Kaupmáttur fólks á aldrinum 20-29 ára hérlendis gagnvart húsnæðiskaupum lækkaði um 46 prósent á árunum 2001 til 2019. Fyrirliggjandi misvægi í framboði og eftirspurn er líklegt til að hækka fasteignaverð enn frekar og draga enn meira úr getu ungs fólks til að komast inn á húsnæðismarkað.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri greiningu BHM á mikilvægi skattfrjálsrar ráðstöfunar séreignarsparnaðar fyrir heimili landsins.
Þar er einnig bent á að efnahagsbatinn sem spáð er hérlendis sé til skamms tíma hægari en víða annarsstaðar.
Í nýlegri þjóðhagsspá Hagstofu Íslands er gert ráð fyrir því að hagvöxtur í ár verði 2,6 prósent, en það er lægsti hagvöxtur sem reiknað er með innan Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD).
Á grundvelli greiningarinnar hvetur BHM stjórnvöld til að leita allra leiða til að hjálpa heimilum landsins. Ein slík leið sé að framlengja hina skattfrjálsu ráðstöfun séreignarsparnaðar, en úrræðið, sem hefur þegar verið framlengt tvívegis og hefur verið í gildi frá miðju ári 2014, á að renna sitt skeið um mitt þetta ár að óbreyttu.
21 milljarður króna í skattafslátt
Kjarninn greindi frá því í síðustu viku að alls höfðu 62.952 einstaklingar nýtt sér séreignasparnað sinn til að greiða inn á lán eða í útborgun fyrir íbúð í lok janúar síðastliðins. Í þeirri tölu er samskattaðir taldir sem tveir aðilar jafnvel þótt að einungis annar þeirra hafi greitt inn á höfuðstól húsnæðisláns þeirra.
Þetta þýðir að um 17 prósent allra landsmanna og um 30 prósent allra sem eru á vinnumarkaði, hafa nýtt sér hið skattfrjálsa úrræði.
Samkvæmt tölum sem fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur tekið saman fyrir Kjarnann nemur umfang nýtingar Íslendinga á úrræðunum tveimur frá miðju árið 2014 og fram til loka janúar 2021 alls 92 milljörðum króna. Í þeim tölum kemur einnig fram að áætluð lækkun tekjuskatts og útsvars frá því að úrræðin buðust fyrst og fram til síðustu áramóta sé 21,1 milljarður króna.
Húsnæðisverð hækkað miklu meira hér en almennt innan OECD
Í greiningu BHM er bent á að raunhækkun, hækkun umfram verðbólgu, á húsnæðisverði á Íslandi frá 2014 til 2020 hafi mælst 53 prósent. Eina landið innan OECD sem hefur upplifað meiri húsnæðisverðshækkanir er Ungverjaland en meðaltalið innan OECD er 23 prósent.
Á árinu 2020 einu saman juku heimili landsins húsnæðisskuldir sínar um nálægt 300 milljarða króna og í greiningunni er varað við því að áhrif vaxtahækkana á greiðslubyrði og fjárhagslega stöðu heimila þegar kórónuveirufaraldurinn er á enda kominn gætu orðið töluverð. „Framlenging á ráðstöfun séreignarsparnaðar til 2023 er mikil áhætturáðstöfun fyrir heimili á tímum skerts afkomuöryggis og aukinnar efnahagsóvissu.“