„Mig langar í dag undir störfum þingsins að hrósa Útlendingastofnun. Það er ekki gert mikið af því hér úr þessum ræðustól,“ sagði Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, við upphaf þingfundar í morgun.
Tilefnið er sérstakur vefur Útlendingastofnunar sem settur var í loftið í vikunni þar sem farið er yfir efnisatriði í jóladagatalinu sem sýnt er á RÚV nú á aðventunni, en það ber heitið Randalín og Mundi: Dagar í desember og fjallar meðal annars um fólk á flótta.
„Persónur þáttanna eru skáldaðar en áhorfendur velta því örugglega fyrir sér hvort þættirnir gætu gerst í raunveruleikanum. Randalín og Mundi eru klárir krakkar sem spyrja margra skynsamlegra spurninga um flóttafólk. Fullorðna fólkið í þáttunum á hins vegar oft ekki til nein svör við spurningum þeirra. Fyrir þá krakka, foreldra og kennara, sem eru að velta þessum spurningum fyrir sér, ákváðum við hjá Útlendingastofnun að taka saman upplýsingar í tengslum við efni þeirri þátta sem fjalla um málefni flóttafólks. Við vonum að upplýsingarnar nýtist sem grunnur að góðum samtölum á aðventunni og í framtíðinni,“ segir einnig á vef Útlendingastofnunar.
„Meira að segja ég skildi þennan texta ágætlega“
Bergþór segir Útlendingastofnun hafa tekist vel til þar sem „meira að segja“ hann sjálfur hafi skilið textann ágætlega. Hvetur hann fólk eindregið til að kynna sér viðbrögð stofnunarinnar við jóladagatalinu.
Meðal útskýringa sem settar eru fram á vefnum er að þrátt fyrir að forstjóri Útlendingastofnun sé „svakaleg gribba“ í þáttunum sé það svo að í „alvörunni vinna engar gribbur hjá Útlendingastofnun“ og útskýrt er að fólkið sem vinni hjá Útlendingastofnun vilji fólki eins og Fatimu, karakter í þáttunum sem senda á úr landi, vel, „þótt það þurfi að segja henni að lögin séu þannig að hún fái ekki að vera áfram á landinu“.
„Ég held að þetta sé til mikilla bóta og til fyrirmyndar. Ég vil ítreka það að ég hrósa Útlendingastofnun fyrir þetta framtak því eins og við vitum í þessum þingsal þá kom til hvassra orðaskipta vegna barnaefnis Ríkisútvarpsins í síðustu viku,“ sagði Bergþór.
Jóladagatalið var gagnrýnt nokkuð í upphafi mánaðar, í kjölfar þess að leikkonan Ilmur Kristjánsdóttir, sem er einn höfunda jóladagatalsins og túlkar jafnframt forstjóra Útlendingastofnunar í þáttunum, lét hafa eftir sér í skemmtiþættinum Vikunni með Gísla Marteini að hún hefði sett sér það áramótaheit að taka að sér hlutverk vondrar konu á árinu og uppfyllt það með því að leika forstjóra Útlendingastofnunar.
Andri Steinn Hilmarsson bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi sagði það nýjan lágpunkt „þegar útlendingastefna RÚV er orðin að meginþema í jólabarnaefni sem er framleitt“ og að embættismenn væru „settir í skotmiðin hjá stofnuninni með þessum hætti“.
Fyrir viku sagðist þáttagerðarkona á vegum RÚV, í þætti á RÚV þar sem hún var gestur og fjallað var um annan væntanlegan þátt á RÚV, hafa strengt áramótaheit að leika vonda konu á árinu. Það hafi hún fengið uppfyllt þegar hún fékk að leika forstjóra Útlendingastofnunar í jóladagatali barnanna á RÚV. Gísli Marteinn, sem fannst þetta greinilega algjör snilld, lýsti þessu þannig að þarna væri verið að blanda saman list og pólitík. Það er nú ekki beint launungarmál að RÚV hafi pólitíska slagsíðu, bæði í dagskrárgerð og hjá fréttastofu. Fréttastofan velur oft fyrirsagnir og fréttavinkla sem litast af ákveðinni sýn á málin. Hleypir oft kappi í kinn hjá spyrlum þegar ákveðnir stjórnmálamenn mæta en rauður dregill dreginn fram þegar aðrir eru í settinu. Síðastliðin misseri er eins og RÚV hafi endanlega kastað því fyrir róður að gæta hlutleysis í stórum málum. Ég verð samt að segja að það er nýr lágpunktur þegar útlendingastefna RÚV er orðin að meginþema í jólabarnaefni sem er framleitt. Hvað þá að embættismenn, sem framfylgja lögum sem Alþingi setur, séu settir í skotmiðin hjá stofnuninni með þessum hætti. Ég held að þessi klippa sem ég tók saman lýsi ágætlega stemningunni hjá þessari ágætu stofnun sem við þurfum öll að greiða fyrir hvort sem við höfum áhuga á því eða ekki.
Posted by Andri Steinn Hilmarsson on Friday, December 2, 2022
Ásmundur Friðriksson þingmaður sama flokks tók svo málið upp á þingi og í kjölfarið sagði í leiðara Morgunblaðsins að alvarlegt væri að „RÚV skuli bjóða upp á barnaefni þar sem veist er að opinberum embættismanni og fluttur áróður um pólitísk málefni“.
Bergþór sagði það ekki geta verið hlutverk Ríkisútvarpsins að „mála opinbera embættismenn upp sem einhverjar grýlur þegar stofnun viðkomandi aðila er eingöngu að framfylgja lögum sem við á Alþingi höfum samþykkt“.
„Það er þá okkar hér að gera breytingar ef tilefni er til,“ sagði Bergþór.
Útlendingastofnun reyni að gaslýsa börn
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, var hrós ekki efst í huga þegar hún tók til máls. „Fyrir utan það hversu vanhugsað og undarlegt útspil stofnunarinnar er — hver í alvörunni er að fara að lesa þetta upp fyrir börnin sín? — þá er margt við útskýringar stofnunarinnar gagnrýnivert,“ sagði Arndís í ræðu sinni.
Arndís Anna sagði að samkvæmt útskýringum Útelndingastofnunar eru brottvísanirnar á ábyrgð þingmanna. „Fyrir þau okkar sem vita betur og þekkja lög um útlendinga vel er þetta grátbroslegur snúningur á raunveruleikanum þegar litið er til allra þeirra sérstöku og matskenndu heimilda og ákvæða sem stjórnsýslunni er mögulegt að beita til þess að komast hjá því að vísa fólki af landi brott,“ sagði Arndís, sem segir stofnunina svo gott sem reyna að gaslýsa börnin.
Ríkisstofnun beiti árás og áróðri gegn annarri ríkisstofnun
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, tók undir orð flokksbróðurs síns og lýsti yfir mikilli ánægju með viðbrögð Útlendingastofnunar við þeim „árásum og áróðri, það er ekki hægt að kalla það annað, sem stofnunin hefur orðið fyrir af hálfu annarrar ríkisstofnunar og það í formi meints barnatíma“.
Sigmundur sagði Útlendingastofnun hafa það erfiða hlutverk að framfylgja reglum án þess að mega nokkurn tímann að ræða einstök mál sem birtast í fjölmiðlum.
„En þarna er á mjög kurteislegan hátt farið yfir staðreyndir mála og ég hvet fólk til að kynna sér það. En þessari stofnun, sem fæst við mjög erfitt verkefni, er ekki gert auðveldara fyrir af stjórnvöldum því eins og við þekkjum og meira að segja ráðherra málaflokksins hefur viðurkennt þá eru þessi mál í ólestri, stjórnlaus,“ sagði Sigmundur.
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra sagði í október að ástandið í málefnum flóttafólks væri stjórnlaust og að bregðast þurfi við auknum fjölda hælisleitenda með hertum reglum. Önnur umræða um útelndingafrumvarp dómsmálaráðherra var fyrirhuguð á Alþingi fyrir jól en á fundi þingflokksformanna í hádeginu var ákveðið að fresta umræður um útlendingafrumvarp dómsmálaráðherra fram yfir áramót.
Farið var því að vilja stjórnarandstöðuþingmanna eftir að tillaga þingmanns Pírata um að taka af frumvarpið af dagskrá var felld á Alþingi í síðustu viku. Stjórnarandstöðuþingmenn sögðu það fáránlegt að afgreiða eigi frumvarpið áður en eingreiðsla til öryrkja verði tekin fyrir á þingi.