Tíu milljónir bandaríkjadala er sú upphæð sem flestir telja nóg til þess að þeir geti lifað þægilegu lífi, að Bandaríkjamönnum undanskildum.
Þetta eru niðrustöður nýlegrar rannsóknar sem framkvæmd var af sálfræðingum í tveimur háskólum í Bath í Bretlandi. Rannsóknin náði til 8 þúsund þátttakenda í 33 löndum í sex heimsálfum. Í 86% þeirra landa sem rannsóknin náði til voru milljónirnar 10, taldar í bandaríkjadölum, sú upphæð sem fólk yrði sátt með, en spurningar rannsóknarinnar sneru raunar sérstaklega að þeirri upphæð sem fólk teldi nógu háa fyrir lottóvinning.
Samkvæmt umfjöllun Forbes um málið gætu niðurstöðurnar bent til þess að fólk sé í raun almennt ekki jafn gráðugt og áður hefur verið talið. Niðurstöður frá bandarískum þátttakendum rannsóknarinnar voru þó aðrar, þar sem meirihluti taldi að tíu sinnum hærri upphæð, eða 100 milljónir bandaríkjadala, væri ásættanleg.
Meirihluti fólks frá Argentínu, Indlandi og Rússlandi sagðist hins vegar myndu vel geta sætt sig við eina milljón bandaríkjadala, eða minna, til þess að lifa þægilegu lífi.
Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar verður munur á þeirri upphæð sem fólk telur ásættanlega ekki rakinn til mismunandi efnahagslegrar þróunar á milli þeirra landa sem rannsóknin náði til, heldur voru þátttakendur sem voru yngri, búsettir í borgum og kunna að meta völd, frama og sjálfstæði líklegri til að telja mun hærri eða ótakmarkaðar upphæðir ásættanlegar. Þeir voru einnig líklegri til að búa í löndum þar sem meiri áhersla er lögð á samfélagsvitund og þar sem valdaójafnvægi er viðteknara.
Gefi vonir um sjálfbærari framfarir í efnahagsmálum
Niðurstöðurnar gætu þó gefið vonir um sjálfbærari efnahagslegar framfarir, en samkvæmt höfundum rannsóknarinnar hafa hugmyndir um að fólk hafi ótakmarkaðar langanir verið viðteknar síðan á tímum forngrikkja og að í þær sé enn haldið fast í kennslubókum hagfræðinnar.
Rannsóknin kunni að hafa sýnt fram á að þessi kenning sé röng, í hið minnsta í flestum löndum heimsins, og að sjálfbær markmið um takmörkun auðs og vaxtar gætu verið í meira samræmi við persónulegar hugsjónir fólks en hingað til hefur verið talið.