Frá því að kaupmáttur launa á Íslandi náði hámarki í janúar síðastliðnum hefur hann rýrnað um 4,2 prósent. Frá þessu er greint í nýrri Hagsjá Landsbanka Íslands. Alls hefur kaupmáttur launa rýrnað um 1,6 prósent á síðustu tólf mánuðum og hann hefur ekki verið minni síðan í desember 2020.
Í Hagsjánni segir að laun þeirra sem starfa við rekstur gisti- og veitingastaða hafi hækkað langmest undanfarið ár, eða um 13 prósent. Þar á eftir koma þeir sem starfa í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð eða veitustarfsemi, en laun þeirra hafa hækkað um átta prósent. Heilt yfir hefur launavísitalan hækkað um átta prósent á síðustu tólf mánuðum, en þar sem verðbólga hefur mælst 9,7 prósent á sama tímabili hefur kaupmáttur launa rýrnað um áðurnefnt hlutfall á tímabilinu.
Vert er að taka fram að kaupmáttur launa jókst samfleytt í tólf ár á Íslandi. Þeirri samfelldu aukningu lauk í júní á þessu ári, þegar horft er til breytinga á milli ára.
Telur heppilegra að meta þróunina yfir lengri tíma
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, skrifaði grein sem birtist á Kjarnanum á föstudag um samdrátt í kaupmætti launa. Þar sagði hann að óvarlegt væri að draga þá ályktun að um óheillaþróun væri að ræða.
Færa mætti sterk rök fyrir því að heppilegast og sanngjarnast sé að meta kaupmáttarþróun yfir lengri tíma, t.d. út frá gildistíma lífskjarasamnings. Þegar málið sé skoðað í því samhengi komi í ljós að kaupmáttur launa hafi aukist um sjö prósent frá gildistöku lífskjarasamningsins í apríl 2019 þrátt fyrir að efnahagsumsvif hafi dregist saman á tímabilinu vegna heimsfaraldurs.
Í tölum Hagstofunnar kom einnig fram að heildargjöld heimila hafi aukist um tæplega tíu prósent á öðrum ársfjórðungi.
Kaupmáttur ráðstöfunartekna jókst heilt yfir umtalsvert á árinu 2021, eða um 5,4 prósent samanborið við árið 2020. Langmesta aukningin var frá miðju síðasta ári og náði hún vel inn á þetta ár, en 7,2 prósent kaupmáttaraukning var á fyrsta ársfjórðungi 2022.
Halldór Benjamín benti á það í sinni grein að kaupmáttur allra tekjutíunda hefði aukist á síðasta ári og það hefði líka átt við um þróunina 2018-2021, ef lægsta tekjutíundin er undanskilin. Frá 2016 hefði kaupmáttur ráðstöfunartekna aukist um 20 prósent og á síðastliðnum áratug um 39 prósent að meðaltali.
Miklar fjármagnstekjur lituðu kaupmáttaraukningu
Helsta ástæða þess að ráðstöfunartekjur jukust svona mikið á síðasta ári er að fjármagnstekjur náðu methæðum. Alls höfðu einstaklingar 181 milljarða króna í slíkar tekjur á árinu 2021, sem var 65 milljörðum krónum meira en allar fjármagnstekjur einstaklingar voru árið áður. Þær hækkuðu því um 57 prósent milli ára, mest vegna söluhagnaðar hlutabréfa sem var 69,5 milljarðar króna á árinu 2021.
Kjarninn greindi frá því í júlí að í greiningu á álagningu opinberra gjalda einstaklinga eftir tekjutíundum sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti á ríkisstjórnarfundi 22. júní síðastliðinn, hafi komið fram að þau tíu prósent landsmanna sem höfðu mestar fjármagnstekjur á síðasta ári hafi tekið til sín 81 prósent allra fjármagnstekna einstaklinga á árinu 2021.
Því er ljóst að stærstur hluti þeirra kaupmáttaraukningar sem varð í fyrra lenti hjá tekjuhæstu tíu prósentum landsmanna.
Greiðslubyrði lána hækkað skarpt
Frá því að hin skarpa kaupmáttaraukning hófst um mitt ár í fyrra hefur margt breyst. Þar ber helst að nefna að verðbólga hefur stóraukist, með tilheyrandi verðhækkunum.
Til að takast á við hana hefur Seðlabanki Íslands hækkað stýrivexti úr 0,75 prósent í maí í fyrra í 5,5 prósent nú. Það hefur gert það að verkum að greiðslubyrði íbúðalána fjölmargra hefur stökkbreyst.
Á heimasíðu Alþýðusambands Íslands (ASÍ) var nýverið tekið dæmi af breytilegu óverðtryggðu láni upp á 43,2 milljónir króna sem tekið var í fyrravor til að kaupa 90 fermetra íbúð í Kópavogi.
Greiðslubyrði þess láns hefur hækkað um 102 þúsund krónur á mánuði og er nú 266 þúsund krónur. Á ársgrundvelli nemur aukin greiðslubyrði lánsins rúmlega 1,2 milljónum króna.