Síminn greiddi hluthöfum sínum út alls átta milljarða króna vegna endurkaupa á hlutabréfum í félaginu og hálfan milljarð króna í arð þann 8. apríl síðastliðinn.
Tilkynnt hafði verið um að það stæði til að greiða upphæðina út samhliða birtingu ársuppgjörs félagsinsfyrir árið 2020 fyrr á þessu ári. Í fjárfestakynningu vegna uppgjörs fyrsta ársfjórðungs, sem birt var í vikunni, er staðfest að greiðslan hafi verið greidd út.
Síminn endurfjármagnaði sig sömuleiðis á fyrsta ársfjórðungi með fjármögnun frá Arion banka.
Auk þess gekk Míla, sem er að öllu leyti í eigu Símans, frá 20 milljarða króna fjármögnun frá Íslandsbanka 6. apríl síðastliðinn. Vaxtaberandi skuldir Símasamstæðunnar hafa farið úr því að vera 15,9 milljarðar króna um síðustu áramót í að vera 26 milljarðar króna í lok mars eftir ofangreinda endurfjármögnun.
Handbært fé var um 4,5 milljarðar króna í kjölfar endurfjármögnunar og greiðslu til hluthafa.
Stoðir fengu hæstu greiðsluna
Stærsti einstaki hluthafi Símans er fjárfestingafélagið Stoðir, sem á 15,41 prósent hlut í félaginu. Jón Sigurðsson, nýráðinn forstjóri Stoða og einn stærsti hluthafi félagsins, er einnig stjórnarformaður Símans. Miðað við núverandi eignarhlut fengu Stoðir um 1,3 milljarða króna út úr Símanum vegna endurkaupa og arðgreiðslu í þessum mánuði. Aðrir helstu eigendur Símans eru íslenskir lífeyrissjóðir.
Stoðir eru líka stærsti innlendi einkafjárfestirinn í Arion banka, þess sem nú endurfjármagnar skuldir Símans, en þar hefur verið rekin sú stefna að reyna að greiða sem mest eigið fé út úr bankanum undanfarin ár. Á næstu árum er stefnt að því að greiða um 50 milljarða króna til hluthafa bankans. Á þessu ári munu arðgreiðslur verða þrír milljarðar króna og endurkaup á eigin bréfum 15 milljarðar króna. Hlutdeild Stoða í þeirri útgreiðslu er um 900 milljónir króna.
Eftir að sameining Kviku, TM og Lykils gekk í gegn eru Stoðir líka stærsti eigandi þess banka með 9,03 prósent hlut.
Þessar þrjár eignir eru yfir 90 prósent af eignum Stoða. Kjarninn greindi frá því í gær að eigið fé Stoða um síðustu áramót hafi verið 31,8 milljarðar króna og að það hafi aukist um 18,5 milljarða króna frá lokum árs 2016. Ljóst má vera, af þeim útgreiðslum sem þegar hafa farið fram úr lykileignum Stoða á þessu ári og þeim hækkunum sem orðið hafa á bréfum þeirra, að eigið fé félagsins hefur aukist verulega það sem af er ári.
Bankar ráðnir til að skoða sölu á innviðum
Í fyrra stóð yfir undirbúningur á breyttri verkaskiptingu milli Símans og dótturfélagsins Mílu, sem heldur utan um fjarskiptainnviði félagsins. Sú breytta verkaskipting tók gildi í byrjun þessa árs. Á meðal þess sem fólst í breytingunni var að Míla tók yfir netrekstur sem áður var innan vébanda Símans.
Kjarninn greindi frá því í september í fyrra að fjárfestar hefðu lagt fram óformlegar fyrirspurnir til Símans um möguleg kaup á Mílu en að engar ákvarðanir hefðu verið teknar um söluna. Ljóst er að ef Míla yrði seld væri hægt að skila enn meiri fjármunum úr rekstri Símans til hluthafa félagsins.
Nú virðist vera kominn skriður á það mál.
Síminn er ekki eina fjarskiptafyrirtækið sem hefur verið að skoða sölu á fjarskiptainnviðum undanfarin misseri. Slíkt hefur líka verið til athugunar hjá Nova og Sýn hefur þegar selt sína innviði til ónafngreindra erlendra fjárfesta. Tilkynnt var um þá sölu 1. apríl síðastliðinn og var kaupverðið sagt yfir sex milljarðar króna.
Áður hafði verið greint frá því að sjóður í stýringu bandaríska framtakssjóðsins Digital Colony væri sá aðili sem væri að reyna að kaupa hina óvirku farsímainnviði Sýnar.
Myndlyklar ekki nauðsynlegir lengur
Sú stoð sem hefur vaxið mest innan Símans undanfarin misseri er sjónvarpsþjónusta. Í fyrra jukust tekjur Símans í heild til að mynda um 868 milljónir króna þrátt fyrir það sem stjórnendur félagsins lýsa í kynningu að hafi verið „erfitt árferði“ vegna kórónuveirufaraldursins. Tekjur af sjónvarpsþjónustu jukust mest, alls um 632 milljónir króna.
Þar munaði mest um tekjur af Premium-áskrift Sjónvarps Símans, sem jukust um hálfan milljarð króna, og auknar auglýsingatekjur, sem jukust um tæpar 100 milljónir króna.
Tekjur vegna áframhaldandi starfsemi jukust um 99 milljónir króna á fyrsta ársfjórðungi 2021, miðað við það sem þær voru á sama tíma í fyrra. Af þeirri upphæð komu 39 milljónir króna, tæp 40 prósent, frá auknum tekjum vegna sjónvarpsþjónustu. Í fjárfestakynningunni segir að auglýsingasala hafi gengið vel og aukist talsvert milli ára.
Í kynningunni er enn fremur greint frá breytingum sem verið er að ráðast í á sjónvarpsþjónustu Símans. Hún verður nú aðgengilegt fyrir alla án þess að þörf verði á myndlykli frá félaginu, sem greiða hefur þurft sérstaklega fyrir. Því geta eigendur til dæmis snjallsjónvarpstækja, eða þeir sem eru með Apple TV, nálgast þjónustuna í gegnum þau tæki.