Svartþrestir syngja. Hátt og snjallt eins og þeim einum er lagið. Það er glaðasólskin líkt og undanfarna daga og trén í borginni eru óðum að vakna eftir vetrardvala, mörg farin að springa út og undirbúa sig fyrir að mynda enn einn árhringinn.
Vorinu fylgir von. Og vorinu fylgir líf.
Fyrir tíu mánuðum týndu þrjár ungar manneskjur lífi í mannskæðasta eldsvoða sem orðið hefur í höfuðborginni Reykjavík. Marek Moszczynski, sem leigði herbergi líkt og þau í hornhúsinu á Bræðraborgarstíg og Vesturgötu, er sakaður um að hafa kveikt í því og valdið þannig dauða þeirra.
Ákæruvaldið fer fram á ævilangt fangelsi en öryggisvistun verði hann dæmdur ósakhæfur. Marek segist saklaus og verjandi hans leggur m.a. áherslu á að enginn hafi séð hann kveikja í og að á honum og fötum hans hafi ekki fundist ummerki á borð við bensín- eða reykjarlykt við handtöku. Hann hefur beint sjónum að pari sem bjó á jarðhæð hússins og því að svo kunni að vera að Marek hafi verið í maníu vegna sýklalyfja daginn sem bruninn varð. Því eigi ekki að vista hann í öryggisgæslu, verði hann fundinn sekur.
5. maí 2021 – síðasti dagur aðalmeðferðar
Stefán Karl Kristjánsson, verjandi Mareks mætir fyrstur í dómsalinn. Biðst afsökunar á „veseninu á sér“ á föstudaginn þegar fresta varð réttarhöldunum vegna veikinda hans. Fimm dögum síðar heldur aðalmeðferðin áfram og í dag lýkur henni með málflutningi allra aðila; sækjanda, verjanda og réttargæslumanns þeirra íbúa sem voru inni í húsinu er eldurinn kviknaði. Fólks sem missti margt hvert allt sitt. Sumir heilsuna tímabundið. Aðrir glíma enn við eftirköst atburðanna. Hrökkva upp á nóttunni og halda að eldur sé kviknaður. Eru kvíðnir. Daprir. Ástvinir þeirra sem létust eru í sárum. Misstu ungt fólk í blóma lífsins.
Verjandinn byrjar á að dreifa eintökum af ítarlegri samantekt til dómara og sækjanda sem hann hefur tekið saman um ástand sem nefnist antibiomania. Um er að ræða afar fágæta aukaverkun sýklalyfja sem hann og líklega flestir í dómsal heyrðu fyrst af í máli eins geðlæknis sem mætti fyrir dóminn í síðustu viku. Stefán Karl vill að tekinn verði til greina sá möguleiki að sjúklegt ástand Mareks um það leyti sem bruninn varð hafi verið vegna sýklalyfja sem hann tók við alvarlegu magasári.
Marek er ekki viðstaddur réttarhöldin í dag líkt og hann hefur gert hingað til. Fréttamenn tínast hins vegar inn í salinn einn af öðrum. Fulltrúar sex fjölmiðla eru mættir. Saksóknarinn Kolbrún Benediktsdóttir er líka komin. Hún kemur sér fyrir við borð vinstra megin í salnum. Guðbrandur Jóhannesson réttargæslumaður mætir með kassa fullan af möppum í fanginu. Leggur hann frá sér á borðið við hlið Kolbrúnar áður en hann fer ofan í tösku og sækir skikkjuna. Fær sér vatn í glas. Möppunum er varlega raðað á borðið. Pappakassinn fer undir það.
Allir viðstaddir standa upp er dómararnir þrír ganga í salinn. Barbara Björnsdóttir formaður dómsins tilkynnir að þinghald sé sett.
Bensínkaup rannsökuð
Fyrsta og eina vitni dagsins er lögreglumaður sem kom að einum anga rannsóknarinnar á sínum tíma sem fólst í öflun upplýsinga um kaup á bensíni í litlu magni á höfuðborgarsvæðinu skömmu áður en bruninn varð á Bræðraborgarstíg. Þar sem þetta var um hásumar var ljóst að margir væru að kaupa bensín á brúsa, t.d. á sláttuvélar, á vespur eða mótorhjól.
Farið var í þetta í kjölfarið á því að plastflaska fannst á vettvangi eldsvoðans og grunur vaknaði um að í henni hefði verið eldfimur vökvi, mögulega bensín. Slíkt var ekki sannað í rannsókn málsins.
Stefán Karl vill vita hvaða fyrirmæli lögreglumaðurinn fékk við öflun gagna, m.a. efnis úr eftirlitsmyndavélum. Var verið að leita sérstaklega að Marek á myndefninu eða „voru myndirnar skoðaðar með tilliti til að einhver annar hafi keypt bensín?“
Lögreglumaðurinn svarar að það hafi „klárlega“ verið gert. Í upphafi voru settar fram tilgátur og með útilokunaraðferðum standi svo eftir ein. „Það er hún sem er hér,“ segir hann úr vitnastúkunni fyrir miðju dómsalarins.
Íslenska parið
„Þú lýsir þessu sem tilgátu,“ segir Stefán Karl þá. „Nú er ég að setja fram tilgátu. Nú var par sem bjó þarna, sem lögreglan hafði haft afskipti af um nóttina og áður vegna einhverrar lyfjaneyslu og fleira. Þetta par var handtekið í tengslum við brunann. [...] Mér finnst þetta eins og tilgáta til rannsóknar. Var þetta par rannsakað sérstaklega?“
Lögreglumaðurinn svarar spurningunni játandi og segir það einmitt hafa verið eina af tilgátunum sem svo voru útilokaðar ein af annarri.
Myndbandsupptökurnar
Það er komið að því að sýna upptökur úr eftirlitsmyndavélum og búkmyndavélum lögreglumanna fyrir og eftir að eldurinn kviknaði á Bræðraborgarstíg. Myndefnið snýst um Marek. Það er meðal þeirra gagna sem yfirmatsmenn nýttu til að meta andlegt ástand hans en allir þrír komust að þeirri niðurstöðu að hann hefði verið í geðrofi.
Á myndböndunum, sem tekin voru á nokkrum stöðum, sést Marek ganga um miðborgina og dreifa peningaseðlum í kringum sig. Ögra fólki með látbragði og orðum. Vegfarendur taka sveig fram hjá honum.
Þetta er áður en eldsvoðinn verður.
Næst eru sýndar upptökur úr eftirlitsmyndavélum í nágrenni rússneska sendiráðsins í Garðastræti. Er Marek kemur fyrir hornið er hann með föt í fanginu og á herðatrjám á bakinu. Hann leggur hluta þeirra frá sér. Öðrum kastar hann frá sér. Sum rífur hann og öðrum stappar hann á. Hann fer úr jakkanum. Grefur eftir rauðum fána með mynd af Pútín á sem hann breiðir svo yfir grindverkið. „Hann er að kasta peningum sýnist mér,“ segir Kolbrún á meðan myndefnið rúllar áfram. Marek sést berja í bíl. Sparka í hann.
Næst eru sýndar upptökur úr búkmyndavélum lögreglumannanna tveggja sem komu að sendiráðinu vegna útkalls um mann sem léti þar ófriðlega. Þá er Marek kominn inn fyrir hliðið, ýtir við þeim og slær þá með gúmmímottu.
„Leggstu niður,“ heyrist annar lögreglumannanna segja. Hann bætir svo við á ensku: „Get down.“ Þetta er sagt ákveðið en ekki á háu tónunum.
Marek er berfættur. Hann er handjárnaður og á myndbandinu sést að hann heldur á kveikjara í öðrum lófanum og sígarettupakka í hinum.
Hann segir ekkert.
„Ok, stattu upp,“ segir lögreglumaðurinn.
Næst er sýnt efni úr myndavélum innan úr lögreglubílnum. Þá liggur Marek og sönglar stanslaust.
„What‘s your name?“ spyr einhver.
„Dimitry [ættarnafn],“ svarar hann.
„Your name is Dimitry? Where do you live?“
Marek fer að söngla aftur.
„Ég ætla ekki að sýna meira,“ segir Kolbrún þegar hún slekkur á upptökunni. „Þetta er bara til að gefa innsýn í ástand hans.“
Það er komið að munnlegum málflutningi. Kolbrún færir stól frá borðinu sem tugir vitna í málinu hafa setið við og setur lítið púlt upp á það. Hún opnar tölvuna sína. Ræskir sig.
„Virðulegi dómur,“ byrjar hún á að segja og fer því næst yfir dómkröfur ákæruvaldsins. Að Marek verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar en til vara að hann verði dæmdur til að sæta öryggisráðstöfunum.
Hún fer yfir ákæruefnið, að Marek sé gefið að sök brenna, manndráp og tilraun til manndráps með því að hafa kveikt í á Bræðraborgarstíg 1 þann 25. júní í fyrra. „Þegar upp var staðið létust þrír í brunanum. Tveir brunnu inni, ungt par, og ung kona lést af höfuðáverkum þegar hún reyndi að bjarga sér út um glugga og féll niður sjö og hálfan metra.“
Fjórir íbúar slösuðust í eldsvoðanum.
Þar sem brann lengst og mest
Hún rifjar upp að strax á vettvangi vaknaði grunur um íkveikju sem beindist að ákærða á grundvelli framburðar vitna.
„Það má segja þegar kemur að sönnun að álitaefnin séu tvö. Hvernig eldurinn kviknar og hvar og hver var að verki,“ segir hún. „Ákæruvaldið byggir á því að það hafi verið ákærði sem kveikti í með ásetningi á tveimur stöðum.“
Sækjandinn segir það afgerandi niðurstöðu tæknideildar lögreglunnar að eldsupptökin séu í herbergi Mareks á annarri hæð hússins og frammi á stigapalli. Við rannsóknina hafi rannsakendur séð „bletti sem hafa brunnið lengst – og mest,“ segir hún með áherslu. „Þetta skiptir öllu. Hvar hefur eldurinn brunnið lengst og mest. Það er upptakastaðurinn.“
Með útiloknunaraðferð, ef svo megi segja, sé svo fundið út hvernig eldurinn kviknaði. Það sé útilokað að það hafi gerst út frá rafmagni. Ekkert bendi til sjálfsíkveikju. „Eftir stendur að það er kveikt í.“
Slíkt sé hægt að gera af ásetningi eða gáleysi. En þar sem upptakastaðirnir séu tveir og að á milli þeirra séu nokkrir metrar, útiloki tæknideildin að um slys hafi verið að ræða. „Og,“ segir hún með áherslu, „eldur á öðrum staðnum getur ekki skýrt eld á hinum.“ Upptakastaðirnir séu mikið brunnir en á milli þeirra sé minna brunnið. „Ákæruvaldið byggir á því að það hafi verið ákærði sem kveikti í þrátt fyrir neitun hans þar að lútandi.“
Hún segir tímalínuna, sem fengin er með ýmsum gögnum sem og framburðum vitna, vera það sem skipti máli og gefi skýra mynd.
Skreið út úr húsinu
Kona sem bjó í næsta herbergi við Marek kom heim kl. 15 þennan dag. Hún hitti hann á ganginum og sagði hann hafa verið í mjög skrítnu ástandi. Hann hafi verið æstur og reiður, tekið í hana og talað samhengislaust. Hún varð hrædd og fór inn í herbergi. Hann bankaði og hún heyrir hann banka hjá fleirum. Stuttu síðar heyrði hún læti frá herberginu hans og sá svo á einhverjum tímapunkti að hann var að henda hlutum út um gluggann. Hún fór svo að finna reykjarlykt, opnaði fram á gang og sá þá reyk. „Hún í raun skríður út úr húsinu,“ segir Kolbrún.
Símagögn styðji þennan framburð. Hún hringdi í eiginmann sinn þrisvar sinnum. Fyrsta símtalið var kl. 14.58. Það næsta kl. 15.04 og það þriðja kl. 15.16 en þá var hún komin út. Maður sem staddur var í húsinu á móti var þá búinn að hringja í Neyðarlínuna eftir að hafa séð reyk koma út um glugga á herbergi Mareks. Sá maður sem og eigandi hússins á móti, sá Marek skömmu áður labba út með föt á bakinu, „strunsa upp Bræðraborgarstíg, einmitt í áttina að rússneska sendiráðinu,“ segir Kolbrún.
Upptökur úr eftirlitsmyndavélum sem og framburðir vitna styðja einnig þessa tímalínu. „Þetta sýnir það að það er engum öðrum til að dreifa sem gátu kveikt eld þarna.“ Kolbrún segir það „algjörlega fráleitt“ að halda því fram að fólk, par sem bjó á neðri hæðinni sem engan aðgang hafði að hæðinni sem eldurinn kviknaði á, hafi komið að máli. Það sé útilokað miðað við tímarammann. „Ekki neitt, ekkert, bendlar þetta fólk við eldsvoðann.“
Þvínæst víkur hún máli sínu að framburði Mareks sem hún segir „náttúrlega mjög sérstakan“. Loksins þegar náðist að taka skýrslu af honum hjá lögreglu var kominn 17. júlí. Þá sagðist hann muna ágætlega atvik þessa dags. Lýsti ítarlega því sem hann gerði fyrir brunann og heimsókn sinni í sendiráðið. Framburður hans sé þó ekki í samræmi við það sem gögnin sýni. Hann sagðist hafa verið rólegur og glaður þennan dag en það sjáist „mjög vel á hans líkamstjáningu að hann er æstur“.
Kolbrún segir þetta „svolítið sérstakt“ en hins vegar verði að meta framburð hans með hliðsjón af því ástandi sem hann var í. „En hvað gerist þarna á milli? Frá því í miðbænum og þar til í sendiráðinu?“ Kolbrún segir frásögn Mareks um þann tíma vera miklu óljósari. Þá muni hann allt í einu ekki hvað hann gerði. Fyrst hafi hann ekki sagst vera með það á hreinu hvort að hann hafi farið heim að Bræðraborgarstíg en svo að hann hafi farið heim en aðeins í stutta stund. Í fyrstu minntist hann þess ekki að hafa hitt nágrannakonu sína en svo fór hann að ráma í það. Um veruna á Bræðraborgarstíg sé framburður hans mjög ruglingslegur. „Þarna er það mat ákæruvaldsins að hann sé ekki að segja nákvæmlega allt sem hann muni.“
Marek ekki að segja satt
Kolbrún segir því ekki hægt að byggja á framburði Mareks. „Hann er ekki að segja satt – það sést á gögnum,“ segir hún og heldur áfram: „Þegar þetta er allt skoðað í samhengi þá tel ég það sannað að ákærði hafi kveikt í húsinu með þeim afleiðingum sem lýst er í ákæru.“
Með íkveikjunni hafi hann lokað einu útgönguleiðinni af 2. og 3. hæð hússins. Það sé afleiðing sem honum hafi mátt vera fullljós. „Hér er ekki um leikaraskap, slysni eða eitthvað grín að ræða. Það er kveikt í á tveimur stöðum.“
Síðasta álitaefni málsins segir Kolbrún vera hvort Marek hafi verið sakhæfur á verknaðarstundu sem skipti máli þegar komi að refsingu hans. Niðurstöður þriggja matsmanna um að Marek hafi verið „algjörlega ófær um að stjórna aðgerðum sínum“ á þessum tíma, séu mjög ákveðnar og vel rökstuddar. Og undir þetta taki ákæruvaldið. Geðlæknarnir telji hann hafa verið í geðrofi og í oflætisástandi (maníu) sem þeir útiloki að stafi af líkamlegum þáttum. „Auðvitað er þetta sérstakt, að maður á sjötugsaldri, sem er með óljósa geðsögu, fari í svona geðrof,“ segir hún. Svo virðist sem hann hafi gert það í kjölfar mikils áfalls eftir að hafa fengið þær upplýsingar, sem reyndust svo ekki réttar, að hann væri með krabbamein. „Það virðist vera þessi, svo ég sletti aðeins, trigger.“
Hún minnir á að ástæðan fyrir því að hann fór í geðrof skipti aðeins máli varðandi framhaldið. Hvort ástæða sé til að hann sæti öryggisgæslu. Afar sjaldgæf aukaverkun sýklalyfja, antibiomania, sem verjandi hefur lagt áherslu á að gæti hafa valdið geðrofi, sé að hennar mati útilokuð þar sem dæmin sýni að slíkt ástand vari aðeins í stuttan tíma eftir að sýklalyfjainntöku sé hætt. Marek hafi hins vegar enn sýnt geðrofseinkenni rúmlega tveimur vikum eftir brunann.
„Ákæruvaldið telur að það liggi fyrir að ákærði hafi verið ósakhæfur á verknaðarstundu og það þurfi að taka til greina varakröfu um öryggisvistun,“ segir Kolbrún og tekur undir þá skoðun yfirmatsmanna, tveggja geðlækna, að það sé ástæða til að hann sæti ítrustu öryggisráðstöfunum og verði vistaður á réttargeðdeild.
Ef dómurinn telji hann hins vegar sakhæfan fari ákæruvaldið fram á, með hliðsjón af alvarleika brotanna, að Marek verði dæmdur til ævilangrar fangelsisvistar.
Áttu allt lífið framundan
Næst er komið að Guðbrandi réttargæslumanni fórnarlamba og aðstandenda þeirra sem létust. Hann setur fram, fyrir hönd hinna sautján brotaþola, kröfu um miskabætur. Málið er ekki einfalt því ef hinn „virðulegi dómur kemst að því að ákærði sé ósakhæfur“ skal að hans mati beita ákvæðum Jónsbókar frá árinu 1281 um „óðs manns víg“ líkt og í þeim lagatexta standi.
Guðbrandur rekur líðan umbjóðenda sinna og segir eldsvoðann hafa valdið þeim líkamlegu, andlegu og fjárhagslegu tjóni. Þá hafi lífi þeirra verið stefnt í augljósa hættu. Fólkið búi við skerta sjálfsmynd, mikla andlega vanlíðan, kvíða og ótta. Þá hafi það misst húsnæði sitt og allar eigur sínar. Einn umbjóðandinn, kona sem bjó á annarri hæðinni, hafi komist út og orðið vitni af því að kona á rishæðinni féll niður og lést.
Annar umbjóðandi Guðbrands var unnusti Isabelu Kukla. Þau höfðu verið trúlofuð í fimm ár og ætluðu að gifta sig um miðjan september í fyrra. Til Íslands höfðu þau komið gagngert til að safna sér pening til að halda veislu. Salurinn var bókaður. Boðskortin höfðu verið send út. Hann var ekki heima er eldurinn kom upp. „Þau áttu allt lífið framundan og var andlát hennar honum gríðarlegt áfall,“ segir Guðbrandur. Ungi maðurinn fékk taugaáfall, áfallastreituröskun og glímir við kvíðaröskun, hryggð, dapurleika, reiði, sektarkennd og vanmáttartilfinningu. Þá upplifir hann ósjálfráðar minningar um áfallið.
Sá íbúi sem slasaðist mest hlaut mjög alvarleg brunasár á tæplega 20 prósent líkamans. Honum var haldið sofandi á sjúkrahúsi í mánuð og undirgekkst margar aðgerðir, m.a. húðágræðslu. Hann þarf að lifa með stöðugum verkjum því brunasár og ágrædd húð hafa ekki sömu eiginleika og venjuleg húð.
Guðbrandur fer einnig fram á að Marek verði dæmdur til að greiða systkinum þeirra sem létust miskabætur. Engin fordæmi eru fyrir slíku en hann rökstuddi kröfuna m.a. í ljósi þess með hversu vofeiglegum hætti andlát systkina þeirra bar að.
Harðduglegur einfari
„Eigum við að gera stutt hlé?“ spyr Barbara dómsformaður er Guðbrandur hefur lokið máli sínu.
„Já, endilega,“ segir Stefán Karl en næst er það hann sem mun flytja mál sitt. Fimmtán mínútum síðar er hann mættur við borðið fyrir framan dómarana. „Það er ábyrgð fólgin í því að taka þetta mál að sér,“ segir hann. „Það er álag“, heldur hann áfram og segir að búið sé að dæma Marek í fjölmiðlum og að hann hafi m.a. verið kallaður „fjöldamorðingi“. Málsatvik þann 25. júní í fyrra séu að mörgu leyti þekkt en „þessi saga sem hér er sögð byrjar fyrr“.
Marek hafi verið heilsuhraustur maður, „einfari en harðduglegur“. En svo hafi hann skyndilega veikst. Hann hafi verið lagður inn á Landspítalann og mögulega vegna tungumálaörðugleika vakni hjá honum spurning hvort hann sé með magasár eða krabbamein. Þegar hann kom út af sjúkrahúsinu var hann gjörbreyttur maður. Hegðunarbreytingarnar ágerðust, og nóttina fyrir brunann svaf hann ekki. „Við horfðum á það hvernig hann gekk um miðbæinn,“ segir Stefán og vísaði til upptaka úr eftirlitsmyndvélum. „Hegðun hans var stórundarleg.“ Hann var vistaður á geðdeild eftir handtökuna við sendiráðið og þegar af honum bráði og hann útskrifaður þaðan „er hann aftur orðinn sá Marek sem hann var“.
Staðreyndir og getgátur
„Þá veltir maður fyrir sér hvað gerist á Bræðraborgarstígnum,“ segir Stefán Karl og vitnar því næst í ameríska kvikmyndagerðarmanninn Blake Edwards, sem eitt sinn hafi sagt um rannsóknarlögregluna að „það sé ekkert sem skipti meira máli en staðreyndir, annað eru getgátur.“
Stefán fullyrðir að málið hafi aldrei verið rannsakað „með neitt annað í huga“ en að Marek hafi kveikt í. Þær forsendur hafi verið gefnar að það hafi verið „ruglaði kallinn sem labbaði frá húsinu“.
Kannski væri það hins vegar þannig að enginn hefði kveikt í. „Ég hef oft sagt að saksóknari sem hér er sé svo góð í sínu starfi að hún geti sagt mér að svart sé hvítt,“ heldur Stefán Karl áfram og á þar við Kolbrúnu Benediktsdóttur, varahéraðssaksóknara. „En þetta er ekki svona, það þarf að rannsaka þetta. Þetta þarf að vera afdráttarlaust.“
Því hafi verið „fleygt fram“ að Marek hafi verið með kveikjara í hendinni þegar hann var handtekinn. Gerði það hann að brennuvargi? Var hann „gripinn glóðvolgur?“
Á myndböndunum við sendiráðið sjáist að Marek hafi tæmt úr vösum sínum. Þegar lögreglan kom hafi hann svo verið með kveikjara og sígarettupakka í höndunum. „Er ekki auðveldara að draga þá ályktun að hann sé reykingamaður, frekar en brennuvargur?“
Blóraböggull og bullandi vafi
Stefán segist hafa gengið fram hjá hornhúsinu á Bræðraborgarstíg á hverjum einasta degi á leið sinni til vinnu alla tíð. „Þetta hús er ein stór eldspýta.“ Hann segir „auðvelt að kenna klikkaða manninum“ um en „það er í raun enginn sem sér hann kveikja í.“ Að mati Stefáns hafi rannsókn málsins verið léleg. „Bara afskaplega léleg.“ Frá fyrstu stundu hafi málið verið rannsakað með það í huga að færa sönnur á sekt Mareks. „Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu mun ekki vinna nein verðlaun fyrir þessa rannsókn.“
Hann segir „bullandi“ vafa í málinu og að þörfin til að finna blóraböggul þegar svona hræðilegur atburður eigi sér stað sé „kannski undirliggjandi í málinu“.
Þá telur hann að tillaga yfirmatsmanna um öryggisvistun byggi á því að Marek hafi framið hinn refsiverða verknað. Annar geðlæknir sem kom fyrir dóminn hafi hins vegar sagt, og þeir reyndar allir, að engin hætta stafaði af Marek í dag. Engin geðsaga sé í hans fortíð. Stefán Karl vekur enn og aftur athygli á antibiomaniu, tímabundnu maníukasti vegna sýklalyfjanotkunar, sem er alvarleg en sjaldgæf aukaverkun. Hann fjallar því næst um eitt slíkt mál, „case study“ um mann sem var á „nákvæmlega sömu lyfjum og Marek“ og varð mjög veikur á geði. „Sökudólgur“ veikindanna var sýklalyfið, segir Stefán. „Ég er ekki læknir en þegar eitthvað labbar eins og önd og kvakar eins og önd þá hlýtur það að vera önd.“
En af hverju skiptir þetta máli, spyr Stefán Karl og heldur áfram: Vegna kröfu ákæruvaldsins um vistun á stofnun. Hafi lyfin valdið maníu þá sé lykilatriðið að hann noti þessi sýklalyf ekki aftur. „Þetta er eitthvað sem er ekki bara hægt að vísa frá.“
Hafið sé yfir allan vafa að Marek glímdi við afbrigðileg frávik í hegðun um það leyti sem eldsvoðinn varð. Í fangelsinu, þar sem hann hefur verið vistaður í frá því í júlí, hafi engin vandamál komið upp. Marek segist sjálfur hafa hætt að taka geðlyfin fyrir hálfu ári.
„Afstaða mín er sú að hann hafi ekki kveikt í. Að hans sé saklaus.“ Átakanlegt hafi verið að hlusta á framburð vitna og að harmur margra sé mikill. En skaðabótakröfunum sé ekki beint gegn réttum aðilum. „Ákæruvaldið talar fyrir öryggisvistun eða langri fangelsisvist. Ég tala fyrir sýknu.“
Málið er að loknum málflutningi lagt til dóms og dómþingi slitið. Dóms má vænta innan fjögurra vikna.
Nöfn þeirra sem létust í brunanum hafa verið fjarlægð úr umfjölluninni að ósk ættingja þeirra. Nöfnin voru birt opinberlega í ákæruskjali í málinu og komu ítrekað fram við opna málsmeðferð fyrir dómi.