Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, mun ræða ítarlega um tengsl sín við fyrirtækið Orku Energy í föstudagsviðtali Fréttablaðsins sem kemur út á morgun. Illugi hefur ekki viljað ræða málið við fjölmiðla undanfarna mánuði þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir þess efnis.
Illugi hefur verið gagnrýndur víða fyrir tengsl sín við Orku Energy. Páll Magnússon, fyrrum útvarpsstjóri, gerði það síðast í gær í blaðagrein. Þar sagði hann m.a.:"„Nú er liðið eitt sumar síðan upplýst var að menntamálaráðherra bað um og fékk persónulegan fjárstuðning frá aðila sem hann síðan veitti pólitíska fyrirgreiðslu vegna viðskiptahagsmuna í Kína. Pólitísk spilling verður ekki augljósari en þetta.“
Starfaði sem ráðgjafi hjá Orku Energy
Illugi starfaði sem ráðgjafi hjá Orku Energy á árinu 2011 á meðan að hann var í leyfi frá þingstörfum vegna rannsóknar á starfsemi peningamarkaðssjóðsins Sjóðs 9 hjá Glitni, en Illugi sat í stjórn sjóðsins fyrir hrun.
Eftir að Illugi varð mennta- og menningarmálaráðherra eftir kosningarnar vorið 2013 hefur hann verið viðstaddur viðburði þar sem Orka Energy á viðskiptalega hagsmuni undir. Í desember 2013 var hann viðstaddur þegar Orka Energy skrifaði undir samstarfssamning við kínverska héraðið Xianyang og Sinopec Star Petroleum um þróun á jarðvarmanýtingu og frekari útþennslu á hitunarkerfum í Xianyang. Undirritun samningsins fór fram á Íslandi. Fyrir hönd Orku Energy undirritaði Haukur Harðarson, stjórnarformaður félagsins, samkomulagið.
Illugi heimsótti svo Kína í lok mars síðastliðins. Á meðal þeirra sem voru með í för í þessari ferð ráðherrans til Kína voru fimm fulltrúar Orka Energy. Einn þeirra var Haukur Harðarson, stjórnarformaður Orku Energy. Á öðrum degi heimsóknar sinnar, þann 22. mars, kynnti hann sér jarðvarmaverkefni í Xionxian héraði, sem unnin eru af SGEG, sem Orka Energy China á 49 prósent hlut í.
Þann 25. mars hitti Illugi Fu Chengyu, stjórnarformann Sinopec. Samkvæmt dagskrá ferðar ráðherrans, sem Hringbraut hefur birt opinberlega, tóku fimm aðilar utan Illuga þátt í fundinum með Fu Chengyu. Þrír þeirra voru íslenskir embættismenn. Hinir tveir voru frá Orku Energy. Annar þeirra var Haukur Harðarson.
„Nokkur fjárhagsleg áföll“
Eftir Kínaferðina hófu fjölmiðlar að spyrjast fyrir um tengsl Illuga við Orku Energy. Hann skýrði loks frá því í hádegisfréttum RÚV 26. apríl síðastliðinn að hann hefði selt íbúð sína í Vesturbæ Reykjavíkur til Hauks Harðarsonar. Þá voru liðnir 20 dagar frá því að hann var fyrst spurður um tengsl sín við félagið af fjölmiðlum. Hann setti síðan stöðuuppfærslu inn á Facebook daginn eftir þar sem kom fram að hann hefði selt íbúðina fyrir 53,5 milljónir króna árið 2013 og að hann leigi hana nú til baka af Hauki á 230 þúsund krónur á mánuði. Illugi var því orðinn ráðherra þegar hann seldi íbúðina. Ástæðan hafi verið „nokkur fjárhagsleg áföll“ sem á hann og eiginkonu hans dundu fyrir nokkrum árum.
Kjarninn greindi frá því sama dag að eitt þessarra áfalla hafi verið gjaldþrot Sero ehf., félags sem Illugi hafi átt hlut í og varð gjaldþrota í nóvember 2012. Ekkert fékkst upp í 65 milljón króna kröfur í bú félagsins.
Illugi hefur sagt að hann hafi sýnt frumkvæði af því að upplýsa um þessi tengsl sín við Hauk. Stundin hefur hins vegar sagt frá því að fjölmiðillinn hefði árangurslaust reynt að fá svör frá Illuga um tengsl hans og Orku Energy, meðal annars vegna þess að Haukur Harðarson hefði keypt íbúð Illuga samkvæmt afsali frá 23. júní 2014, áður en hann skýrði frá kaupunum í hádegisfréttum RÚV.
Vildi ekki upplýsa um upphæð
Kjarninn greindi frá því í maí að þau verkefni sem Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, vann fyrir Orku Energy, voru öll erlendis. Hann kom ekki að kaupum félagsins á Enex-Kína af Orkuveitu Reykjavíkur og Geysi Green Energy né að kaupum þess á Iceland America Energy og fjórðungshlut Orkuveitu Reykjavíkur í Envent Holding af Orkuveitu Reykjavíkur á árinu 2011. Þetta kom fram í svari aðstoðarmanns Illuga við fyrirspurn Kjarnans um vinnu ráðherrans fyrir Orku Energy.
Á meðal þess sem spurt var um í fyrirspurninni var hvað Illugi fékk greitt fyrir störf sín fyrir félagið. Í svari Sigríður Hallgrímsdóttur, aðstoðarmanns Illuga, er þeirri spurningu ekki svarað en sagt að hægt sé að skoða „tekjur þingmanna og margra annarra í opinberum gögnum“.
Fyrirspurn Kjarnans var send 29. apríl síðastliðinn og svar barst 12. maí, eftir ítrekanir eftir svörum. Fyrirspurnin var í formi fimm spurninga um aðkomu Illuga að viðskiptum Orku Energy og fjárhagslega hagsmuni hans af störfum fyrir félagið. Þeim var ekki öllum svarað. Til að mynda fékkst ekki svar við því hvað Illugi hefði fengið greitt fyrir ráðgjafastörf fyrir Orku Energy.
Síðan í maí hefur Illugi ekki viljað svara fyrirspurnum fjölmiðla um málið né mæta í viðtöl þar sem til stendur að ræða tengsl hans við Orku Energy. Þ.e. fyrr en nú þegar hann hefur afráðið að ræða við Fréttablaðið.