Að mati Sóttvarnastofnunar Evrópu hefur staðan á faraldri COVID-19 batnað á Íslandi, í Portúgal og á ákveðnum svæðum í Frakklandi og því hafa þau fengið appelsínugulan lit á vikulega uppfærðu litakorti stofnunarinnar sem auðvelda á Evrópuríkjum að samræma aðgerðir sínar í faraldrinum. Fyrstu tilmælin voru birt í október í fyrra og byggja kortin á upplýsingum úr samræmdum gagnagrunni aðildarríkja ESB og EES-ríkja.
Þótt ástandið hafi batnað víða í álfunni eru enn mörg lönd og svæði sem enn eru rauðlituð á kortinu. Má þar nefna nokkur svæði í Noregi, stærstan hluta Spánar og syðsta hluta Ítalíu. Græni liturinn, þar sem ástandið er hvað best miðað við forsendur Sóttvarnastofnunar Evrópu, er enn sjaldgæfur en hann má þó finna nyrst í Danmörku, í Póllandi, Tékklandi og Ungverjalandi.
Ástæðan fyrir því að Ísland fer af rauða listanum og á þann appelsínugula er sú að hér hafa undanfarið greinst færri en 50 smit á hverja 100 þúsund íbúa. Fleiri mælikvarðar eru notaðir, m.a. hlutfall af jákvæðum sýnum.
Hverju ljósari litur á kortinu mun breyta og hvenær er ekki fullvíst þar sem ríkjunum er frjálst að setja sínar eigin reglur þótt mælt sé með því að þær séu í samræmi við tilmæli og ráðleggingar sóttvarnastofnunarinnar. Hún mælir t.d. með því að fólk sem er að koma frá appelsínugulum svæðum sé ekki látið sæta sóttkví við komuna til annarra landa. Hins vegar ættu aðildarríkin að krefja þá farþega um að framvísa neikvæðu COVID-prófi eða að fara í sýnatöku við komu.
Miklar kröfur á bólusetta
Allir þeir sem ferðast til Íslands verða að sýna fram á neikvæða niðurstöðu úr Covid-19 prófi við komuna. Í dag gerir ekkert annað ríki innan EES- eða Scengensvæðisins kröfu um slík vottorð frá fullbólusettum íbúum annarra aðildarríkja. Þetta sýnir samanburður fréttavefsins Túrista.
Þórólfur Guðnason segir í samtali við Túrista að aðgerðir á landamærum Íslands séu byggðar á þeirri reynslu sem fengist hafi undanfarna mánuði með víðtækri skimun, smitrakningu og raðgreiningu. „Þannig höfum við sýnt fram á að bólusettir einstaklingar sem hingað koma geta borið með sér veiruna og sett af stað útbreidda sýkingu innanlands. Þannig tel ég rétt að krefja áfram farþega sem hingað koma um neikvætt PCR/hraðpróf til að lágmarka flutning veirunnar hingað til lands. Fá önnur lönd hafa skoðað þetta eins vel og við. Einkum vegna þess að fá lönd raðgreina eins mikið og við gerum,” hefur Túristi eftir Þórólfi.