Læknafélag Íslands telur umræðu um dánaraðstoð hér á landi hafa verið bæði „einhliða og bjagaða“ og segist af þeim sökum ekki geta stutt við þingsályktunartillögu þess efnis heilbrigðisráðherra verði falið að kanna afstöðu heilbrigðisstarfsfólks til dánaraðstoðar með skoðanakönnun.
Félagið leggst gegn því að skoðanakönnun af þessu tagi verði gerð fyrr en umræðan um dánaraðstoð verði „víðtækari og almennari“ og „ekki knúin fram af þeim sem harðast vilja beita sér fyrir lögleiðingu dánaraðstoðar,“ samkvæmt því sem segir í umsögn félagsins til Alþingis, en þar er þingsályktunartillagan, sem þingmenn fimm flokka leggja nafn sitt við, til umræðu í velferðarnefnd.
Samkvæmt þingsályktunartillögunni á markmiðið með gerð skoðanakönnunarinnar að vera að fá sem gleggsta mynd af afstöðu heilbrigðisstarfsfólks til álitaefnisins, sem hafi „fengið meiri opinbera umræðu en áður eftir að skýrsla heilbrigðisráðherra um dánaraðstoð kom út, og kanna á hlutlausan og vandaðan hátt hvort og hvernig afstaða heilbrigðisstarfsfólks hefur breyst svo unnt sé að vinna málið áfram.“
Læknafélagið hefur verið gagnrýnið á nálgun stjórnvalda á þessi mál. Í umsögn þess til velferðarnefndar er vísað til þess að starfsmenn líknarráðgjafateymis Landspítala gerðu miklar athugasemdir við skýrslu heilbrigðisráðherra um dánaraðstoð sem birt var síðasta haust og kölluðu eftir því að skýrslan yrði dregin til baka. Meðal annars var gagnrýnt að líknarmeðferð væri sögð ein tegund dánaraðstoðar í skýrslu heilbrigðisráðherra.
Tungutakið ásteytingarsteinn
Auk þess komu starfsmenn líknarráðgjafateymisins á framfæri athugasemdum við tungutakið, en orðin dánaraðstoð og líknardráp eru bæði notuð í íslensku yfir sama hlutinn, enska hugtakið euthanasia.
„Orðið er loðið og greinilega ætlað til þess að nota „fallegra orð“ en líknardráp sem hingað til hefur verið notað. Þetta nýyrði þarf meiri umræðu áður en það er notað í opinberum skýrslur. Lífsrof samanber þungunarrof væri ef til vill orð sem ætti að hugleiða,“ sagði í umfjöllun starfsmanna líknarráðgjafateymis, sem fjallað var um á vef Læknafélagsins og félagið vísar til í umsögn sinni.
Í umsögn Læknafélagsins er líka vísað til greinar Jóns Snædal fyrrverandi forseta Alþjóðasamtaka lækna sem birtist í Kjarnanum síðasta haust. Honum var orða- og hugtakanotkunin einnig ofarlega í huga.
„Þegar ekki er góð samstaða um hugtakanotkun verður að taka allar skoðanakannanir með fyrirvara, ekki síst við samanburð milli landa og milli tíma. Þetta á við hvort sem kannanir beinast að almenningi eða heilbrigðisstarfsfólki. Ef líknarmeðferð er talin vera hluti af dánaraðstoð er t.d. líklegt að 95-100% séu fylgjandi dánaraðstoð,“ sagði Jón í grein sinni, sem var svar við grein tveggja stjórnarmanna í Lífsvirðingu, félagi um dánaraðstoð.
Stjórnarmennirnir, Bjarni Jónsson og Sylviane Lecoultre, höfðu skömmu áður skrifað í Kjarnann og sagt það af og frá að nota orðið líknardráp. „Rétt þýðing er „góður dauði“. Gæti verið að þeir sem nota líknardráp í málflutningi sínum geri það í þeim tilgangi að setja það í neikvæða merkingu?“ sagði í grein þeirra.
Flutningsmenn þingsályktunartillögunnar vilja að gerð verði ný skoðanakönnun og segjast telja vísbendingar um að afstaða heilbrigðisstarfsfólks til þessara mála hefði breyst, frá því að síðasta könnun var gerð árið 2010. Samkvæmt rannsóknum og fréttaflutningi frá Norðurlöndum á undanförnum árum mætti til dæmis greina að afstaða heilbrigðisstarfsfólk hefði „færst meira og meira í átt til frjálslyndis á síðustu 10 árum.“
Læknafélag Íslands telur þó ekki rétt, á þessum tímapunkti, að kanna hvar viðhorfin standa hérlendis.