Icelandair hefur tekið eina Boeing 737 MAX vél úr rekstri. Samkvæmt tilkynningu frá félaginu er tekið fram að málið tengist ekki hinu svokallaða MCAS kerfi sem olli því að MAX vélar voru kyrrsettar víðsvegar um heim.
Tilkynning Icelandair vegna vélarinnar sem um ræðir er svohljóðandi: „Eins og fram hefur komið tilkynnti Boeing í síðustu viku um mögulegt tæknilegt atriði sem tengist rafkerfi í tilteknum Boeing 737 MAX vélum, sem í kjölfarið voru teknar tímabundið úr rekstri hjá nokkrum flugfélögum á meðan lausn væri fundin á málinu. Fram kom að þetta ætti ekki við um MAX vélar Icelandair. Í kjölfar nánari greiningar hjá Boeing, hefur Icelandair nú verið tilkynnt að sambærilegt mál hafi áhrif á eina MAX vél í flota Icelandair. Icelandair hefur því í varúðarskyni tekið tiltekna vél úr rekstri á meðan skoðun fer fram og úrbætur gerðar samkvæmt tilmælum Boeing og bandarískra flugmálayfirvalda. Rétt er að taka fram að málið tengist ekki hinu svokallaða MCAS kerfi vélarinnar og er því ekki tengt kyrrsetningu vélanna sem hefur verið aflétt.“
Mikið hefur verið fjallað um flugvélar af þessari gerð eftir þær voru kyrrsettar vegna MCAS kerfisins. Icelandair tók MAX þotur sínar aftur í notkun í fyrra hluta síðasta mánaðar en þá höfðu þær ekki sinnt hlutverki sínu í nærri tvö ár en vélarnar voru kyrrsettar 12. mars 2019. Kyrrsetningin hafði mikil áhrif á rekstur flugfélagsins en gert hafði verið ráð fyrir því að MAX vélarnar myndu samsvara 27 prósent af sætaframboði félagsins árið 2019.
Icelandair fékk á endanum bætur frá Boeing vegna kyrrsetningarinnar. Út frá rekstrarreikningi í ársfjórðungsskýrslu fyrir þriðja ársfjórðung síðasta árs má áætla að bæturnar hafi numið um 30 milljónum Bandaríkjadala.