Utanríkisráðuneytið hefur ekki fengið neinar upplýsingar um hversu víðtækt innflutningsbannið gagnvart Íslandi er en leitað verður eftir upplýsingum í dag. Þetta segir Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, í samtali við Kjarnann. Hann væntir upplýsinga um málið síðar í dag.
Dmitry Medvedev, forsætisráðherra Rússlands, tilkynnti í morgun að Ísland væri á lista yfir lönd þaðan sem bannað er að flytja inn matvörur. Íslandi hefur þar með verið bætt á lista með Evrópusambandslöndum, Bandaríkjunum og Ástralíu en þessi lönd standa saman að viðskiptaþvingunum gagnvart Rússlandi vegna átakanna í Úkraínu.
Gunnar Bragi segir Ísland ekki ætla að endurskoða þátttöku í viðskiptaþvingunaraðgerðunum. „Ég mun ekki leggja til neina endurskoðun á þátttöku í viðskiptaþvingunum. Það byggir á prinsippi og miklu stærra hagsmunamati en þetta, í rauninni, þó hér séu auðvitað miklir hagsmunir,“ segir hann.
Ráðuneytið hefur átt í miklum samskiptum við Rússa eftir að Ísland hóf viðskiptaþvinganir. Gunnar Bragi segir útspil Rússa koma á óvart. „Við höfum átt fín samskipti við Rússa og rússnesk stjórnvöld. Við höfum stutt þá í ýmsu bæði innan Sameinuðu þjóðanna og annars staðar, í því sem þeir eru að gera. Samskiptin hafa verið mjög góð og í rauninni kemur þetta á óvart að því leytinu til.“
Spurður hvort það hafi ekki verið viðbúið að Íslandi yrði bætt í innflutningsbannið segir Gunnar Bragi að svo hafi verið en að vonbrigðin séu samt mikil. „Það sem við gerum núna er að leita upplýsinga um útfærsluna á þessu. Það liggur ekki fyrir hver hún verður, hvaða tímabil eða dagsetningar eru á bakvið og svo framvegis. Þannig að næsta skref er að reyna að fá upplýsingar um slíkt.“