Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar spurði Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra hvort hún styddi endurflutta þingsályktunartillögu Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag.
Katrín sagði meðal annars að hún teldi það mikilvægt að meirihluti væri á þinginu til að fylgja eftir aðildarumsókn að Evrópusambandinu. „Ég hefði lagt á það áherslu ef sá meirihluti er fyrir hendi hér á þingi að sá meirihluti leitaði leiðsagnar þjóðarinnar áður en fram væri haldið.“
Logi hóf mál sitt á að rifja upp að árið 2015 hefði verið lögð fram þingsályktunartillaga á þingi um að fela ríkisstjórninni að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi viðræður við ESB, um fulla aðild Íslands.
Hann rifjaði einnig upp að formaður VG, Katrín Jakobsdóttir, hefði mælt fyrir tillögunni í fjarveru formanns Samfylkingarinnar, sem var fyrsti flutningsmaður, og meðal annars sagt í flutningsræðunni:
„Í þessu tilviki tel ég að lýðræðisrökin vegi þyngst, að málið sé af þeirri stærðargráðu og á því séu svo margar hliðar að eðlilegt sé að við leitum leiðsagnar þjóðarinnar og föllumst á að hlíta lýðræðislegri leiðsögn hennar.“
Logi sagðist vera hjartanlega sammála orðum formanns VG og núverandi forsætisráðherra.
„En nú var sams konar þingsályktunartillögu dreift hér í dag af þremur stjórnarandstöðuflokkum. Því leikur mér einfaldlega forvitni á að vita hvort hæstvirtur forsætisráðherra sé ekki örugglega enn þeirrar skoðunar að málið sé af þeirri stærðargráðu að eðlilegt sé að leita leiðsagnar þjóðarinnar,“ sagði hann og spurði hvort hún styddi endurflutta þingsályktunartillögu Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.
Málið er ekki svart/hvítt
Ráðherrann svaraði og sagðist telja að sú vegferð að sækja um aðild á sínum tíma hefði verið farsælli ef ráðist hefði verið í þjóðaratkvæðagreiðslu áður en sú umsókn var lögð fram.
„Ég ætla að segja það hér í þessum stól, og ég held raunar að ég hafi sagt það áður, að ég held að það hafi verið mistök hjá mér og öðrum þeim sem greiddu atkvæði gegn þeirri tillögu að ráðast í þjóðaratkvæðagreiðslu áður en sótt var um aðild. En þannig var það. Þá var það lykilatriði, í þáverandi stjórnarsamstarfi Vinstri grænna og Samfylkingar, að þessi umsókn yrði lögð fram og að ekki yrði ráðist í þjóðaratkvæðagreiðslu áður og við stóðum við það. Ég hef svo sem ekki skipt um skoðun á því að ég tel mjög mikilvægt að leita leiðsagnar þjóðarinnar í slíkum stórum málum. Ég tel, eins og ég sagði, að það hefði betur verið gert þannig 2009. En ég vil líka segja að mér finnst mikilvægt að hér á Alþingi liggi fyrir hver afstaða meiri hluta þingmanna er gagnvart því að fara í slíka vegferð, að sækja um aðild að Evrópusambandinu.
Ég sé að þetta mál er komið aftur á dagskrá, ekki síst vegna þróunar í alþjóðamálum. En ég ætla að líka að upplýsa það alveg heiðarlega að ég er þeirrar skoðunar að Íslandi sé vel borgið þar sem það er, að við eigum ekki að ráðast í það að fara inn í Evrópusambandið. Þá afstöðu hef ég mótað með mér í töluvert langan tíma vegna þess að ég tel einfaldlega að gallarnir séu miklu fleiri en kostirnir, þótt ég sé fyrsta manneskjan til að viðurkenna að þetta er ekki svart/hvítt mál,“ sagði hún.
Aðildarumsókn aldrei verið dregin til baka af Alþingi
Logi spurði í annað sinn og sagði að sama hvaða skoðun menn hefðu á aðdragandanum síðast væri aðildarumsókn, sem lögð var fram á Alþingi á sínum tíma, í fullu gildi.
„Hún hefur aldrei verið dregin til baka af Alþingi. En það er áhugavert að hæstvirtur ráðherra segi: Jú, það er mikilvægt að spyrja þjóðina en við þurfum samt að heyra hvað meiri hluta þingheims finnst um aðild. Þar er hún væntanlega að vísa til hins pólitíska ómöguleika sem hæstvirtur fjármálaráðherra hefur talað mikið um. Sjálf hlýtur hæstvirtur forsætisráðherra einhvern veginn að hafna svoleiðis kenningum vegna þess að hennar flokkur, sem er á móti þjóðaröryggisstefnunni og á móti aðildinni að NATO, gerir það samt að hluta af stjórnarsáttmálanum,“ sagði hann og ítrekaði spurningu sína: „Mun hæstvirtur forsætisráðherra styðja það að þjóðin fái að greiða atkvæði um hvort við höldum áfram aðildarviðræðum?“
Aðild að NATO og aðild að ESB ekki það sama
Katrín kom í pontu í annað sinn og sagði að henni fyndist aðild að Atlantshafsbandalaginu og aðild að Evrópusambandinu ekki sambærileg „því að sá er munurinn á að Ísland er aðili að Atlantshafsbandalaginu og hefur verið það frá stofnun þess. En hitt er allt önnur ákvörðun, að ákveða að fara aftur af stað í að sækja um aðild að ESB.“
Hún sagði það hins vegar vera rétt hjá Loga að Alþingi hefði aldrei dregið umsókn um aðild að ESB til baka og hefði það verið mjög umdeilt á sínum tíma, meðal annars hjá henni.
„Mér hefði þótt betri bragur á því að það hefði verið gert á þeim tíma og raunar er það svo, ef ég man rétt, að það er annar flokkur í stjórnarandstöðu beinlínis með tillögu um að draga umsóknina til baka af hálfu Alþingis og ef mig misminnir ekki er það Flokkur fólksins. Ég vil bara segja það heiðarlega hér að að mínu viti tel ég mikilvægt að það sé meirihluti á þinginu til að fylgja eftir aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Ég hefði lagt á það áherslu ef sá meirihluti er fyrir hendi hér á þingi að sá meiri hluti leitaði leiðsagnar þjóðarinnar áður en fram væri haldið,“ sagði ráðherrann.