Landsvirkjun óskar eftir því að umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis, sem nú hefur þingsályktunartillögu að 3. áfanga rammaáætlunar til umfjöllunar, færi virkjanakostinn Kjalölduveitu úr verndarflokki í biðflokk og Búrfellslund úr biðflokki í nýtingu. Fyrirtækið bendir ennfremur í umsögn sinni um tillöguna á þær „óafturkræfu afleiðingar sem verndun heilla vatnasviða í kjölfar flokkunar eins virkjunarkosts í verndarflokk hefur í för með sér. Slík flokkun getur þannig komið í veg fyrir alla framtíðarnýtingu vatnasviðsins, óháð staðsetningu eða stærðargráðu. Fyrirtækið mælist til að slíkar ákvarðanir verði látnar bíða heildstæðrar endurskoðunar á rammaáætlun og umræddir virkjunarkostir í vatnsafli verði færðir í biðflokk“.
Nokkrir virkjanakostir fyrirtækisins í annars vegar Héraðsvötnum (Jökulsá austari og vestari) eru í verndarflokki tillögunnar sem og nokkrir kostir í Skjálfandafljóti.
Þingsályktunartillaga að þriðja áfanga rammaáætlunar er nú komin til þinglegrar meðferðar í fjórða sinn á rúmlega fimm árum. Núgildandi rammaáætlun, þar sem virkjanahugmyndir eru flokkaðar í nýtingar-, bið- og verndarflokk, er frá árinu 2013 og er því orðin níu ára gömul. Verkefnisstjórnir næstu tveggja áfanga hafa lokið störfum og stjórn þess fimmta þegar hafið störf.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks er að finna loforð um að lokið verði við þriðja áfangann. Því er hins vegar bætt við í sömu setningu að fjölga eigi kostum í biðflokki. Hægt er að hreyfa við flokkuninni svo lengi sem Orkustofnun hefur ekki gefið út virkjanaleyfi fyrir kosti í nýtingarflokki eða svæði í verndarflokki hafi verið friðlýst.
Um 80 kostir í jarðvarma, vatnsafli og vindorku eru flokkaðir í þrennt í tillögunni sem byggir alfarið á niðurstöðu verkefnisstjórnar áætlunarinnar sem skilaði af sér lokaskýrslu á ágúst árið 2016. Landsvirkjun telur hins vegar ákvörðun verkefnisstjórnarinnar um að raða Kjalölduveitu í verndarflokk ekki í samræmi við lög. Stjórnin hafi tekið stjórnvaldsákvörðun sem hún sé ekki bær að lögum til að taka með því að raða kostinum beint í verndarflokk án umfjöllunar faghópa. Var það gert á þeim rökum að Kjalölduveita væri breytt útfærsla Norðlingaölduveitu sem væri í verndarflokki, að sama vatnasvið, Þjórsárver, væri undir í báðum tilvikum.
Landsvirkjun telur að ákvörðun verkefnisstjórnar rammaáætlunar um flokkun Kjalölduveitu í verndarflokk án umfjöllunar faghópa hafi verið ólögmæt og óskar því eftir því að honum verði í meðförum Alþingis raðað í biðflokk.
Raforkukerfið fullselt
„Við stöndum á tímamótum þar sem orkuþörf eykst og ákall heimsins er að sú orka verði endurnýjanleg,“ segir í umsögn Landsvirkjunar sem Hörður Arnarson, forstjóri fyrirtækisins, ritar. Breytingar sem nú þegar eru hafnar og munu aukast umtalsvert á næstu áratugum s.s. orkuskipti og 4. iðnbyltingin séu þar gott dæmi. „Landsvirkjun styður heilshugar metnaðarfull áform ríkisstjórnarinnar í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og markmið um full orkuskipti eigi síðar en árið 2040. Fyrirtækið bendir á að eigi þau markmið að nást er nauðsynlegt að auka orkuöflun.“
Hörður skrifar að raforkukerfið sé fast að því fullselt og raforkuflutningskerfið fulllestað. Megi í því samhengi benda á nýlegar skerðingar til viðskiptavina Landsvirkjunar sem séu að hluta til til komnar vegna hindrana í flutningskerfi raforkunnar. „Í því ljósi bendir Landsvirkjun á að mikilvægt er að hafa staðsetningu virkjunarkosta til hliðsjónar við röðun á virkjunarkostum í nýtingarflokk, biðflokk og verndarflokk,“ skrifar Hörður. „Fyrirséð er að orkuþörf muni aukast mikið á sunnanverðu landinu og því er æskilegt að tækifæri séu til aukinnar orkuöflunar í þeim landshluta.“
Þeir virkjanakostir sem Landsvirkjun áformar að virkja næst eru allir í nýtingarflokki samkvæmt núgildandi rammaáætlun. Þetta eru Hvammsvirkjun í Þjórsá (93 MW), virkjanir á veituleið Blöndu (28 MW) og stækkun Þeistareykjavirkjunar.
Í tillögu að 3. áfanga áætlunarinnar eru fjórir nýir virkjanakostir Landsvirkjunar settir í nýtingarflokk: Skrokkölduvirkjun á vatnasviði Köldukvíslar, Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun í neðri hluta Þjórsá og vindorkukosturinn Blöndulundur. Ekki var breytt flokkun fjögurra virkjanahugmynda fyrirtækisins í nýtingarflokki: Hvammsvirkjun, virkjanir á veituleið Blönduvirkjunar, Bjarnarflagsvirkjun og Kröfluvirkjun.
Sex nýir virkjunarkostir Landsvirkjunar eru í biðflokki tillögunnar: Tvær útfærslur virkjunar Hólmsár, Stóra-Laxá, Hágönguvirkjun, jarðvarmakosturinn Fremrinámar og vindorkukosturinn Búrfellslundur.
Í verndarflokki tillögunnar eru þrír kostir Landsvirkjunar í Héraðsvötnum: Skatastaðavirkjanir C og D og Villinganesvirkjun. Í þann flokk er ennfremur lagt til að setja fjórar virkjanahugmyndir fyrirtækisins í Skjálfandafljóti: Fljótshnjúksvirkjun og Hrafnabjargavirkjanir A, B og C. Allir þessir kostir eru flokkaðir í biðflokk í núgildandi rammaáætlun.
Verkefnisstjórn þriðja áfanga lagði svo ekki til breytingar á flokkun fimm kosta sem eru þegar í verndarflokki núgildandi rammaáætlunar. Þar eru hinar fyrrnefndu virkjanir kenndar við Kjalöldu annars vegar og Norðingaöldu hins vegar, báðar á vatnasviði Þjórsár, ein útgáfa Hólmsárvirkjunar, Tungnaárlón og Gjástykki. Ljóst er að ekki verður hróflað við flokkun þriggja þessara virkjanahugmynda því Guðmundur Ingi Guðbrandsson friðlýsti hluta Hólmsár, Gjástykki og Tungnaá á síðasta kjörtímabili er hann var umhverfisráðherra.