Anna Þorsteinsdóttir formaður Hagsmunasamtaka knattspyrnukvenna segir að fyrirkomulag réttindagreiðslna frá Íslenskum Toppfótbolta, sem Kjarninn greindi frá í vikunni, sé afar óhagstætt kvennaknattspyrnu, sérstaklega smærri kvennaliðum.
Kvennalið í Bestu deildinni fengu 2,5 milljónir króna í sinn hlut í réttindagreiðslur frá Íslenskum Toppfótbolta, en karlalið í Bestu deildinni 20 milljónir króna.
Líkt og fram kom í grein Kjarnans um réttindagreiðslurnar þá hafa þau íþróttafélög sem bæði eru með lið í Bestu deild kvenna og karla val um að deila greiðslunum, sem nema samanlagt 22,5 milljónum á félag, jafnt á milli kvennaliðs og karlaliðs.
Kjarninn hefur óskað eftir upplýsingum frá knattspyrnufélögum með karla- og kvennalið í efstu deild um hvernig þau hyggist haga skiptingu réttindagreiðslna frá Íslenskum Toppfótbolta. Aðeins hafa borist svör frá Keflavík þar sem segir að „allar þær greiðslur sem berast vegna kvennaliðs Keflavíkur er ráðstafað áfram til kvennaliðs okkar.“
Erfitt að fá upplýsingar um fjármál félaga
Anna segir að það virðist ekki reynast auðvelt að fá gögn um það almennt hvernig peningar í knattspyrnu deilast milli karla og kvenna. „Þetta sést ekki í ársskýrslum, við erum búnar að fá það staðfest, þar sést aðeins munurinn á milli meistaraflokkanna og yngri flokkanna. Það er margt sem hringir viðvörunarbjöllum í fjármálum félaganna.“
Anna spilaði fótbolta með Breiðablik, ÍA, Þrótti og Selfoss ásamt því að spila í háskóla í Bandaríkjunum. Hún segir að þegar samtökin voru endurvakin hafi aðstandendur samtakanna ítrekað verið spurðar hvað þær ætluðu að gera varðandi Íslenskan Toppfótbolta og ójafnar greiðslur eftir kynjum. „Það er ákveðin óánægja sem ríkir með Íslenskan Toppfótbolta meðal íslenskra knattspyrnukvenna og þeirra sem standa að kvennaknattspyrnu,“ segir Anna.
Skilaboðin sem hún og stjórn hagsmunasamtaka knattspyrnukvenna hafa fengið varðandi þessi mál hafi verið að stíga varlega til jarðar. „Við erum smá hræddar að fá alla upp á móti okkur þegar við virkilega förum að skoða þetta. En við erum að skoða leiðir til að hvetja félögin til að opinbera skiptinguna, jafnvel þótt hún komi ekkert sérstaklega vel út, jafnvel hjá félögum sem eru kannski að standa sig ágætlega. Ég held að þetta verði smá sjokkerandi.“
Sveitarfélög sýni samfélagslega ábyrgð
„Það sem mér finnst líka vera skekkja er að íþróttafélögin eru með marga styrki en það virðist engin krafa vera um almennilegt jafnræði þarna. Við spyrjum bara: Hver er samfélagsleg ábyrgð ÍTF, sem er í eign þessara íþróttafélaga, og eru nátengd sveitarfélögunum sem setja stífar kröfur um jafnrétti?
Það þorir enginn að fara í þetta og það þorir enginn að nefna neitt. Bestu viðbrögðin sem við höfum verið að fá er hreinlega frá styrktaraðilum. Við finnum að það eru að vakna upp athugasemdir um að styrktaraðilar eru að setja einhverjar smá kröfur að fjármagn fari annað hvort jafnt eða jafnvel meira eyrnamerkt kvennabolta. En ég skal vera heiðarleg, mér finnst sveitarfélögin ekki sýna nægilega samfélagslega ábyrgð.“
Alltaf sama röksemdin fyrir ójafnréttinu
Í svörum frá félaginu Íslenskur Toppfótbolti, sem rekur Bestu deildir karla og kvenna, við spurningum Kjarnans vegna réttindagreiðslna kom fram að markaðslegar ástæður væru fyrir mismun í greiðslum, en karlalið fá áttfalt meira en kvennalið. Anna gefur lítið fyrir þessi rök.
„Við í stjórninni erum allar núverandi eða fyrrverandi knattspyrnukonur og sumar af okkur byrjuðu að spila fyrir 30 árum. Þetta er búið að vera röksemdin fyrir ójafnréttinu allan tímann. Við erum orðnar óskaplega þreyttar á þeim rökum að þetta borgi sig ekki fjárhagslega. Þessi markaðslögmál eru sett á seinustu öld í karllægu umhverfi þar sem konum var hreinlega bannað að spila íþróttina. Hvers á framtíðar knattspyrnukonan að gjalda ef við ætlum að halda áfram að stíla út frá þessum markaðslögmálum og ekki reyna að rugga við þeim?“
Ekki er hægt að beita þeim rökum að mati Önnu að það horfi enginn á kvennafótbolta.
„EM sannaði að það er svo sannarlega horft á kvennafótbolta. Þetta eru ekki rök sem standast lengur að okkar mati. Þetta er bara spurning um ákvörðun. Það er ekki jafnréttisstefna hjá ÍTF,“ bendir hún á og segir svörin sem Íslenskur Toppfótbolti gefur um skiptingu greiðslnanna endurspegli viðhorfið sem knattspyrnukonur upplifa.
„Jú, jú, þeir geta skýlt sér á bakvið einhver markaðslögmál en þeir geta líka ákveðið að breyta markaðslögmálunum með því að setja pening í kvennaknattspyrnu. Við erum allavega hætt að nenna að hlusta á þetta.“
Tala fyrir heildarendurskoðun á jafnrétti innan knattspyrnunnar
Hagsmunasamtök knattspyrnukvenna hafa verið til frá árinu 1990 en höfðu ekki verið starfrækt um nokkra hríð þegar þau voru endurvakin í lok febrúar á þessu ári. Baráttumál samtakanna eru að bæta hag knattspyrnukvenna á Íslandi og auka jafnrétti. Samtökin hafa það að markmiði að auka samstöðu, sýnileika, jafnrétti og virðingu kvenna innan íþróttarinnar. Samtökin eru hugsuð sem sameiningarafl í jafnréttisbaráttunni, jafnt innan knattspyrnufélaganna sem hreyfingarinnar í heild.
„Við höfum verið að tala fyrir heildarendurskoðun á jafnrétti innan knattspyrnuhreyfingarinnar og munum halda áfram að reyna að vinna í átt að því. Fjármagnið eitt og sér er ofboðslega stór partur af þessu en ef að við breytum ekki viðhorfinu til kvennafótboltans þá gerist ekkert.“
Spurð um hlutverk KSÍ segir Anna að samtökin skynji mikinn vilja þar til að vinna í átt að jafnrétti. „Í öllum samskiptum okkar við KSÍ þá er vilji til að reyna að breyta. Ég efast ekki um vilja KSÍ til að reyna að auka jafnréttið. Þau hafa þó takmörkuð völd yfir félagsliðunum.“
Knattspyrnukonur upplifi sig ekki eins mikilvægar og karlana
Anna segir það viðgangast í dag, rétt eins og þegar hún var að hefja sinn knattspyrnuferil, að knattspyrnukonur upplifi sig ekki jafn mikilvægar og knattspyrnukarla. „Þetta er rótgróið viðhorf og er kannski ekki við neinn að sakast en við þurfum að horfast í augu við.“
Hagsmunasamtök knattspyrnukvenna hefur óskað eftir viðbrögðum frá forsætisráðherra, sem fer með jafnréttismál. „Hún er öll af vilja gerð við að reyna að finna hvernig við getum breytt þessu. En það eru reglur sem gera það að verkum að hún má ekki skipta sér af þessu. Og það sama á við um KSÍ. Það þarf stórt samstarf, samstarf allra, við að skoða vandamálið. En þegar kemur að fjármagninu, þá er viðhorf Íslensks Toppfótbolta ekki að hjálpa okkur.“
Hvað greiðslurnar varðar þá kallar Anna eftir því að félögin sjálf sýni lit. „Í þessu tilfelli þá þurfa félögin að bregðast við, það þarf félag að stíga fram og varpa fram áhyggjum sínum ef eitthvað á að breytast.“