Anton og Viktoría Garbar, ung rússnesk hjón sem sóttu um alþjóðlega vernd hér á landi í kjölfar þess að hafa flúið Rússland fyrr á árinu af ótta við pólitískar ofsóknir, voru flutt til Mílanó á Ítalíu í gær, með millilendingu í Kaupmannahöfn, í fylgd fjögurra íslenskra lögregluþjóna.
Þetta sagði Anton í skilaboðum til Kjarnans í nótt, úr varðhaldsherbergi sem þau hjón deildu á flugvellinum í Mílanó. Hann segir að þau hafi flogið til Kaupmannahafnar kl. 5 í gærmorgun og setið svo í 4-5 tíma á Kastrup-flugvelli í litlu herbergi með dregið fyrir dyr og glugga. Lögreglan hafi komið vel fram við þau, fært þeim samlokur og kaffi.
Er þau lentu á Ítalíu, segir Anton að ítalskir lögregluþjónar hafi virst undrandi á því að sjá þau. Þeir hafi spurt íslenska starfsbræður sína af hverju þeir væru að koma með rússnesku hjónin til Ítalíu, og að eftir smá þögn hafi íslenska lögreglan svarað að það væri á grundvelli Dyflinnar-reglugerðarinnar. Í kjölfarið hafi ítalska lögreglan spurt hvort þau væru búin að sækja um alþjóðlega vernd á Ítalíu, sem þau hafa ekki gert.
„Eftir þetta sögðu lögregluþjónarnir fjórir bless við okkur og fóru á hótel. Þeir fljúga aftur heim [í dag],“ segir Anton í skilaboðum til Kjarnans.
Í kjölfarið segir Anton að ítalska lögreglan hafi fært þau inn á gang á flugvellinum, og að tveir lögregluþjónar sem ekki hafi talað neina ensku hafi gert tilraun til að taka af þeim símana. „Eftir að við spurðum hvort við værum handtekin voru okkur færðir símarnir aftur og við flutt í herbergi þar sem við erum bara tvö,“ segir Anton.
Anton segir jafnframt að skömmu eftir miðnætti hafi lögreglumaður þotið inn í herbergið til þeirra, er hann og Viktoría voru við það að festa svefn. Hann spurði af hverju Anton hefði verið að nota símann sinn, og telur Anton að hann hafi séð hann nota símann á myndavélum sem eru í herberginu. Anton segist hafa svarað því til að hann hefði notað símann, þar sem þetta væri hans sími.
Í kjölfarið segir hann að lögreglumaðurinn hafi yfirgefið herbergið án þess að loka hurðinni og hávær samtöl lögregluþjóna hafi haldið fyrir þeim vöku. Anton sagði við Kjarnann, í skilaboðum sem hann sendi í nótt, að þeim hefði verið sagt að skráningarskrifstofa lögreglu vegna Dyflinnar-endursendinga opnaði kl. 10.
Íslensk vinkona hjónanna, sem hefur verið í sambandi við þau í morgun, segir í færslu á Facebook að Anton og Viktoría hafi verið færð á lögreglustöð í miðborg Mílan þar sem þeim verði haldið í tvo daga á meðan þau sæki um alþjóðlega vernd á Ítalíu. Þeim verði úthlutaður túlkur.
Anton og Viktoría höfðu verið á Íslandi frá því í byrjun apríl. Sökum þess að þau fóru fyrst til Ítalíu, á leiðinni hingað, hafa íslensk yfirvöld þó synjað þeim um alþjóðlega vernd á Íslandi, bæði Útlendingastofnun og síðar kærunefnd útlendingamála.
Í grein sem Anton fékk birta í Kjarnanum á þriðjudag sagði hann að þau hjónin teldu mál þeirra hryggileg mistök íslenska útlendingamálakerfisins.