Íslensk knattspyrnulandslið munu ekki leika neina leiki við landslið frá Rússlandi á meðan á hernaði Rússa í Úkraínu stendur. Stjórn KSÍ tók þessa ákvörðun fyrr í dag og segir engu máli skipta þótt viðkomandi lið leiki ekki undir nafni eða fána Rússlands.
Einnig hefur stjórn KSÍ ákveðið, vegna stuðnings Hvíta-Rússlands við innrás Rússa í Úkraínu, að ekki komi til greina að íslensk knattspyrnulandslið leiki við Hvít-rússnesk lið á Hvít-rússneskri grundu.
Knattpyrnusambandið segist fordæma innrás Rússa í Úkraínu og hvetur Rússa til að hætta árásum í Úkraínu og draga herlið sitt til baka án tafar.
Körfuboltinn einnig að hugsa sig um
Fram kom á vef Stundarinnar í dag að innan Körfuknattleikssambands Íslands (KKÍ) hafi einnig verið rætt óformlega um það að hafna því að leika gegn rússneskum landsliðum
„Enginn hefur áhuga á að mæta Rússum eins og staðan er núna. Það á ekki bara við um okkur Íslendinga, Norðurlandaþjóðirnar eru að tala saman og ég heyri að þar hefur enginn áhuga á að spila við Rússa,“ sagði Hannes S. Jónsson formaður KKÍ í samtali við Stundina.
Yfirlýsing KSÍ vegna innrásar Rússlands í Úkraínu
Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ) fordæmir innrás Rússlands í Úkraínu. Stríðsátök hafa fært ólýsanlegar hörmungar yfir mannkynið í gegnum söguna og nú hafa rússnesk yfirvöld, með stuðningi Hvít-rússneskra yfirvalda fært slíkar hörmungar yfir Úkraínu.
Stjórn KSÍ hefur ákveðið að ekkert íslenskt knattspyrnulandslið muni leika við landslið frá Rússlandi meðan á hernaði Rússa stendur. Ákvörðunin nær m.a. til þeirra leikja sem eru framundan í Þjóðadeild UEFA (A landslið karla) og engu skiptir þó viðkomandi lið leiki ekki undir nafni eða fána Rússlands.
Vegna stuðnings Hvíta-Rússlands við innrás Rússa í Úkraínu hefur stjórn KSÍ jafnframt ákveðið að ekki komi til greina að íslensk knattspyrnulandslið leiki við Hvít-rússnesk lið á Hvít-rússneskri grundu á meðan á hernaðinum stendur. Sú ákvörðun nær m.a. til þeirra leikja sem eru framundan í undankeppni HM 2023 (A landslið kvenna).
KSÍ fylgist grannt með þróun mála, er í reglulegu sambandi við UEFA og utanríkisráðuneyti Íslands, og mun endurskoða afstöðu sína ef ástæða er til.
Íslensk knattspyrna stendur með Úkraínu og hvetur Rússa til að hætta árásum og draga herlið sitt til baka tafarlaust.