Viktor Janúkóvíts, fyrrverandi forseti Úkraínu, er ekki lengur eftirlýstur af alþjóðalögreglunni Interpol. Ákæran á hendur honum var ógilduð eftir að Interpol fór yfir gögn lögmaður Janúkóvíts lagði fram.
Janúkóvíts var fyrst settur á lista Interpol 12. janúar í ár eftir að ný stjórnvöld í Úkraínu höfuð farið fram á að það yrði gert fyrir að hafa notað almannafé til einkanota, auðgunarbrot og spillingu í embætti forseta. Janúkóvíts var hrakinn frá völdum í Úkraínu í mótmælunum í febrúar 2014. Hann flúði þá til Rússlands og talið er að hann haldi sig þar enn.
Að sögn talsmanns Interpol lagði Joseph Hage Aaronson, lögmaður Janúkóvíts, til gögn sem skylda lögreglusamtökin til að rannsaka mál Janúkóvíts mun betur. Í kjölfarið hefur forsetinn fyrrverandi, eini eftirlifandi sonur hans Oleksandr og fyrrverandi forsætisráðherra landsins Mykola Azarov, verið teknir af lista eftirlýstra einstaklinga. Jafnframt geta stjórnvöld aðildarlanda Interpol ekki nálgast gögn samtakanna um þessa einstaklinga.
Hinn sonur Janúkóvíts, Viktor, drukknaði þegar fjölskyldubíll hans fór niður um ís á Baíkalvatni í Síberíu í mars.
Ekki er lengur hægt að skoða upplýsingar um Janúkóvíts á vef Interpol.
Eins og Kjarninn greindi frá í janúar þá hafði Interpol dregið það að setja Janúkóvíts á lista eftirlýstra manna vegna þess að samkvæmt reglum lögreglusamtakanna var málið rekið af pólitískum ástæðum.
Ólíklegt þykir að Janúkóvíts verði handtekinn í Rússlandi fyrir nokkrar sakir en heima í Úkraínu hefur almenningur lagt mikla áherslu á að forsetinn fyrrverandi verði sóttur til saka fyrir morð á mótmælendum á Frelsistorginu í Kænugarði síðasta vetur.
Dómur yfir fyrrverandi ráðamönnum í Úkraínu er jafnframt talinn mikill prófsteinn fyrir nýja ríkisstjórn landsins og forsetann Petró Porosjenkó.