Þann 27. desember er áætlað að halda hátíðarstyrktarsýningu á VIVID, nýju dansverki eftir Unni Elísabetu Gunnarsdóttur, til þess að safna fyrir launum listafólksins sem tekur þátt í verkinu sem svo fer á sviðið í Þjóðleikhúsinu. Þessi sýning verður eingöngu haldin fyrir þá sem styrkja verkefnið á Karolina Fund.
Óhætt er að lofa veislu fyrir augu og eyru. Bóheminn Frímann Gunnarsson leggur sitt lóð á vogaskálarnar með því að bjóðast til að ganga nakinn með auglýsingaskilti eitt sér til hlífðar. Auk þess sem Frímann verður gestgjafi og flytur skemmtidagskrá fyrir sýninguna.
Nú er rétti tímapunkturinn
Unnur Elísabet, getur þú sagt okkur frá VIVID. Hvers vegna ákvaðstu að búa það til og hvert er þemað?
„VIVID er samstarfsverkefni listamanna, ég sem dansinn, Viktor Orri Árnadon (úr Hjaltalín) semur tónlistina og rúmenska listakonan Raluca Grada hannar búninga og leikmynd. Svo taka fimm atvinnudansarar þátt í sýningunni. Þemað í VIVID er að þora að brjótast út úr kassanum, að brjóta rammann sem maður getur verið fastur í. Að þora að taka áhættur, að þora að lifa! Mig hefur lengi langað til að framkvæma þessa hugmynd og gera þetta verk. Nú var rétti tímapunkturinn, þá var bara látið vaða. Þjóðleikhúsið var svo gott að leyfa okkur að sýna í Kassanum, en við þurftum að fjármagna laun listafólksins, þess vegna leituðum við til Karolina Fund."
https://vimeo.com/113934252
Er nekt hin nýja söfnunarleið
Frímann Gunnarsson ætlar að ganga nakinn niður Skólavörðustíginn, einungis hulinn auglýsingaspjöldum frá fyrirtæki sem borgar 500 þúsund í söfnunina. Er þetta kannski hin nýja leið listamanna til þess að fá fyrirtæki til að koma með fjármagn inn í listræn verkefni?
„Já, það er spurning. Að minnsta kosti var nógu erfitt að fá styrki og fjármagn í framleiðsluna, en um leið og þessi hugmynd kom upp þá fengum við athygli og það eru þreifingar með að þetta verði að veruleika, þannig að það er varla hægt að svara þessari spurningu neitandi. Þó að við séum ekki endilega að mælast til þess að allir fari þessa leið. Frímann myndi orða það þannig að þetta sé táknrænt fyrir stöðu listamannsins, hann er nakinn og berskjaldaður og má sín lítils gagnvart markaðsöflunum. Hann ætlar líklegast þó að vera í skóm og sokkum og samkvæmt mínum heimildum er hann byrjaður að hita upp sokkana."
Hvað er á döfinni næst hjá þér? Hvað mun verkefnið taka stóran part af lífi þínu og hvar getur fólk séð það?
„Það er nú það, það er ekkert ákveðið með framhaldið eftir VIVID, svoleiðis er stundum starf freelance listamannsins, maður flýtur niður ána og sér hvað lífið færir manni næst. Við erum að æfa VIVID núna á fullu fram að frumsýningu, þannig að jólahaldið verður meira og minna í Kassanum í Þjóðleikhúsinu í þetta sinn. En í anda verksins náum við mögulega að brjótast útúr Kassanum eftir áramót. Það sem tekur við kemur þá í ljós, við erum spennt að komast að því hvað það verður. Vonanid mun ég takast á við fleiri svona skemmtileg og krefjandi verkefni í framtíðinni!"
Nánari upplýsingar og leið til þess að styrkja verkefnið má nálgast hér.