Ekkert fyrirtæki eða stofnun hérlendis hefur leitað til Jafnréttisstofu með hugmyndir um að segja upp öllu starfsfólki og endurráða á ný til þess að leggja grunn að því að ná jafnlaunavottun á vinnustaðnum.
Jafnréttisstofa myndi ekki mæla með slíkum aðgerðum og telur þær vart réttlætanlegar, segir Katrín Björg Ríkarðsdóttir framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu í skriflegu svari til Kjarnans.
Kjarninn beindi þremur spurningum til Jafnréttisstofu vegna yfirvofandi uppsagna hjá Eflingu, sem hafa samkvæmt því sem fram hefur komið í fjölmiðlum og eftir heimildum Kjarnans, auk annars verið settar í samhengi við vinnu stéttarfélagsins í því skyni að öðlast jafnlaunavottun.
Nei, nei, nei
Spurningarnar þrjár, sem Katrín Björg svaraði, lutu að því hvort eitthvað fyrirtæki eða stofnun hefði gripið til viðlíka aðgerða og þeirra sem boðaðar hafa verið hjá Eflingu til þess að færast nær því að uppfylla jafnlaunastaðalinn, hvort eitthvað fyrirtæki hefði leitað til Jafnréttisstofu með slíkar hugmyndir og hvort Jafnréttisstofa myndi sjálf mæla með uppsögnum og endurráðningum sem tóli sem nýta mætti við innleiðingu jafnlaunastaðalsins.
„Nei, nei, nei,“ var skriflegt svar Katrínar Bjargar til Kjarnans við spurningunum þremur, en stofnunin sem hún stýrir hefur meðal annars það lögbundna hlutverk sjá um fræðslu og upplýsingastarfsemi á sviði jafnréttismála, veita ráðgjöf og aðstoð á sviði jafnréttismála og vinna gegn launamisrétti og annarri mismunun á vinnumarkaði, með sérstakri áherslu á að vinna gegn launamisrétti á grundvelli kyns.
Spurningin aldrei komið upp
Katrín Björg segir að Efling verði „að rökstyðja hvað það er við jafnlaunavottun sem veldur því að segja þurfi upp öllum ráðningarsamningum“ og bætir því við að frá því að jafnlaunavottun hófst hafi „þessi spurning aldrei komið upp“.
Hún segir að Jafnréttisstofa telji auk þess „vandséð að það að öðlast vottun á að launakerfi uppfylli kröfur jafnlaunastaðalsins réttlæti aðgerðir af þessu tagi.“
Jafnlaunavottun einn þáttur sem nefndur hefur verið
Stjórn Eflingar samþykkti í gær tillögu um hópuppsögn vegna breytinga á ráðningarkjörum allra starfsmanna skrifstofu félagsins. Samkvæmt upplýsingum Kjarnans miðaði tillagan að því að taka á ósamræmi og úreltum venjum í starfskjörum og leggja grunn að jafnlaunavottun, sem áður segir.
Einnig verða gerðar breytingar á mönnun, verkaskiptingu og hæfniskröfum starfsmanna. Öllum launuðum starfsmönnum félagsins verður sagt upp í þessum aðgerðum en þeir eru um 45 til 50 talsins, eftir því hvernig störfin eru skilgreind.
Allir starfsmennirnir verða beðnir að vinna uppsagnarfrestinn og allir núverandi starfsmenn verða hvattir til að sækja aftur um störfin. Samkvæmt heimildum Kjarnans eru engar undantekningar á þessum fyrirmælum þannig að starfsmannahópinn verði ekki dreginn í dilka. Til stendur að öll störfin verði auglýst.