Gunnar Einarsson, sem hætti sem bæjarstjóri Garðabæ eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar, var launahæstur allra bæjarstjóra á síðasta ári með 3,2 milljónir króna á mánuði. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, var með nánast sömu heildartekjur á árinu 2021. Þeir tveir voru einu stjórnendur sveitarfélaga sem voru með yfir þrjár milljónir króna í heildartekjur að meðaltali á mánuði í fyrra. Þetta kemur fram í Tekjublaði Frjálsrar verslunnar sem birt var í vikunni.
Alls voru 20 sveitarstjórnarmenn með tvær milljónir króna á mánuði eða meira í laun í fyrra og 100 sveitarstjórnarmenn voru með yfir eina milljón króna í heildartekjur.
Alls 30 með meira en 1,5 milljón á mánuði
Þegar horft er einvörðungu á þá sem sátu í borgar-, bæjar- eða sveitastjórastöðum í fyrra kemur í ljós að 30 slíkir voru með 1,5 milljónir króna eða meira í laun á síðasta ári. Alls námu mánaðargreiðslur til hópsins úr opinberum sjóðum 57,4 milljónum króna, sem þýðir að meðallaun þeirra voru um 1,9 milljónir króna á mánuði.
Á ári fékk þessi hópur því samtals um 698 milljónir króna í laun sem þýðir að hvert kjörtímabil, miðað við þau laun, kostar um 2,8 milljarða króna í launagreiðslur til 30 borgar-, bæjar- eða sveitarstjóra.
Vert er að taka fram að hér er um að ræða laun borgar-, bæjar- og sveitarstjóra á síðasta ári. Eftir kosningarnar í vor var samið að nýju við þá sem héldu áfram, eða voru ráðnir, og samkvæmt frétt Vísis frá því í lok júní eru sex æðstu stjórnendur sveitarfélaga með laun frá 2,1 upp í 2,5 milljónir króna á mánuði i grunnlaun. Um er að ræða borgarstjórann í Reykjavík og bæjarstjóra í Garðabæ, Kópavogi, Reykjanesbæ, Akureyri, Seltjarnarnesi, Akranesi og Í Ölfusi.
Alls eru sveitarfélögin á landinu 64 talsins. Fimm þeirra eru með færri en 100 íbúa og 41 er með færri en tvö þúsund íbúa.