Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra telur að framganga Samherja sé algerlega óboðleg, óeðlileg og eigi ekki að líðast í lýðræðissamfélagi. Þetta kom fram í máli hennar í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag en Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, spurði hana meðal annars hvort hún teldi að lýðræðinu stafaði ógn af vinnubrögðum Samherja.
Logi hóf mál sitt á því að vekja athygli á fréttaflutningi Kjarnans og Stundarinnar um svokallaða „skæruliðadeild“ Samherja sem væri „til í að beita alls kyns meðulum til að koma höggi á fólk sem þau telja andstæðinga sína“.
„Hópurinn ræðir meðal annars sín á milli að beita sér í kosningum í stéttarfélagi, veltir því sama fyrir sér varðandi prófkjör einstakra stjórnmálaflokka, kortleggur ummæli blaðamanna, listamanna, embættis- og stjórnmálamanna og beitir sér gegn þeim. Ég geri ráð fyrir því að forsætisráðherra hafi fylgst með þessu og fyllst óhug eins og margir landsmenn. Við skulum hafa það á hreinu að hér er ekki um að ræða einangrað tilvik endilega heldur fyrirbæri sem er nýtt og aðferð sem er nýtt víðar í grófri sérhagsmunagæslu,“ sagði þingmaðurinn.
Telur hann að bregðast verði við þróun sem skekkir atvinnulífið, bjagar umræðuna, veikir stjórnmálin og grefur undan lýðræðinu. „Við þurfum að bregðast við áður en það verður of seint. Það verður hins vegar ekki gert með því að veikja Samkeppniseftirlitið, leggja niður skattrannsóknarstjóra eða draga kerfisbundið tennurnar úr eftirlitsstofnunum. Það verður gert með því að styrkja þær. Það verður gert með vandaðri lagasetningu og það verður gert með nýrri stjórnarskrá sem tryggir rétt fjöldans.“
Spurði hann Katrínu hvort hún teldi að lýðræðinu stafaði ógn af vinnubrögðum af þessu tagi. „Telur hún að þau geti veikt eftirlitsstofnanir og fjölmiðla og leitt til þess að sérhagsmunir verði settir ofar almannahagsmunum? Og síðast en ekki síst: Er hún tilbúin að styðja breytingar á auðlindaákvæði sínu í ljósi þessara frétta þannig að tímabinding allrar nýtingarsamninga verði áskilin?“
Finnst eðlilegt að þingið taki umræðu um auðlindaákvæði „á réttum vettvangi sem er í nefndinni“
Katrín svaraði og þakkaði Loga fyrir að vekja máls á þessari framgöngu Samherja. „Ég held að við háttvirtur þingmaður séum algjörlega sammála um að þessi framganga er auðvitað algerlega óboðleg, óeðlileg og á ekki að líðast í lýðræðissamfélagi. Þannig er það. Við þurfum að átta okkur á því að aðilar sem eru í forystu fyrir jafn stórt fyrirtæki og þarna er um að ræða bera ábyrgð gagnvart samfélagi sínu og þetta er ekki að bera ábyrgð gagnvart samfélaginu. Svona gera menn einfaldlega ekki.“
Spurði hún í framhaldinu hvað væri hægt að gera og hvað hefði verið gert. „Ég held að þegar við lesum um atburðarás eins og þá sem við höfum verið að lesa hvað varðar tilraunir til að hafa áhrif á kjör í Blaðamannafélagi Íslands þá sé full ástæða til þess að skoða stöðu þeirrar stéttar í fjölmiðlalögum. Ég minni á það að þegar fjölmiðlalögin voru samþykkt á sínum tíma, 2011, var gert ráð fyrir heildarendurskoðun þeirra innan tiltekins tíma og þar voru gerðar ákveðnar breytingar hvað varðar réttarstöðu blaðamanna. En hlutirnir breytast hratt.
Annað atriði sem ég hef nefnt eru skoðanaauglýsingar, sem eru þá ekki auglýsingar stjórnmálaflokka því að um flokkana gilda aðrar reglur heldur auglýsingar þar sem margháttaðir hagsmunaaðilar nýta þann miðil til að koma viðhorfum á framfæri. Það er því mjög margt sem ber að skoða en ég held að við megum heldur ekki gleyma því hvað við höfum verið að gera því að við höfum verið að stíga mjög mikilvæg skref; lög um vernd uppljóstrara, lög um varnir gegn hagsmunaárekstrum, ný upplýsingalög. Allar miða þessar breytingar að því að efla gagnsæi og gagnsæi er undirstaða þess að við séum með öflugt lýðræðissamfélag,“ sagði hún.
Hvað varðar auðlindaákvæði í stjórnarskrá þá sagði Katrín að það mál væri núna til meðferðar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. „Ég hef litið svo á að orðalag þessa ákvæðis sé skýrt, þ.e. að heimildirnar verði ekki afhentar með varanlegum hætti sem merkir þá að þær eru tímabundnar eða uppsegjanlegar. En mér finnst bara eðlilegt að þingið núna taki þá umræðu á réttum vettvangi sem er í nefndinni.“
Spurði hvort ráðherra hefði meiri áhyggjur af ægivaldi evrópskra knattspyrnuliða en ofurrisa í sjávarútvegi
Logi steig aftur í pontu og sagðist hafa kosið að ráðherra svaraði skýrar, hvort hún væri tilbúin til að fallast á tímabundnar heimildir skilyrðislaust.
„Fyrr í vetur voru hugmyndir evrópskra stórliða í knattspyrnu um 15 liða ofurkeppni þar sem liðin þurftu ekki að óttast að falla úr keppni en nutu alls peningaávinningsins. Einn af þeim sem steig fram og gagnrýndi svona fyrirkomulag var einmitt hæstvirtur forsætisráðherra, en sami forsætisráðherra vill núna festa í sessi einhvers konar ofurdeild nokkurra sjávarútvegsrisa með því að leggja fram auðlindaákvæði í stjórnarskrá sem gerir ekki ráð fyrir tímabundnum nýtingarsamningum. Hefur ráðherra meiri áhyggjur af ægivaldi nokkurra evrópskra knattspyrnuliða en þessara ofurrisa í sjávarútvegi? Eða vill hún styðja breytingar sem miða að því að áskilja tíma bindingar í stjórnarskrá?“ spurði þingmaðurinn.
Mikilvægt að ræða þetta með málefnalegum hætti
Katrín kom í pontu í annað sinn og sagði að henni fyndist þingmaðurinn falla í sömu gryfju og sá aðili „sem nú rekur miklar skoðanaauglýsingar gegn þessu frumvarpi og heldur þar því fram að ég vilji afhenda stórútgerðinni nýtingarheimildir varanlega“.
Hún sagði að Logi vissi vel að það væri ekki það sem stæði í því ákvæði sem væri til umfjöllunar, heldur væri einmitt verið að undirstrika að þessar heimildir yrðu ekki afhentar með varanlegum hætti.
„Það þýðir að þær eru annaðhvort tímabundnar eða uppsegjanlegar. Á það sama að gilda um allar nýtingarheimildir óháð gerð auðlindar? Það er kannski stóra spurningin sem við stöndum frammi fyrir þegar um er að ræða til að mynda landgæði sem yfirleitt eru afhent til einnar aldar í senn en þó ekki varanlega. Þetta er það sem við höfum auðvitað rætt mikið.“
Fram kom í máli Katrínar að henni fyndist mikilvægt að hægt væri að ræða þetta með málefnalegum hætti og ekki leggjast í það að halda því fram að hún væri að ganga erinda stórfyrirtækis í sjávarútvegi. „Því að það er ekki sanngjarnt og ekki rétt og ekki satt, þó að einhverjir aðilar kjósi að birta slíkt í skoðanaauglýsingum. Ég minni á að Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi leggjast auðvitað alfarið gegn frumvarpinu og væntanlega er einhver ástæða fyrir því.“