Eftir að hlutabréfamarkaðir í Kína hrundu í gær skikkuðu stjórnvöld þar í landi skráð fyrirtæki, fyrirtæki í ríkiseigu og starfsmenn þeirra að kaupa hlutabréf. Markaðir þar í landi eru nú aftur komnir í jafnvægi. Þegar markaðir lokuðu í Kína í dag voru helstu vísitölur jákvæðar um þrjú til sex prósent.
Fjölmörg skráð fyrirtæki voru þó ekki í viðskiptum á markaði í dag en talið er að flestir hafi dregið viðskipti sín til baka til þess að koma í veg fyrir verðfall bréfa sinna. Quartz greinir frá þessu.
Stjórnvöld í Kína hafa undanfarna daga ráðist í aðgerðir til að glæða hlutabréfamarkaði þar sem verð hlutabréfa hefur fallið um 30 prósent á síðustu þremur vikum. Í byrjun júní hafði hlutabréfaverð hækkað um 150 prósent á einu ári og hafði aldrei verið jafn hátt í sjö ár. Þar af nemur lækkunin 12 prósentum á síðustu viku. Verðlækkun upp á þrjátíu prósent jafngildir öllu framleiðsluvirði Bretlands á síðasta ári.
Kjarninn fjallaði um hlutabréfakrísuna í Kína þegar verðfallið varð í gær. Þá var því velt upp að sumir telja krísuna vera jafnvel alvarlegri en gríska efnahagskrísan vegna þess hversu stór hlutabréfamarkaðurinn í Kína er.
Yfirmaður í skráðu kínversku fyrirtæki lét hafa eftir sér að fyrirtæki hans hafi fengið „beina skipun“ frá Verðbréfaeftirliti Kína um að framfylgja fimm skrefum. Þau voru að láta stóra hluthafa fyrirtækisins kaupa fleiri bréf, kaupa eigin bréf, láta yfirmenn og millistjórnendur kaupa hlutabréf, innleiða kauphvata fyrir starfsmenn og kynna leiðir fyrir starfsmenn til að eignast hlutabréf.