Nærri þriðjungur landsmanna segist ekki ná endum saman um hver mánaðarmót, eða 29,1 prósent svarenda í könnun Maskínu sem gerð var 29. maí til 15. júní. Restin, 70,9 prósent, segist ná endum saman (34,1 prósent) eða eiga afgang við mánaðarmót (36,8 prósent).
Nærri helmingur svarenda segist auk þess telja að hagur þeirra muni standa í stað á næstu misserum. 37,5 prósent svarenda er bjartsýnna á framtíðina en 13,9 prósent telur hag sinn eiga eftir að versna nokkuð. Athygli vekur að kjósendur stjórnarflokkanna eru horfa jákvæðari augum á framtíðina en kjósendur stjórnarandstöðuflokkana.
Kósendur Pírata eru samkvæmt könnuninni ólíklegri en kjósendur annarra stjórnmálaflokka til að ná endum saman en 38,8 prósent þeirra sögðust eiga í vandræðum með fjárhaginnn og ná ekki endum saman. Því er öfugt farið með kjósendur Sjálfstæðisflokksins en 55 prósent þess hóps segist eiga afgang við mánaðarmót.
Enginn marktækur munur finnst í gögnunum sé raðað eftir kyni, aldri eða búsetu. Menntun virðist hins vegar hafa nokkur áhrif en ríflega fimmtungur þeirra sem hafa aðeins grunnskólapróf segjast vera langt frá því að ná endum saman við mánaðarmót. Til samanburðar segjast aðeins sex til sjö prósent þeirra sem hafa meiri menntun vera í töluverðum vandræðum.
Í Þjóðarpúlsi Gallup í mars kom fram að meira en helmingur svarenda ætti í erfiðleikum með fjárhaginn, eða 57 prósent. Í sömu könnun sögðust 42 prósent svarenda geta safnað sparifé um hver mánaðarmót.
Við þetta má bæta að í frétt á vef Maskínu segir að því eldra sem svarendur eru því ólíklegra telur það að hagur þess muni vænkast. Þeir sem hafa meiri menntun en grunnskólapróf eru bjartsýnni en ella og þeir sem hafa meira en 800 þúsund krónur í tekjur eru jafnframt bjartsýnni á framtíðarhag sinn.
Þátttakendur í könnun Maskínu voru spurðir þriggja spurninga. Þær voru „Almennt séð, hversu hamingjusamur/söm myndir þú segja að þú værir á kvarðanum 0-10?“, „Þegar kemur að fjárhagsstöðu þinni um hver mánaðarmót, myndir þú segja að þú ættir afgang, endar næðu saman eða þú næðir ekki endum saman?“ og „Telur þú að hagur þinn muni almennt batna eða versna á næstu misserum?“.