Heilbrigðisráðuneytið og utanríkisráðuneytið hafa á undanförnum misserum unnið að því að gefa umframskammta af COVID-19 bóluefnum til efnaminni ríkja í gegnum COVAX-bóluefnasamstarfið. Ísland hefur gefið alla umframskammta sína af AstraZeneca, eða 125.726 skammta, til COVAX og einnig alla umframskammta af Janssen-bóluefninu eða 171 þúsund skammt.
Þá mun Ísland einnig gefa ríflega 45.000 skammta af Moderna-bóluefninu til COVAX og unnið er að áframhaldandi áætlun um gjöf af Moderna skömmtum í samræmi við áætlun sóttvarnalæknis um örvunarbólusetningu næstu misserin. Það sama er uppi á teningnum hvað varðar gjöf á Pfizer-skömmtum, sú áætlun er unnin í samræmi við áætlun sóttvarnalæknis um örvunarbólusetningu hér á landi. Sú herferð er hafin og býðst öllum landsmönnum sextán ára og eldri örvunarskammtur.
„Við notum enn töluvert af Janssen en Astra er ekki lengur flutt inn,” segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir við Kjarnann. Hann segir það bóluefni nýtast betur í öðrum löndum út af þeim takmörkunum sem við settum á notkun þess með tilliti til aldurs og kyns. Þeir skammtar af bóluefni AstraZeneca sem eru til í landinu eru notaðir í seinni skammta þeirra sem hafa ekki klárað tímanlega sína bólusetningu eða hófu hana erlendis og vilja klára með sama bóluefni.
Í svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans um gjafaskammta Íslands og aðra aðstoð við efnaminni ríki í heimsfaraldrinum kemur fram að umframskammtar Íslands fari þangað sem þörfin er talin mest hverju sinni samkvæmt mati bólusetningarbandalagsins GAVI sem hefur umsjón með COVAX. Nú þegar hafa í heildina 47.220 skammtar af AstraZeneca bóluefninu lent í viðtökuríkjum, þar af hafa 35.700 skammtar farið til Fílabeinsstrandarinnar, 1.920 til Gana, 2.400 til Síerra Leóne og 7.200 skammtar til Egyptalands. „Allt kapp er lagt á að umframskammtar renni inn í COVAX eins fljótt og kostur er á,“ segir í svari ráðuneytisins. „Íslensk stjórnvöld hafa frá upphafi lagt áherslu á að styðja við COVAX-samstarfið og hefur Ísland, með framlagi upp á ríflega 1 milljarð íslenskra króna, skipað sér í hóp ríkja sem umtalsvert hafa lagt af mörkum til dreifingar bóluefna á heimsvísu.“
144 ríki taka þátt í COVAX-samstarfinu. Í gegnum það hefur um hálfum milljarði bóluefnaskammta verið dreift til efnaminnstu ríkja heims.
Gjafir í samstarfi við ESB
Auk COVAX-samstarfsins hefur íslenska heilbrigðisráðuneytið í samvinnu við Evrópusambandið ákveðið að gefa umframskammta af Pfizer-bóluefninu sem nú þegar er hér á landi til Taílands í gegnum tvíhliða samning, þar sem ekki er heimilt að gefa bóluefnaskammta sem þegar hafa borist til landsins í COVAX. Það eru í heildina 100.620 skammtar. Ekki liggur fyrir nákvæm dagsetning á flutningi skammtanna til Taílands. Þá vinnur heilbrigðisráðuneytið einnig að því að gefa umframskammta af Moderna-bóluefni, um 50.000 skammta, í gegnum tvíhliða samning í samvinnu við ESB. Um er að ræða skammta sem þegar hafa borist til landsins og því ekki hægt að gefa í COVAX. Ekki liggur endanlega fyrir hvert verður viðtökuríkið.
Samtals hefur Ísland því þegar ákveðið að gefa um hálfa milljón skammta til annarra ríkja, ýmist í gegnum COVAX eða í samvinnu við ESB. Tæplega 600 þúsund skammtar af bóluefni hafa verið gefnir fólki hér á landi. Um 80 þúsund þeirra eru örvunar- eða viðbótarskammtar. 89 prósent landsmanna tólf ára og eldri eru fullbólusett (hafa fengið tvo skammta).
Skammtarnir fæstir þar sem neyðin er mest
Bóluefnasamstarfið Gavi vinnur nú að sérstöku átaki í því að koma bóluefnum sem fást í gegnum COVAX til þeirra jarðarbúa sem búa við viðkvæmustu aðstæður allra, m.a. vegna fátæktar og átaka. Í nýrri tilkynningu frá Gavi segir að um helmingur þeirra landa þar sem neyðin er mest hafi ekki enn fengið bóluefni til að bólusetja 10 prósent íbúa. Fimm fátækustu ríki heims (Tjad, Austur-Kongó, Haítí, Suður-Súdan og Jemen) hafa ekki nægt bóluefni til að bólusetja tvö prósent íbúanna. Átök og annað ofbeldi er útbreitt í flestum þeirra ríkja sem fæsta bóluefnaskammta hafa fengið.
Í tilkynningu Gavi segir að á síðustu vikum og mánuðum hafi smám saman tekist að flytja meira af bóluefna til þeirra jarðarbúa sem búa við hvað mesta neyð og vonir standi til að sú þróun haldi áfram næstu mánuði. Stofnanir á sviði mannúðar, m.a. UNICEF og UN Women, vinna einnig með Gavi að því að koma lífsnauðsynlegri aðstoð, svo sem mat, hreinu drykkjarvatni og skjóli, til fólks sem býr við neyð. Gavi fagnar því í tilkynningu sinni að í þessari viku hafi tekist að koma fyrstu bóluefnaskömmtunum til fólks sem er á flótta undan átökum í Íran og til fólks í áhættuhópum vegna COVID-19 í Taílandi.
Gera ríkar kröfur til viðtakenda bóluefna
Ýmsar hindranir standa í vegi fyrir því að hægt hefur gengið að dreifa bóluefnum. Ekki aðeins seinagangur vestrænna ríkja við að gefa skammta leikur þar hlutverk. Við venjulegar aðstæður taka framleiðendur bóluefna og lyfja mögulegar skaðabótakröfur vegna notkunar efnanna á sig. En í heimsfaraldri COVID-19 hafa lyfjafyrirtækin gert þær kröfur að allir kaupendur og viðtakendur skammtanna, hvort sem um er að ræða einstök lönd eða mannúðarstofnanir, taki þessa áhættu.
Fjórir bóluefnaframleiðendur (Clover, Johnson & Johnson, Sinopharm og Sinovac) hafa aflétt þessum vátryggingakröfum og hvetur Gavi fleiri til að gera slíkt hið sama svo mannúðarstofnanir og samtök geti dreift bóluefnum hraðar um alla heimsbyggðina. Ríkisstjórnir eru hvattar til að beita sér í þessu sambandi en eru einnig minntar á viðkvæma hópa innan sinna samfélaga s.s. flóttafólk, hælisleitendur og í einhverjum tilfellum innflytjendur sem gætu vegna lítilla tengsla í nýju samfélagi orðið útundan í bólusetningum gegn COVID-19.
Stutt við efnaminni ríki með ýmsum hætti
Utan stuðnings við COVAX hefur Ísland stutt við ýmsar aðgerðir til að bregðast við áhrifum COVID-19 á heimsvísu og stuðla að bættri getu efnaminni ríkja til að takast á við faraldurinn, þar með talið í tvíhliða samstarfslöndum okkar, segir í svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans.
Í Malaví hefur 125 milljónum króna verið veitt til COVID-tengdra verkefna árin 2020-2021. Þar af var 45 milljónum til að styrkja COVID-19 viðbragðsáætlun Mangochi-héraðs í heilbrigðis- og menntamálum. Framlagið nýttist í samhæfingu, þjálfun heilbrigðisstarfsfólks og kaup á heilbrigðisvörum. Þá var 27 milljónum króna veitt til Jafnréttisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UN Women), með áherslu á að draga úr áhrifum faraldursins á stúlkur, t.d. með baráttu gegn barnahjónaböndum. Alls hafa 53 milljónir króna farið til Matvælaaðstoðar SÞ (WFP) sem hefur aðstoðað stjórnvöld í viðbrögðum vegna faraldursins m.a. með því að setja upp skimunar- og greiningaraðstöðu við landamærastöðvar Malaví og bráðabirgðabyggingar við sjúkrahús sem munu nýtast sem rannsóknarstofur og legudeildir fyrir COVID-smitaða.
Í Úganda hefur 118 milljónum króna verið veitt til COVID-tengdra verkefna árin 2020-2021. Þar af var um 65 milljónum til skólamáltíða fyrir 23 þúsund börn í Buikwe-héraði. Þá fóru 15 milljónir til að styrkja COVID-19 viðbragðsáætlun héraðsyfirvalda í Buikwe, með áherslu á heilsu og menntun.
Nú nýverið var samþykkt að bæta við stuðningi við bæði samstarfshéruð Íslands í Úganda fyrir árið 2021, að upphæð 38 milljónir, sem mun styrkja viðbragðsgetu héraðanna, m.a. með þjálfun starfsfólks, vitundarvakningu í samfélögum og kaupum á heilbrigðisbúnaði.
Þá var 84 milljónum króna varið í verkefni í Síerra Leóne árið 2020. Þar af var 41 milljón veitt til Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) til vatns- og hreinlætisviðbragða til varnar faraldrinum. Þá var 41 milljón veitt til UNFPA til að viðhalda kynheilbrigðisþjónustu á tímum COVID-19. Að auki var tveimur milljónum króna bætt við fjármögnun fyrir Aberdeen Womens Centre til að reka miðstöð fyrir aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi.