„Afleiðingar stóriðjustefnunnar, sem ríkið er fyrst og fremst upphafsaðili á, hafa kostað okkur á síðustu árum, því miður,“ sagði Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar, á fundi umhverfis- og samgöngunefndar þingsins í morgun. Andrés Ingi Jónsson þingmaður Pírata óskaði eftir fundinum þar sem málefni kísilversins í Helguvík voru rædd.
Andrés Ingi sagði í upphafi fundar að kísilverið í Helguvík væru dreggjarnar af stóriðjustefnunni sem rekin var af stjórnvöldum á árum áður, „eða kannski er frekar hægt að kalla þetta timburmenn sem þarf að hrista úr kerfinu“.
Einar Már Atlason, formaður íbúasamtakanna Andstæðingar stóriðju í Helguvík, sagði það íbúum enn í mjög fersku minni hvernig rekstur kísilversins var á sínum tíma. United Silicon rak verksmiðjuna í innan við ár eða þar til Umhverfisstofnun stöðvaði starfsemina. „Við erum með ótal sögur frá fólki, meðal annars börnum, sem fundu fyrir áhrifum mengunarinnar,“ sagði Einar Már. „Þannig að mér finnst að núna séum við að ferðast aftur í tímann með þeirri vegferð sem allt í einu er komin af stað aftur.“
Á sama tíma og umræða um að minnka losun gróðurhúsalofttegunda hafi aldrei verið háværari og á stefnuskrá stjórnvalda sé „verið að tala um það að bæta við einhverju skrímsli sem eigi að brenna um 500 þúsund tonnum af kolum og viðarkurli á ári“.
Arion banki var stærsti fjármögnunaraðili United Silicon og eignaðist verksmiðjuna er félagið varð gjaldþrota árið 2018. Um eignina var stofnað dótturfélagið Stakksberg og stendur vilji bankans til þess að selja hana og hefur viljayfirlýsing um möguleg kaup verið undirrituð við eigendur kísilversins á Bakka. Að endurræsa kísilverið yrði þó þvert á vilja bæði bæjaryfirvalda í Reykjanesbæ og íbúa sveitarfélagsins sem að sögn Andrésar Inga upplifa sig „valdlítil“ andspænis áformunum.
Einar Már sagði Arion banka stæra sig af grænni stefnu en að hann geti ekki „fríað sig ábyrgð á því að hann er að troða mengandi stóriðju ofan í kokið á okkur íbúum á Suðurnesjum“.
Saga mistaka og brotinna loforða
Friðjón formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar sagði að þrjátíu ára saga stóriðju í Helguvík væri „stór saga mistaka og brotinna loforða“. Afleiðingarnar væru m.a. þær að Reykjanesbær hefði tapað 10 milljörðum króna. Í fyrstu var áformað að reisa stálgrindaverksmiðju, þá nokkru síðar álver og svo tvö kísilver á síðustu árum. Eina verksmiðjan sem var ræst var kísilver United Silicon og reynslan af rekstri þess var skelfileg.
„Okkur finnst tími til kominn að henda þessari stefnu og byrja að hugsa upp á nýtt. [...] Núna eru allir ellefu bæjarfulltrúar Reykjanesbæjar sammála um að þessi verksmiðja fari ekki aftur í gang. Við höfum komið þeirri skoðun á framfæri við Arion banka, óskað eftir samstarfi um atvinnumál og atvinnuþróun í Helguvík en á öðrum forsendum en með kísilveri. Því miður hefur það ekki gengið eftir.“
Hann telur engan möguleika á því að ná sátt um endurræsingu kísilversins í samfélaginu. „Arion banki hlýtur að sjá það.“
Þyrnum stráð upphaf kísilversins á Bakka
Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings, var einnig gestur fundarins en í sveitarfélaginu er að finna kísilver PCC á Bakka. Starfsemin hófst fyrir fjórum árum og viðurkenndi Kristján Þór að tímabilið hefði verið „dálítið þyrnum stráð“. Fyrst í stað hafi reksturinn gengið nokkuð brösuglega og „af og til“ hafi íbúar orðið varir við „reyk og lykt“ inni í bænum, þ.e. á Húsavík. „En ég hef ekki heyrt neinn lýsa neinu sambærilegu og íbúar Reykjanesbæjar upplifðu.“
Hann telur að þær stofnanir sem komu að veitingu leyfa fyrir starfsemina á Bakka hafi lært af reynslunni frá Helguvík. Starfsemin lagðist tímabundið af í miðjum faraldrinum en hófst aftur síðasta sumar og hefur gengið „glimrandi vel“ síðan og „ekkert komið upp á“. Hann sagðist fyrirfram hafa heyrt erlendis frá að það gæti tekið 2-4 ár að ná jafnvægi í rekstri kísilvera.
Vilhjálmur Árnason, formaður umhverfis- og samgöngunefndar, spurði Friðjón hvort að hann teldi að andstaða yrði áfram við áform um endurræsingu í Helguvík ef allir ferlar og kröfur væru uppfylltar en Skipulagsstofnun gaf nýverið út álit sitt á umhverfismatsskýrslu Stakksbergs. Var það m.a. niðurstaðan að hætta loftmengun yrði mun minni miðað við áformin og þær endurgætur sem ráðist yrði í.
„Í okkar huga snýst þetta um heilsufar fyrst og fremst,“ svaraði Friðjón. Andstaðan snúist ekki um stóriðju sem slíka en áhugi væri á umhverfisvænni starfsemi. „Við höfum núna reynsluna af því þegar rekstur mistekst hrapalega í nálægð við byggð sem gerði það að verkum að fólk veiktist allt í kringum okkur. Það er óumdeilt að þetta hafði virkilega áhrif á heilsufar íbúa í sveitarfélaginu. Svo má bæta við að öll þessi verkefni hafa kostað okkur fleiri milljarða, það er hin hliðin og við höfum setið upp ein með allan skaðann og samfélagið blæðir.“
Margir aðrir möguleikar
Bæjarstjórnin hafi verið í viðræðum við Arion banka um annars konar rekstur á lóðinni í Helguvík, grænni starfsemi, en niðurstaðan af þeim var engin. Hann benti svo á sem dæmi um framhaldið að ekki væri t.d. hægt að fara í matvælaiðnað á svæðinu því enginn hafi áhuga á að reka slíkt í námunda við kísilver.
„Við höfum trú á því að það séu margir aðrir möguleikar fyrir okkur að vaxa og dafna án þess að leggja peninginn okkar í eina stóra hugmynd eins og gert hefur verið dálítið mikið undanfarin þrjátíu ár,“ sagði Friðjón. Hann sagðist ekki treysta þeim stofnunum og þeim fyrirtækjum sem kæmu að endurreisn kísilversins. „Ég óska þeim til hamingju í Norðurþingi að þar hafi gengið vel. En það er ekki þannig hérna, því miður.“
Fulltrúar Arion banka mættu einnig á fund umhverfis- og samgöngunefndar og hér má lesa grein Kjarnans um afstöðu þeirra.