Börn og unglingar sem fá COVID-19 fá sjaldan einkenni sem vara lengur en í tólf vikur. Þetta er niðurstaða rýni hóps vísindamanna í fjórtán rannsóknir sem gerðar hafa verið á fyrirbæri sem kallað hefur verið langvarandi COVID (long covid).
Niðurstaða rýninnar var birt í vísindatímaritinu Pediatric Infectious Disease Journal, og bendir hún til að langvarandi COVID sé fágætara hjá börnum og unglingum en áður hafði verið óttast. Þrátt fyrir þessa niðurstöðu er talið að frekari rannsókna sé þörf til að varpa skýru ljósi á hættuna á hinum langvarandi einkennum sjúkdómsins meðal ungs fólks.
Þær fjórtán rannsóknir sem voru rýndar náðu til tæplega 20 þúsund barna og unglinga sem fengið höfðu langvarandi einkenni eftir að sýkjast.
„Þegar þú ert að meta áhættu og ávinning af bóluefnum þá viltu alltaf vera viss að sá skaði sem sjúkdómurinn veldur sé meiri en mögulegur skaði af bólusetningu,“ hefur Guardian eftir einum meðhöfunda rannsóknarinnar, Nigel Curtis, prófessor í smitsjúkdómum barna við Háskólann í Melbourne og sérfræðingur hjá Murdoch Children’s Research Institute. Þar sem hættan á alvarlegum veikindum vegna COVID-19 hjá börnum sé talin lítil sé lykilatriði að varpa skýru ljósi á langvarandi áhrif sjúkdómsins.
Ýmislegt getur að sögn Curtis skekkt niðurstöður í rannsóknum. Til að mynda sé almennt líklegra að fólk sem finni fyrir miklum einkennum svari spurningum um einkenni sjúkdómsins en þeir sem fengu lítil eða engin einkenni. Það kunni að hafa gerst í einhverjum þeirra rannsókna sem gerðar hafi verið á langvarandi COVID.
Hann segir mikilvægt að gera ekki lítið úr þeirri staðreynd að langvarandi einkenni geti verið til staðar hjá börnum og að þau þurfi að greina og meðhöndla. Enn er margt á huldu hvað þetta varðar. Engin ein almenn skilgreining er enn til sem flækir meðferð við kvillunum.
Tvö börn á sjúkrahúsi á Íslandi
Í annarri rannsókn, sem einnig var gerð af Murdoch-rannsóknarstofnuninni, benda niðurstöðurnar til að delta-afbrigði kórónuveirunnar sé ekki að valda alvarlegri sjúkdómseinkennum hjá börnum en fyrri afbrigði. Hins vegar hafi smithæfni afbrigðisins gert það að verkum að smittíðni hjá börnum og unglingum er hærri.
Tvö börn með COVID-19 liggja á Landspítalanum. Annað þeirra var á gjörgæsludeild í gær en var svo fært á almenna deild. Þetta er í fyrsta sinn frá upphafi faraldursins sem leggja þarf inn börn vegna sjúkdómsins.