Kínverska hagkerfið sýndi hagvöxt upp á tæplega sjö prósent á þriðja ársfjórðungi, sem er umtalsvert minna en vonir stóðu til um. Þetta er í fyrsta skipti síðan árið 2009, þegar fjármálakreppan á heimsmörkuðum hafði afgerandi áhrif á gang mála, sem hagvöxtur fer niður fyrir sjö prósent á þriðja ársfjórðungi í Kína, segir á vef Wall Street Journal.
Þessar nýjustu upplýsingar um stöðu mála í Kína eru taldar vera vísbending um að gangur efnahagsmála í heiminum sé viðkvæmur og geti farið versnandi á næstunni.
Hagvöxturinn mældist um 6,8 prósent, en markmið stjórnvalda er að halda hagvextinum í kringum sjö prósent. Vegna þess hve stærðirnar eru miklar í þessu fjölmennasta ríki heimsins, með 1,4 milljarða íbúa, þá telst það mikið frávik ef hagvöxtur er 0,2 prósentustigum minni en ráð var fyrir gert.
Efasemdir hafa hins vegar verið uppi um það í Bandaríkjunum sérstaklega, að greiningar og mælingar stjórnvalda í Kína, séu nægilega nákvæmar.
Hagvöxtur mældist um sjö prósent í Kína á fyrri helmingi ársins, samkvæmt opinberum hagtölum stjórnvalda. Skoðanakönnun á meðal 64 hagfræðinga sem gegna ábyrgðarstöðum í Bandaríkjunum sýndi að 96 prósent aðspurðra voru á því að þetta væru ekki réttar tölur. Hagvöxturinn væri mun minni, og munaði líklega á bilinu eins til tveggja prósentustiga. Þegar Kína er annars vegar þá er hvert prósentustig í hagvexti gríðarlega mikil hagstærð, svo það er óhætt að segja að þessi hagfræðingar treysti ekki stjórnvöldum í Kína.
What do U.S. economists think of official China statistics? http://t.co/nXPso01Opm by @jeffsparshott pic.twitter.com/061fXwAJ3B
— Wall Street Journal (@WSJ) September 11, 2015
Nýjustu opinberu hagtölur í Kína, sem hafa ekki verið véfengdar með jafn afgerandi hætti og hagvaxtartölurnar, sýna augljósa breytingu í kínverska hagkerfinu, en útflutningur hefur dregist 5,5 prósent á þessu ári miðað við árið á undan, og innflutningur um fjórtán prósent.