Næstu sex mánuði hið minnsta fá kol forgang í járnbrautarlestum Þýskalands. Þetta kemur ekki til af góðu enda höfðu stjórnvöld í Þýskalandi stefnt að því að hætta bæði vinnslu kola og brennslu þeirra á næstu árum í því markmiði að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. En nú blasa við þrengingar í raforkuframleiðslu sem eiga sér ýmsar skýringar, m.a. þær að innflutningur á kolum frá Rússlandi hefur stöðvast vegna innrásar þeirra í Úkraínu og viðskiptaþvingana í kjölfarið.
Sömuleiðis hefur dregið verulega úr innflutningi á rússnesku gasi til Evrópuríkja. Hann stöðvaðist reyndar um hríð í sumar að sögn Rússa vegna viðhalds á gasleiðslu. Og eftir að því viðhaldi lauk hefur gasstreymið ekki náð sömu hæðum og áður. Óttast er mjög að Pútín Rússlandsforseti muni nota gasið til þvingana í vetur þegar orkuþörfin er mest. Kolin verða því áfram nýtt í stórum stíl til að knýja kolaver sem framleiða rafmagn fyrir þýska þjóð.
En forgangur kolanna í járnbrautarlestirnar á sér líka aðra skýringu. Hún er sú að yfirborð Rínar og annarra áa sem notaðar eru til að flytja varning milli landa og landshluta er í sögulegu lágmarki eftir gríðarlega þurrkatíð sumarsins. Svo lítið vatn er í ám að stórflutningar um þær eru nær ómögulegir.
Það er ekki eins og járnbrautarlestir Þýskalands hafi brunað tómar um teina. Þær eru yfirleitt þaulsetnar af allra handa varningi. Að veita kolaflutningum forgang mun því koma niður á öðrum vöruflutningum, að minnsta kosti á köflum.
Farþegalestir þurfa að bíða
Samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar fá allir flutningar er tengjast orkuöflun forgang í lestirnar. Ferðir verða tíðari, farmur lestanna þyngri sem gæti haft áhrif á lífsgæði þeirra sem búa í nágrenni lestarteinanna. Þannig mun hávaði aukast og jafnvel staðbundin loftmengun.
„Þetta gæti líka þýtt að farþegalestir þurfa að bíða,“ segir í tilkynningu frá þýska ríkislestarfélaginu Deutsche Bahn. Seinkanir á slíkum lestum eru þegar tíðar og hafa verið gagnrýndar.
En ríkisstjórnin telur að nýju reglurnar um forgangsflutning kola og olíu séu nauðsynlegar svo að ekki komi til þess að loka þurfi kolaverum þegar veturinn gengur í garð.
Þjóðverjar höfðu þegar lokað nokkrum kolaverum til að ná markmiðum sínum í loftslagsmálum og fleiri slíkar lokanir voru fyrirhugaðar á næstunni. Markmiðið var að loka þeim sem flestum fyrir áramót. En nú hefur U-beygja verið tekin og ver sem búið var að loka hafa verið ræst að nýju og tengd við flutningskerfið.