Mikill skortur er á túrtöppum í Bandaríkjunum um þessar mundir og berjast framleiðendur við að anna eftirspurninni. Allt frá upphafi kórónuveirufaraldursins hefa raskanir í aðfangakeðjum heimsins haft það í för með sér að fólk skortir nauðsynjavörur. Ekki bætir úr skák að verðbólga hefur látið á sér kræla víða um heim og fólk hefur gripið til þess ráðs að hamstra, bæði til þess að komast hjá því að fá ekki vöruna sem það þarf og til þess að reyna að verða á undan verðbólgunni, ef þannig mætti að orði komast.
„Ég athugaði í átta búðum! Ég endaði á því að panta á Amazon á uppsprengdu verði,“ segir ein reynslusaga af Reddit um leit konu að túrtöppum. Notendur samfélagsmiðla hafa deilt reynslu sinni af skortinum undanfarnar vikur en vandamálið hefur verið viðvarandi í Bandaríkjunum í þónokkurn tíma, að því er fram kemur í umfjöllun New York Times.
Túrtappar bætast þar með á lista yfir vörur sem hörgull hefur verið á. Til að mynda var alvarlegur skortur á þurrmjólkí Bandaríkjunum fyrr á þessu ári. Í upphafi kórónuveirufaraldursins fór fólk að hamstra nauðsynjavörur í stórmörkuðum, bæði hér heima og vestanhafs. Þetta átti til dæmis við um klósettpappír og bökunarvörur á borð við hveiti og ger svo tímabundinn skortur varð á þessum vörum.
Heita því að auka framboð
Framleiðendur túrtappa hafa nú heitið því að tækla þennan framboðsskort í Bandaríkjunum. Í frétt BBC er haft eftir fulltrúa Edgewell Personal Care, sem meðal annars framleiðir o.b. túrtappa að framboð fyrirtækisins hafi minnkað vegna mikils skorts á vinnuafli í Bandaríkjunum og Kanada sem er tilkominn vegna kórónuveirufaraldursins. Unnið sé allan sólarhringinn í verksmiðjum fyrirtækisins til þess að reyna að mæta eftirspurninni. Þá er einnig bent á það í fréttinni að aðföng til framleiðslu á hreinlætisvörum hafi hækkað mikið í verði í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu.
Vandamálið er samt sem áður ekki nýtt af nálinni. Líkt og áður segir er vandamálið að stórum hluta tregða í gangverki aðfangakeðja heimsins sem má að miklu leyti rekja til kórónuveirufaraldursins. Atburðarásin er rakin í stuttu máli í grein New York Times. Uppsagnir fylgdu kólnuninni sem varð í hagkerfum heimsins vegna faraldursins og þar af leiðandi minni umsvif og minni framleiðsla. Í kjölfarið minnkaði umfang fraktflutninga á heimsvísu umtalsvert.
Eftirspurn eftir hlífðarbúnaði rauk aftur á móti upp úr öllu valdi en slíkar vörur eru að langstærstum hluta framleiddar í Kína. Verksmiðjur þar í landi juku því framleiðslu sína á þessum vörum og þær voru fluttar út um allan heim. Þegar búið var að afferma hlífðarbúnaðinn í höfnum víða um heim söfnuðust gámarnir vegna þess hve mikið útflutningur hafði dregist saman. Þetta olli miklum gámaskorti í Kína enda var útflutningur þaðan með mesta móti.
Hafa fyrirvara á og kaupa meira af nauðsynjum
Einkaneysla breyttist líka talsvert í faraldrinum. Fólk varði minni peningum í alls kyns neyslu vegna samkomutakmarkana og miklu meiri tíma heima. Peningum sem annars hefði verið varið í ferðalög, á veitingahúsum eða börum var nú eytt í alls kyns varanlegar neytendavörur á borð við húsgögn, raftæki og búsáhöld. Hafnir Bandaríkjanna hreinlega fylltust af flutningagámum og kostnaður af skipaflutningum milli Kína og Bandaríkjanna tífaldaðist á skömmum tíma.
Á sama tíma áttu bandarísk fyrirtæki í erfiðleikum með að ráða fólk til vinnu. Ein birtingarmynd þess vandamáls var skortur á vörubílstjórum til þess að flytja allar þessar vörur frá höfnum Bandaríkjanna inn í vöruhús og verslanir. Þrátt fyrir að atvinnurekendur hafi hækkað laun áttu fyrirtækin í stökustu vandræðum með ráðningar. Mikið magn af innfluttum varning sat því hreinlega fastur í höfnunum.
Hefur keðjuverkandi áhrif
Skortur á einni vöru leiddi svo til þess að ekki var hægt að fullvinna aðra vöru. Til dæmis varð skortur tölvukubbum til þess að hægja verulega á bílaframleiðslu í Bandaríkjunum. Kjarninn fjallaði í vikunni um áhrif þessa á afkomu bílaframleiðenda sem einbeittu sér að því að framleiða dýrari bíla fremur en ódýra.
Öll þessi vandræði í aðfangakeðjum heimsins hafa einnig haft áhrif á neytendahegðun. Fluttar hafa verið fréttir af þessu hökti frá því í miðjum faraldri og neytendur hafa sjálfir reynslu af því að fá ekki eitthvað út í búð sem þá vantaði. Neytendur hafa því í auknum mæli tekið upp á því að panta meira magn af vörum en áður og með miklum fyrirvara.
Sú breyting hefur einnig aukið álag á framboðshlið neysluvara og er einn af lykilþáttum í hækkandi verðbólgu, að því er fram kemur í umfjöllun New York Times, í það minnsta vestanhafs. Leitt er að því líkum að þetta ástand muni vara út árið 2022 hið minnsta.