Um helmingur allra þeirra tegunda sem finnast undir ísnum í Norður-Íshafi tilheyra hlýrri svæðum heimshafanna. Á þessum slóðum er fáa fiska að finna en fjölmargar aðrar lífverur sem eru ekki dæmigerðar fyrir heimskautasvæði.
Þetta segir Randi Ingvaldsen, vísindakona við norsku Hafrannsóknastofnunina um nýja og nýstárlega rannsókn á lífríkið í hafinu á hjara veraldar. Ísbrjóturinn Hákon krónprins var nýttur til verksins og flotvarpa notuð við að toga undan ísnum í kringum 87,5 gráðu norðlægrar breiddar, rétt undan hinum eiginlega norðurpól.
Rannsóknin var gerð í fyrra og var trollið dregið inn tólf sinnum. Samanlagt fundust hins vegar aðeins sjö fiskar m.a. þorskur, grálúða og lýsa. Það hljómar skringilega en kemur ekki á óvart á þessum slóðum, segir Ingvaldsen, sem tók þátt í rannsókninni, við Norska ríkisútvarpið, NRK. Hún segir það hafa verið almenn vitneskja að ekki væri mikið um fisk í Norður-Íshafinu.
Annað sem kom upp úr kafinu við rannsóknina kom verulega á óvart. Fyrst og fremst sú staðreynd að aflinn samanstóð fyrst og fremst af fartegundum. „Við fundum næstum því fleiri tegundir sem eru algengar á suðrænni slóðum en af þeim sem eru algengastar á heimskautaslóðum,“ segir Ingvaldsen við NRK. Þá fannst einnig makríll og marglyttur. Fleiri marglyttur en fiskar veiddust. Aðeins sjö af þeim 29 tegundum sem fundust við rannsóknina eru taldar hreinræktaðar heimskautategundir.
Fylgja hafstraumum
Helsta skýringin er talin sú að tegundir fylgja oft hafstraumum. Og þeir eru að breytast. Bodil Bluhm, vísindamaður við UiT, háskóla norðurslóða, segir nú mikilvægt að fylgjast með hvernig þessum tegundum reiðir af. Heimskautasvæðin eru að taka miklum breytingum vegna loftslagsbreytinga af manna völdum. Hitastig fer hækkandi og ísinn bráðnar hraðar en áður. „Þessi rannsókn sýnir að [loftslagsbreytingar] eru raunverulega að eiga sér stað,“ segir Nils Gunnar Kvamstø, „og að breytingarnar hafi áhrif á sjávarlífríkið.“
Nú þegar fiskur virðist sækja norðar vegna hlýnunar sjávar, breytinga á hafstraumum og fleiri þátta, mun það auka ásókn í veiðar, líka í Norður-Íshafinu. Bluhm bendir á að miðað við niðurstöður þeirra rannsókna gætu veiðar á þeim slóðum ekki verið arðbærar.
Brátt verði ekki aftur snúið
Hún segir að þótt niðurstaðan hafi verið þessi, að mjög lítið af fiski sé að finna svo norðarlega hafi rannsóknin gefið ýmsar mikilvægar upplýsingar – stoppað í nokkur göt í þekkingu okkar.
Kvamstø segir niðurstöðurnar ískyggilegar. Sú stund nálgist að ekki verði aftur snúið. „Við verðum að nýta þá vitneskju sem við höfum aflað til athafna.“