Kyn lögmanna hefur þýðingu, óháð kyni dómara, og kvenkyns lögmenn eru líklegri til að vinna mál í héraðsdómi en karlkyns lögmenn. Aldur dómara virðist jafnframt hafa þýðingu fyrir úrslit mála þannig að dómarar, 50 ára og eldri, eru líklegri til að dæma varnaraðila í vil.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri þverfræðileg íslenskri rannsókn á sviði félagsfræði og lögfræði sem birtist í nýjasta tölublaði tímaritsins Stjórnmálum og stjórnsýslu.
Í rannsókninni eru tengsl kynferðis og aldurs dómara og lögmanna við úrslit dómsmála í héraði könnuð. Að rannsókninni standa Valgerður Sólnes, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, prófessor við félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild Háskóla Íslands, Benedikt Bogason, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands og Kjartan Vífill Iversen, rannsóknamaður við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands.
Í fyrsta sinn sem tengsl kyns og aldurs dómara og lögmanna í héraði við úrslit dómsmála eru könnuð
Þetta er í fyrsta sinn sem rannsakað er hér á landi með kerfisbundnum hætti hvort og þá hvaða tengsl séu á milli kynferðis og aldurs dómara og málflytjenda annars vegar og niðurstaðna dómsúrlausna hins vegar. Rannsóknin laut að því að greina upplýsingar um kynferði og aldur dómara og málflytjenda í þeim dómsúrlausnum í einkamálum, sem kærðar hafa verið eða áfrýjað til Hæstaréttar og Landsréttar, á tíu ára tímabili.
Enn hallar á konur í lögmennsku
Rannsakaðar voru dómsúrlausnir í einkamálum sem kærðar hafa verið eða áfrýjað til Hæstaréttar og Landsréttar, á tíu ára tímabili, frá 1. janúar 2019 til 31. desember 2019. Í ljósi þess að færri konur hafa gegnt störfum dómara og lögmanna og að enn hallar á konur í lögmennsku er mikilvægt að rannsaka tengsl kynferðis og dómsúrlausna að mati rannsakenda.
Starfsstétt lögfræðinga einskorðaðist nær eingöngu við karla til að byrja með en undir lok 20. aldar og í byrjun 21. aldar hafa konur í auknum mæli sóst eftir menntun og störfum í starfsstétt lögfræðinga. Í rannsókninni er bent á að árið 2019 útskrifuðust 127 nemendur með meistaragráðu í lögfræði frá íslenskum háskólum, þar af 76 konur og 51 karl. Konur voru þannig 60% brautskráðra nemenda með meistarapróf í lögfræði það ár. Á hinn bóginn hefur konum ekki fjölgað jafn hratt meðal starfandi lögmanna og fulltrúa á lögmannsstofum.
Hvað varðar kyn dómara voru 42 karlar og 23 konur dómarar árið 2019. Þar af voru í Hæstarétti sjö karlar og ein kona, í Landsrétti átta karlar og sjö konur og hjá héraðsdómstólunum 27 karlar og 15 konur dómarar. „Á þessu var gerð bragarbót árið 2020 með skipun tveggja kvenna í dómaraembætti við Hæstarétt, en eftir það sátu í Hæstarétti þrjár konur og fjórir karlar,“ segir í grein rannsakenda.
Niðurstöðurnar kalla á frekari rannsóknir
Í rannsókninni var gerð greining á þeim dómsúrlausnum í einkamálum sem kærðar hafa verið eða áfrýjað til Hæstaréttar og Landsréttar á tíu ára tímabili og gögnum safnað um kynferði og aldur dómara og málflytjenda í þessum málum. Spurt var hvort tengsl væru á milli kynferðis og aldurs annars vegar og úrslita dómsmálanna hins vegar.
Eins og fyrr segir gefa niðurstöðurnar til kynna að það að vera kvenkyns málflytjandi til sóknar og varnar eykur líkur á að mál falli umbjóðandanum í vil. Aldur dómara virðist jafnframt hafa tengsl við úrslit mála í þá veru að dómarar sem eru 50 ára eða eldri virðast hafa tilhneigingu til að dæma frekar varnaraðila í vil en dómarar sem eru 49 eða yngri.
Rannsakendur segja niðurstöðurnar athyglisverðar og kalli á frekari rannsóknir á því hvað veldur. „Þar sem mikið er fjallað stöðu íslenskra kvenna á kynjabilskvarðanum sem stjórnvöld hafa nýtt til að vekja jákvæða athygli á landi og þjóð, þrátt fyrir augljósa vankanta kvarðans, þá væri t.d. áhugavert að gera samanburðarrannsókn á niðurstöðunum hér á landi og í þeim löndum þar sem heildarskor kvenna á kynjabilskvarðanum er ekki eins gott,“ segir í grein rannsakenda.
Ekki ljóst hvað veldur því að kvenkyns lögmenn skili betri árangri
Þá hvetja rannsakendur til að þær spurningar sem upp vakna við niðurstöður rannsóknarinnar verði rannsakaðar frekar. „Til dæmis svarar rannsóknin því ekki af hverju kvenkyns málflytjendur skili betri árangri fyrir dómstólum eða hvað það þýði að eldri dómarar séu líklegri til að dæma varnaraðila í vil en þeir sem yngri eru,“ segir í grein rannsakenda.
Með rannsókninni og niðurstöðum hennar vona höfundar að niðurstöðurnar gagnist umræðunni um starfsemi dómstóla og jafnrétti og hvetji til frekari rannsókna á því sviði.