Hlutabréf og olía hafa lækkað í verði í dag og er áhyggjum vegna slaka í heimsbúskapnum kennt um. Í Bandaríkjunum eru allra augu á fundi Seðlabanka Bandaríkjanna á miðvikudag, þar sem vaxtaákvörðun bankans verður kunngjörð. Ekki er gert ráð fyrir að bankinn hækki vexti á þessu ári, að því er segir í um fjöllun Wall Street Journal í dag, en fyrr á árinu lét Janet Yellen, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, hafa eftir sér að líklega hæfist vaxtahækkunarferli síðar á árinu. Vöxtum hefur verið haldið við núllið í um átta ár núna, eða frá því þrengja tók verulega að á fjármálamörkuðum heimsins, árið 2007.
Allt er þó forsendum háð, og þær breytingar sem orðið hafa á heimsbúskapnum síðan, og ekki síst á hinu alþjóðapólitíska sviði, hafa leitt til þess að meiri þrýstingur er nú á bankann að halda vöxtum niðri.
Verð á hlutabréfum í Bandaríkjunum hefur fallið um ríflega eitt prósent í dag, og verð á olíu sömuleiðis. Verð á tunnu af hráolíu er nú um 44 Bandaríkjadalir en fyrir um ári síðan var tunnan á tæplega 110 Bandaríkjadali. Þessi skarpa verðlækkun hefur haft mikil áhrif á olíuðinaðinn í heiminum, og einnig á verð á ýmsum öðrum hrávörum, og þá til lækkunar. Flestar spár geri ekki ráð fyrir dramatískum breytingum á olíuverði næsta árið.