Stefán Jón Hafstein, sendifulltrúi Íslands, lýsti því yfir fyrir hönd íslenskra stjórnvalda á veffundi Alþjóðamatvælastofnunarinnar (FAO) í dag að vilji stæði til þess að halda áfram að styðja við rannsóknaverkefni, sem hafið er á vegum stofnunarinnar og lýtur að því að kortleggja viðskipti með veiðiheimildir þvert á ríki og viðskiptahætti útgerða í þróunarlöndum.
Fram hefur komið að reiknað er með því að verkefnið verði unnið í fjórum áföngum, en skýrsla um þann fyrsta var kynnt á veffundinum sem stofnunin stóð fyrir í dag. Skýrslan verður þó ekki birt í heild sinni fyrr en í upphafi nýs árs.
Íslensk stjórnvöld ákváðu að hafa frumkvæði að verkefninu eftir að Samherjamálið kom upp á yfirborðið fyrir tæpum tveimur árum síðan og fjármögnuðu vinnuna við fyrsta áfangann, sem kynnt var í dag.
Að hafa frumkvæði að þessari úttekt var ein af nokkrum aðgerðum sem ríkisstjórnin ákvað að ráðast í til að „í því skyni að auka traust á íslensku atvinnulífi“ vegna Namibíumálsins sem stundum er svo kallað.
Stefán Jón Hafstein lýsti því yfir á fundinum, sem áður segir, að íslensk stjórnvöld hefðu vilja til þess að halda áfram að fjármagna þetta rannsóknarverkefni, en fram kom á fundinum að næsta skref verkefnisins, annað af fjórum, yrði að gera efnahagslega greiningu á þeim samningum um veiðiheimildir sem kortlagðir voru í fyrsta áfanganum.
Þriðja skrefið, samkvæmt lögfræðingi hjá FAO sem tók til máls á veffundinum, mun svo auk annars felast í því að greina vandamál sem eru til staðar varðandi samninga um veiðiheimildir og í fjórða áfanganum verður sjónum meðal annars beint því hvernig megi koma í veg fyrir að svikastarfsemi líðist hvað þennan málaflokk varðar.
Hægt er að nálgast útdrátt um þær niðurstöður sem dregnar voru fram í fyrsta áfanga verkefnisins á vef FAO.