„Allt þetta getur orðið þitt! En vald er sannarlega ekki sætur, lítill hvolpur sem stekkur upp í kjöltu þína og leggst niður. Það þarf að taka sér vald og halda því fast!“
Þessi orð sagði helsti ráðgjafi Birgitte Nyborg við hana er hún var um það bil að verða fyrsti kvenkyns forsætisráðherra Danmerkur. Með því tímabili í ævi hinnar metnaðarfullu Nyborg fylgdumst við með í þremur fyrstu þáttaröðunum af hinum geysivinsælu dönsku sjónvarpsþáttum, Borgen. Valdabaráttan, hrossakaupin, bakstungurnar og baktjaldamakkið sem hún átti í fyrstu erfitt með að taka þátt í, konan sem vildi breyta stjórnmálunum, einkenndu söguþráðinn og svo hennar einkalíf sem varð flóknara eftir því sem á leið.
Þessi flétta heillaði ekki aðeins Dani heldur áhorfendur víða um heim, ekki síst á Íslandi, og er Nyborg hvarf af skjánum fyrir áratug, þá formaður flokksins sem hún stofnaði, Nýja demókrataflokksins, sem hlaut að endingu stórsigur í þingkosningum, syrgðu það margir. Hví var ekki hægt að gera að minnsta kosti eina seríu til viðbótar?
Og nú er hún loks komin: Fjórða þáttaröðin af Borgen sem heitir Ríkið, valdið og sæmdin (Riget, magten og æren). Fyrsti þátturinn var frumsýndur í Danska ríkissjónvarpinu í gærkvöldi og eins og nafnið gefur til kynna er valdið enn meginstefið – enda jú enn verið að fjalla um dramatíkina í dönskum stjórnmálum. Því miður verður þáttaröðin ekki sýnd á RÚV líkt og hinar fyrri þar sem streymisveitan Netflix tryggði sér sýningarréttinn.
Birgitte Nyborg er enn formaður Nýja demókrataflokksins og eftir nokkur ár í stjórnarandstöðu er hún orðin utanríkisráðherra í ríkisstjórn með Verkamannaflokknum. Sú sem stjórnina leiðir er tíu árum yngri en Nyborg, orðin unga, sjarmerandi og metnaðarfulla konan í augum dönsku þjóðarinnar sem Nyborg hafði eitt sinn verið.
Sidse Babett Knudsen fer sem fyrr með hlutverk Nyborg og fleiri kunnugleg andlit munu áfram birtast á skjánum, m.a. Lars Mikkelsen og Birgitte Hjort Sørensen en einhverjir munu eflaust sakna Pilou Asbæk sem lék spunameistarann Kasper Juul en hann hefur nú sagt skilið við þáttaröðina.
Núna er Nyborg eldri og reyndari og líf hennar hefur breyst mikið. Börnin hennar tvö eru uppkomin. Stóra verkefnið sem við blasir í upphafi nýju þáttaraðarinnar er olíufundur á Grænlandi sem gæti orðið lykillinn að sjálfstæði þess. Þetta eru gleðitíðindi fyrir marga en utanríkisráðherrann Nyborg er ekki par hrifin þar sem hún hefur lagt áherslu á loftslagsmálin í sinni pólitík. Upphefst því barátta um framtíð norðurslóða, rétt eins og við þekkjum vel úr raunveruleikanum.
Greinin heldur áfram fyrir neðan stikluna.
Forsætisráðherrann ungi, Signe Kragh, ætlar ekki að láta segja sér fyrir verkum og sömu sögu er að segja um utanríkisráðherra Grænlands, Hans Eliassen.
Það er því alþjóðlegri bragur á Borgen í þetta skiptið þótt hið danska yfirbragð sé að sjálfstöðu enn til staðar.
„Vinsældir fyrri þáttaraðanna á alþjóðavísu komu á óvart,“ segir Eva Redvall, aðstoðarprófessor við Kaupmannahafnarháskóla og sérfræðingur í skandinavískri kvikmyndagerð. En dönsk innanríkispólitík og áherslan á einkalíf persónanna féll vel í kramið hjá fólki víða um heim.
Þegar fyrsta þáttaröðin af Borgen var frumsýnd árið 2010 þótti það nokkuð framandi að kona, móðir tveggja ungra barna, yrði forsætisráðherra. Það var m.a. framandi fyrir Dani enda var það ekki fyrr en ári síðar að fyrsta konan tók raunverulega við stjórn landsins. Fyrsta konan varð forsætisráðherra Svíþjóðar árið 2021 og árið 2017 varð Jacinda Ardern fyrsti forsætisráðherra Nýja-Sjálands sem eignaðist barn í embætti.
Borgen var sýnd í sjónvarpi í tugum landa á sínum tíma og er hún var tekin til sýninga á Netflix árið 2020 hóf ný kynslóð að horfa. Fjórða þáttaröðin verður einnig sýnd á Netflix en þó ekki fyrr en allir átta þættirnir hafa verið sýndir í danska ríkissjónvarpinu.
Það var því fólk á öllum aldri sem settist við sjónvarpsskjáinn í gær til að sjá fyrsta þáttinn. Og viðbrögðin eru góð ef marka má umfjöllun í dönskum fjölmiðlum. Jyllands-Posten gefur fjórar stjörnur af sex mögulegum og byggir þá einkunnagjöf á áhorfi á fyrstu þrjá þættina.
Blaðamaður Berlinske er enn örlátari og gefur fyrsta þættinum fimm stjörnur af sex mögulegum.
Fyrsti þátturinn hefur svo þegar fengið einkunnina 8,1 á IMDB.