Á eyðijörðinni Dröngum á Ströndum er að finna eitt sérstæðasta náttúrufyrirbrigði Íslands, Drangaskörð. Aðrar náttúruminjar eða náttúrufyrirbæri sem setja svip sinn á Drangalandið eru Drangajökull, árnar, heitar uppsprettur og laugar, eyjur, hólmar og sker, mýrar og votlendi ásamt vogskornum hlíðum, urðum og klettum. „Einstök verðmæti eru í ósnortnum víðernum í landi Dranga og mikil áhersla lögð á að vernda þau svæði um ókomna tíð,“ segir í greinargerð skipulagstillagna um litla frístundabyggð við Drangabæinn sem landeigendur fyrirhuga, Árneshreppur auglýsti fyrr á árinu og Skipulagsstofnun staðfesti svo um miðjan ágúst.
Það er þó hvorki frístundabyggðin við ysta haf né Drangaskörðin tilkomumiklu sem verið hafa umfjöllunarefni frétta upp á síðkastið heldur friðlýsing jarðarinnar sem umhverfis- og auðlindaráðherra undirritaði í lok nóvember. Þar með urðu Drangar fyrsta landsvæðið á Íslandi til að verða friðlýst sem óbyggt víðerni samkvæmt lögum um náttúruvernd.
Samstarfshópur skipaður fulltrúum Umhverfisstofnunar, landeiganda Dranga, sveitarfélagsins Árneshrepps, Minjastofnunar Íslands og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins hefur unnið að undirbúningi friðlýsingarinnar, sem gerð var að frumkvæði landeigenda og í minningu síðustu ábúenda jarðarinnar, frá því í lok árs 2018. Áformin voru auglýst árið 2019 og með tilliti til athugasemda sem bárust auglýsti Umhverfisstofnun tillögu að friðlýsingu nú í ágúst. Því ferli lauk 25. nóvember síðastliðinn. Daginn eftir, eða föstudaginn 26. Nóvember, undirritaði ráðherrann friðlýsinguna sem mun taka gildi nú um miðjan desember.
Það er einmitt þessi tímasetning undirritunarinnar sem vakið hefur athygli og ratað í umræðu í þingsal og fréttir. Því sá sem skrifaði undir var Guðmundur Ingi Guðbrandsson sem nokkrum klukkustundum síðar var ekki lengur umhverfis- og auðlindaráðherra heldur orðinn félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra.
Á þessum gjörningi vakti héraðsblaðið Bæjarins besta fyrst athygli í frétt á vef sínum þann 7. desember. Og síðar þann dag tók Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, málið upp á Alþingi. Sagði hann „alveg hreint ótrúlegt“ að sjá að umhverfisráðherrann hefði friðað Dranga að kvöldi „síðasta dags síns“ í embætti.
„Óháð því hvað okkur þykir um akkúrat þær aðgerðir sem hér hafa komið til tals, þessa friðun í skjóli síðustu nætur, minna þær óneitanlega á aðgerðir einhverra sem telja sig þurfa að verja virkið áður en það fellur í óvinahendur,” sagði Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar. „Þetta er svolítið sérstakt í ljósi þess að um er að ræða sömu ríkisstjórnarflokka.“
Friðlýsingin er því orðin pólitískt bitbein. En af fleiri en einni ástæðu. Ein er sú staðreynd að Guðmundur Ingi skrifaði undir auglýsinguna rétt áður en hann fór úr umhverfisráðuneytinu. Önnur er svo vangaveltur um hvaða áhrif friðlýsingin hefur á stóra og umdeilda virkjunarhugmynd – Hvalárvirkjun –sem áform hafa verið uppi um að reisa á nágrannajörðinni Ófeigsfirði. Bergþór Ólason sagði að friðlýsingin hefði „veruleg áhrif á einn tiltekinn virkjunarkost sem í dag er í nýtingarflokki” rammaáætlunar.
En er það svo?
Fyrst skulum við rifja upp skýringar Guðmundar Inga á því að hann undirritaði friðlýsinguna á þessum tímapunkti. „Þetta einfaldlega kom ekki inn fyrr en þennan dag,“ sagði Guðmundur Ingi við RÚV í gær. „Málið var búið að vera í vinnslu í næstum því fjögur ár, þetta var eitt af fyrstu verkefnunum sem ég setti í gang varðandi friðlýsingar vegna frumkvæðis stórhuga landeigenda sem vildu að það yrði ráðist í að friðlýsa jörðina þeirra. Þannig að ég vildi reyna að klára þetta áður en ég færi úr embætti.“
Spurður hvort ekki hefði komið til greina að eftirláta nýjum ráðherra verkefnið svaraði Guðmundur Ingi því til að undirbúningur friðlýsingarinnar hefði verið í vinnslu allt kjörtímabilið „og mér fannst bara eðlilegt að ég kláraði það“.
Stormur í vatnsglasi
Friðlýsing Dranga var hans síðasta embættisverk og segir hann ekkert óeðlilegt við það. Hann hafi farið í einu og öllu eftir þeim ferlum sem lög kveði á um og ekki hafa gert þetta til að koma í veg fyrir byggingu Hvalárvirkjunar. Við mat á friðlýsingunni hafi enda komið í ljós að hún hefði ekki áhrif á þær framkvæmdir. „Það er utan þess svæðis sem er þetta mögulega virkjanasvæði í tengslum við Hvalárvirkjun.“ Sagði hann umræðuna á Alþingi vera „stormur í vatnsglasi“.
Hvalárvirkjun er ekki fyrirhuguð á landi Dranga. Því hefur hins vegar verið velt upp hvort að návígið við Ófeigsfjörð, þar sem virkjunin er áformuð, gæti haft áhrif á fyrirætlanirnar.
Athugasemdir sem bárust Umhverfisstofnun á auglýsingartíma friðlýsingartillögunnar snérust einmitt m.a. um þetta: Hvort að friðlýsingin kynni að hafa áhrif á hagsmuni og réttindi landeigenda aðliggjandi jarða og þá á hina fyrirhuguðu virkjun. Var í athugasemdum vísað til náttúruverndarlaga um að óbyggð víðerni skuli vera í að minnsta kosti fimm kílómetra fjarlægð frá mannvirkjum og öðrum tæknilegum ummerkjum, svo sem raflínum, orkuverum, miðlunarlónum og uppbyggðum vegum. Umhverfisstofnun bendir hins vegar á að þessari tilteknu málsgrein laganna hafi verið breytt í fyrra á þann hátt að á undan orðunum „í a.m.k. 5 km fjarlægð“ var bætt við orðunum að jafnaði. „Eftir framangreinda lagabreytingu verður ekki séð að friðlýsing [Dranga] hafi áhrif á mögulegar framkvæmdir við Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði eða hafi áhrif á hagsmuni og réttindi landeigenda aðliggjandi jarða,“ segir í umsögn Umhverfisstofnunar.
Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti Árneshrepps og stuðningsmaður Hvalárvirkjunar til margra ára, deilir ekki þessum áhyggjum af áhrifum friðunar Dranga á mögulega virkjun. „Fyrir það fyrsta vitum við ekkert hvort það verður einhvern tímann einhver Hvalárvirkjun,“ sagði hún í samtali við RÚV í gær. „Það er nú svolítill spölur þarna á milli þannig að ég held nú að menn þurfi ekkert að velta vöngum yfir því.“
Fæddist Leifur heppni á Dröngum?
Drangar eru landnámsjörð og þar nam Þorvaldur Ásvaldsson land. Sonur hans var Eiríkur rauði er flutti síðar til Grænlands, en sonur hans var Leifur heppni. Eiríkur bjó á Dröngum eftir föður sinn og færa má líkur að því að þar hafi Leifur sonur hans fæðst.
Hjónin Anna Jakobína Guðjónsdóttir og Kristinn Hallur Jónsson og börn þeirra voru síðustu ábúendur á Dröngum og voru þar með búskap allt til ársins 1966. Það er þó vart hægt að kalla Dranga eyðijörð enda hafast afkomendur Önnu og Kristins þar við stóran hluta ársins. Enginn akvegur liggur þangað. Aðeins er fært á báti eða fótgangandi og á því ferðalagi koma hin tignarlegu Drangaskörð við sögu.
Drangar ná frá Drangajökli að sjó á milli Bjarnarfjarðar og Drangavíkur og hið nú friðlýsta svæði er 105 ferkílómetrar að stærð. Þar af eru níu ferkílómetrar í hafi. Svæðið er hluti af víðáttumiklu samfelldu óbyggðu víðerni á Vestfjörðum.
Verndargildi svæðisins er mjög hátt á bæði íslenskan og alþjóðlegan mælikvarða og felst fyrst og fremst í víðerni og tilkomumiklu landslagi mótað af jöklum ísaldar. „Dalir og hvilftir eru grafnar af jöklum í almennt einsleitan og mjög reglulegan jarðlagastafla,“ segir í friðlýsingarauglýsingunni. Á milli basalthraunlaga eru rauðleit setlög, oftast forn jarðvegur að uppruna. „Landslag er mikilfenglegt og áhrifamikið, s.s. Drangaskörð, gróðurfar sérstakt, víðernisupplifun mikil sem og náttúrufegurð og svæðið er nær óraskað. Við ströndina er að finna menningarminjar sem standa sem minnisvarðar um búsetuhætti og tíðaranda fyrri tíma.“
Kyrrð og ró
Markmiðið með friðlýsingunni er að standa vörð um umfangsmikið óbyggt víðerni „þar sem náttúran fær að þróast á eigin forsendum, varðveita og viðhalda óvenjulegu, mikilfenglegu og fjölbreyttu landslagi sem og víðsýni. Friðlýsingunni er einnig ætlað að tryggja vernd jarðminja, vistkerfa og lífríki þeirra innan svæðisins. Þá miðar friðlýsingin að því að tryggja að núlifandi og komandi kynslóðir geti notið, í kyrrð og ró, einstakrar náttúru þar sem náttúrulegir ferlar eru ríkjandi og beinna ummerkja mannsins gætir lítið eða ekkert“.