Upphaflega stóð til að fulltrúadeild Bandaríkjaþings myndi kjósa um björgunarpakka Joe Bidens vegna kórónuveirunnar í dag en nú er útlit fyrir að þingið taki málið til afgreiðslu á morgun. Björgunarpakkinn var naumlega samþykktur af öldungadeild Bandaríkjaþings um helgina en fulltrúadeildin þarf að samþykkja pakkann áður en hann kemst á borð Bidens til undirritunar og lögfestingar. Búist er við því að samþykki fáist í fulltrúadeildinni, samkvæmt umfjöllun New York Times.
Kosning helgarinnar í öldungadeildinni fylgdi flokkslínum, 50 greiddu atkvæði með pakkanum. Allir öldungadeildarþingmenn Repúblikana, utan eins sem var fjarverandi, greiddu atkvæði gegn efnahagsaðgerðunum.
Aðgerðirnar eru gríðarlegar að vexti, umfang þeirra nemur um 1,9 billjón Bandaríkjadala. Það samsvarar um 245 billjónum íslenskra króna. Til samanburðar nam verg landsframleiðsla hér á landi á síðasta ári rétt innan við þrjú þúsund milljarðar króna samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar eða rétt um 1,2 prósentum af umfangi björgunarpakka Bidens.
180 þúsund krónur á mann
Allir einstaklingar sem þéna innan við 75 þúsund Bandaríkjadali í heildartekjur á ári, um 9,7 milljónir króna, eiga rétt á 1.400 dala ávísun, sem samsvarar rétt um 180 þúsund krónum. Einstæðir foreldrar fá styrkinn óskertan ef árstekjur þeirra eru innan við 112.500 Bandaríkjadalir, um 14,5 milljónir króna. Hjón með innan við 150 þúsund dali í árstekjur, eða um 19,4 milljónir króna, eiga rétt á tveimur slíkum ávísunum, eina á mann. Þá munu þeir foreldrar sem eiga rétt á greiðslu fá sambærilega ávísun fyrir hvert barn á heimilinu.
Tekjutenging gerir það að verkum að greiðslur lækka með hækkandi tekjum. Einstaklingar með yfir 80 þúsund dali, eða um 10,3 milljónir króna, í árstekjur fá þannig enga ávísun. Það sama gildir um einstæða foreldra sem hafa 120 þúsund dali, 15,5 milljónir króna, í árstekjur. Þá missa hjón réttinn til greiðslna fari árstekjur þeirra yfir 160 þúsund dali, um 20,6 milljónir króna. Styrkur vegna barna lækkar að sama skapi eftir því sem tekjur fólks hækka.
Í pakkanum er einnig að finna fé sem er eyrnamerkt dreifingu á bóluefni vegna COVID-19 sem og fé til skimunar, raðgreiningar og smitrakningar. Um 350 milljarðar Bandaríkjadala munu fara til ríkja- og sveitastjórna og um 130 milljarðar dala til skóla. Þá mun fé vegna björgunarpakkans einnig rata til háskóla, í samgöngur, húsnæðisaðstoð, barnaumönnun og mataraðstoð.
Viðbótargreiðslur til atvinnulausra standa í stað
Fram kemur í umfjöllun New York Times að upphaflega hafi staðið til að hækka viðbótargreiðslur til atvinnulausra úr 300 dollurum á viku í 400, eða úr tæpum 40 þúsund krónum í rúmar 50 þúsund. Til að tryggja stuðning allra Demókrata var fallið frá þessari hækkun. Samþykki fulltrúadeildin björgunarpakkann verður þetta úrræði í gildi fram í september en því var fyrst komið á fót með fyrri björgunarpakka sem samþykktur var í desember síðastliðnum.
Þá hefur fyrirhuguð hækkun lágmarkslauna verið felld úr frumvarpinu. Til stóð að hækka lágmarkslaun úr 7,25 dölum á klukkustund upp í 15 dali fyrir árið 2025. Með því að strika tillöguna um hækkun lágmarkslauna varð afgreiðsla málsins auðveldari í öldungadeildinni. Hefðu Demókratar haldið hækkuninni í frumvarpinu hefði það þurft fleiri atkvæði til samþykktar, 60 atkvæði samtals, í stað einfalds meirihluta. Þar að auki eru þingmenn Demókrata ekki einhuga um hækkunina.