„Nei, við könnumst ekki við svona,“ segir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra, spurður um ábendingu sem barst Kjarnanum um að fólk sem greindist jákvætt fyrir kórónuveirunni á heimaprófum færi ekki í PCR-próf til að komast hjá því að smitið væri skráð og það yrði að fylgja þeim reglum sem gilda um einangrun.
„Það ætti enginn að treysta heimaprófum sem staðfestingu,“ segir Víðir og bætir við að PCR-próf sé eina viðurkennda aðferðin til þess.
Er fólk hefur greinst jákvætt fyrir veirunni á PCR-prófi, þar sem strok er bæði tekið úr nefi og munni, eru upplýsingar um það færðar í gagnagrunn sem svo m.a. er nýttur til birtingar gagna á COVID.is, upplýsingasíðu um stöðu faraldursins. Sá sem er með staðfesta COVID-19 sýkingu þarf svo að fara í einangrun og getur átt von á símtali frá heilbrigðisstarfsfólki COVID-göngudeildarinnar. Einangrun stendur almennt í sjö daga eftir að jákvæð niðurstaða fæst á PCR-prófi – ekki sjö daga frá því að hin jákvæða niðurstaða á heimaprófi fæst.
Samkvæmt nýjum reglum um einangrun getur fólk sem lokið hefur sjö daga einangrun eftir staðfest smit útskrifað sig sjálft að því tilskildu að þeir finni ekki fyrir sjúkdómseinkennum.
9.815 eru í einangrun á landinu í dag og eru það allt einstaklingar sem fengið hafa staðfesta jákvæða niðurstöðu á PCR-prófi. 1.101 greindist með veiruna innanlands í gær.