Varnarmálaráðuneyti Japans hefur óskað eftir auknum fjármunum til varnarmála á næsta ári til að geta elft her sinn gagnvart Kína. Kínverjar hafa undanfarið sótt í sig veðrið í Asíu og gert aukið tilkall til umdeildra landsvæða og eyja með útþenslu herja sinna.
Þess vegna hefur ráðuneytið óskað eftir því að fá 5,09 trilljónir jena, eða um það bil 5,5 trilljónir íslenskra króna í fjárheimildir á næsta fjárlögum sem taka gildi í apríl 2016. Kínverjar hafa undanfarin ár notað landfyllingar til að búa til eyjur á umdeildum svæðum í Suður Kínahafi og byggt á þeim herstöðvar. Þá hafa Kínverjar jafnframt ásælst Senkaku-eyjaklasann sem lýtur stjórn Japana.
Í morgun fluttu ástralskir fjölmiðlar fréttir af því að Kínverjar væru nú tilbúnir að beita herafli frá þessum manngerðu eyjum; herstöðvar séu tilbúnar og að það sé lítið sem bandalag Bandaríkjamanna, Ástrala og annara ríkja í Suður Kínahafi geti gert til að koma í veg fyrir ólöglegar aðgerðir Kínverja.
Þá er haft eftir hernarðarsérfræðingum að árið 2017 verði þessar herstöðvar búnar höfnum, skálum, brjóstvirkjum, fallbyssum, flugvöllum og langdrægum ratsjárkerfum sem geri Kínverjum kleift að beita herafli víða á þessu umdeilda svæði. Þannig gætu þeir haft áhrif á flutningaleiðir og bannað öðrum ríkjum sem gera tilkall til svæðisins að koma þar.
Þrír fimmtu hlutar allra flutninga til og frá Ástralíu fara til dæmis um svæðið. „Þetta er gríðarlega stór taktískur sigur Kínverja,“ hefur The Sydney Morning Herald eftir opinberum starfsmanni í Ástralíu.
Japan hefur jafnt og þétt aukið útgjöld til hernaðarmála síðustu fjögur ár, að þeirra sögn til að mæta herafli Kínverja. Tíu árum áður hafði Japan dregið verulega úr útgjöldum til varnarmála en áhyggjur af stækkun kínverska flotans hafa snúið þeirri þróun við. Þessi þróun mála er einnig í takti við stefnumótun Shinzo Abe, forsætisráðherra Japan, sem vill mæta kínverskum áhrifum og auka mátt japanska hersins.
Hernaðaráherslum Abe hefur verið mótmælt í Japan en hann hefur ítrekað farið þess á leit að stjórnarskrárákvæðum verði breytt svo japanska hernum verði gert kleift að berjast á erlendri grundu, í fyrsta sinn síðan í Seinni heimstyrjöldinni.
Á leiðtogafundið ASEAN-ríkjanna í Suð-Austur Asíu í sumar reyndu Kínverjar að slá á áhyggjur nágrannaþjóða sinna með því að segjast vera hættir allri eyjamyndun með uppfyllingum á skerjum. Aðrar þjóðir tóku fálega í þær yfirlýsingar og bentu á hernaðaruppbyggingu á þessum eyjum sem væru varla til að skapa frið um svæðið.