„Það eru ýmsar ástæður sem við teljum vera fyrir þessu en eigum ekkert endilega von á að þetta verði staðan áfram,“ segir Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi almannavarna, spurð hvers vegna svo fáir hafi verið í sóttkví á landinu miðað við fjöldann í einangrun samkvæmt tölum COVID.is. Hlutfallið hefur vissulega sveiflast til og frá í fyrri bylgjum en sem dæmi voru um 4 í sóttkví á hvern þann sem var í einangrun í fyrstu viku október í fyrra er þriðja bylgjan var að hefja sig til flugs. Í gær var þetta hlutfall 1,4. Í dag hefur hlutfallið breyst eftir að 500 manns voru sendir í sóttkví á einum sólarhring – á sama tíma og um 100 smit greindust.
Hjördís telur að árstíminn sé líklega helsta ástæðan fyrir þessu lága hlutfalli nú. Það sé sumarfrí í skólum og sömuleiðis hefur fólk verið í fríum frá íþróttaæfingum í sumum hópíþróttum. „Önnur ástæða er sú,“ segir Hjördís, „að mjög margir hafa svo verið í sumarfríum og ekki hitt vinnufélaga og því síður sent marga með sér í sóttkví.“
Fram hefur komið í fréttum að smitrakningarteymið hafi ekki undan því að hringja í alla sem útsettir hafa verið fyrir smiti og þurfa að fara í sóttkví. Flestir fái núna sms-skilaboð. Þá gagnist rakningarappið einnig í þessum tilgangi.
Hjördís segir að almannavarnir vinni nú smitrakninguna í mikilli samvinnu við vinnustaði þar sem fólk hefur þurft að fara í sóttkví. Reynt sé að senda aðeins þá sem þurfa í sóttkví en aðra, sem hafa ekki verið í mikilli umgengni við smitaðan einstakling, í smitgát.
Smitgát er að sögn Hjördísar notuð þegar einstaklingur hefur fengið tilkynningu um mögulega útsetningu fyrir COVID-19 en ekki er talin þörf á sóttkví. Einnig þegar einstaklingur hefur umgengist eða verið á sama stað og einhver sem síðar greinist með COVID-19.
Þá hafa reglur um sóttkví breyst, m.a. hvað bólusetta einstaklinga varðar. Þeir þurfa ekki lengur að fara í sóttkví þótt að einhver á heimilinu sé í sóttkví, svo dæmi sé tekið.