Hildur Björnsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík varði rúmum 9,3 milljónum króna í prófkjörsbaráttu sinni fyrr á árinu. Alls námu styrkir til hennar frá einstaklingum og lögaðilum tæpum 10,9 milljónum króna, sem þýðir að yfir 1,5 milljón króna varð eftir í kosningasjóði Hildar, samkvæmt uppgjöri sem hún sendi til Ríkisendurskoðunar á miðvikudag.
Það fé sem varð afgangs eftir prófkjörsbaráttu Hildar verður ráðstafað til félags sem heitir Frelsisborgin og er í eigu hennar sjálfrar, en tilgangur þess er sagður að „vinna að framfara og frelsismálum í Reykjavík með það að markmiði að skapa frjálst, umburðarlynt og opið samfélag sem byggir á jöfnum tækifærum“. Félagið var stofnað í september í fyrra.
Hildur fékk alls 4,55 milljónir króna í styrki frá sextán fyrirtækjum. Þar af styrktu sex fyrirtæki framboð oddvitans um leyfilega heildarupphæð, sem nemur 400 þúsund krónum.
Félögin sem það gerðu voru Fiskitangi ehf. sem er í eigu Guðmundar Kristjánssonar forstjóra útgerðarfélagsins Brims, FÓ eignarhald ehf. sem er í eigu Fannars Ólafssonar, Klukkufell ehf. sem er í eigu Ágústar Magnússonar, 2G ehf. sem er í eigu Gríms Alfreðs Garðarsson, SNV Holding ehf. sem er í eigu Svanhildar Nönnu Vigfúsdóttur og Kleos ehf., sem er í eigu Björns Inga Sveinssonar, sem er faðir Hildar.
Alls fékk Hildur svo rúmar 6,3 milljónir í styrki frá alls 28 einstaklingum. Einungis Katrín Gísladóttir, móðir Hildar, veitti 300 þúsund króna styrk, sem er það hámarksframlag sem einstaklingar mega veita til stjórnmálamanna í prófkjörsbaráttu lögum samkvæmt.
Samkvæmt uppgjöri Hildar fór meirihluti kostnaðar í auglýsingar og kynningarkostnað, eða 5,3 milljónir króna. Það er meira en Ragnhildur Alda M. Vilhjálmsdóttir, sem skoraði Hildi á hólm í baráttu um oddvitasæti Sjálfstæðisflokksins, varði í auglýsingar og kynningamál sín, en alls varði Ragnhildur Alda 8,8 milljónum í sína baráttu. Hildur varði afgangnum af fénu í að halda úti kosningaskrifstofu, en kostnaður við það er sagður hafa numið rúmum 3,9 milljónum króna.
Fengu hærri framlög en bæði Guðlaugur Þór og Áslaug Arna
Töluvert mikið fór fyrir baráttu þeirra Hildar og Ragnhildar Öldu í fjölmiðlum í aðdraganda prófkjörs Sjálfstæðisflokksins, sem fram fór í mars. Ef til vill eðlilega, enda nam auglýsingakostnaður þeirra tveggja samanlagt rúmlega tíu milljónum króna. Hildur hafði að lokum betur í slagnum um oddvitasæti listans með 49,2 prósent greiddra atkvæða, en 37,1 prósent vildi sjá Ragnhildi Öldu leiða listann.
Athygli vekur að ekki munar miklu á framlögum til þeirra Hildar og Ragnhildar Öldu og þeim framlögum sem þau tvö sem sóttust eftir efsta sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir síðustu alþingiskosningar fengu frá fyrirtækjum og einstaklingum.
Raunar vörðu bæði Hildur og Ragnhildur Alda báðar meira fé en Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir sem varði 8,7 milljónum króna í sína baráttu á síðasta ári. Guðlaugur Þór Þórðarson, sem varð hlutskarpastur í prófkjöri sjálfstæðismanna fyrir alþingiskosningarnar, varði alls 11,1 milljón króna í að koma sér á framfæri við flokksmenn í aðdraganda prófkjörsins.
Þar af komu þó 4,4 milljónir króna beint úr hans eigin vasa, samkvæmt uppgjöri framboðs hans og því ljóst að frambjóðendum til borgarstjórnarprófkjörsins gekk báðum betur en tveimur ráðherrum og leiðtogum flokksins á landsvísu að safna styrkjum frá lögaðilum og einstaklingum.