun vindsins á hafi að spila þar lykilhlutverk.
Orkukrísan í Evrópu, sem er að stærstum hluta tilkomin vegna innrásar Rússa í Úkraínu, hefur afhjúpað hversu háð ríki álfunnar hafa verið rússnesku gasi. En það er engin skyndilausn í sjónmáli. Það tekur að minnsta kosti fimm ár að skipuleggja og byggja vindorkuver á hafi úti.

Frekari uppbygging þeirra er því ekki lausnin sem mun lækka rafmagnsreikninginn alveg á næstunni. Vindorkuver á landi eru mjög umdeild, ekki síst vegna sjónmengunar, en sérfræðingar í vindorkugeiranum sem BBC ræðir við vilja þó meina að taka þurfi annan snúning á uppbyggingu þeirra á Bretlandseyjum.
„Vindorkuver á landi hafa hingað til verið ódýrasta leiðin til orkuöflunar,“ hefur BBC eftir Melanie Onn, sem starfar hjá Renewable UK, samtökum vindorkufyrirtækja í Bretlandi. Hún vill meina að ekki taki meira en ár að þróa og reisa slíkar virkjanir.
„Við erum ekki að byggja þau núna því samkvæmt skipulagsferlinu þá getur ein manneskja staðið í vegi fyrir vindorkuveri á landi og gert útaf við hugmyndina. Við þurfum virkilega á því að halda að ríkisstjórnin grípi til aðgerða og setji orkumál landsins í forgang.“